08.05.1974
Neðri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4340 í B-deild Alþingistíðinda. (3929)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það hefur verið krafa þingflokks Alþfl., að ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar segði af sér, fyrst hún hefur misst meiri hl. á Alþ. og augljóst er orðið, að hún hefur ekki komið sér saman um neinar heildartillögur um lausn þess efnahagsvanda, sem að steðjar og hún hefur átt meginþátt í að skapa. Nú virðist svo sem ríkisstj. ætli ekki að segja af sér, heldur rjúfa þing þegar síðdegis í dag og efna til kosninga 30. júní.

Þingrof getur farið fram með tvennum hætti. Það getur tekið gildi frá þeim degi, sem þingrof fer fram, þannig að umboð sé tekið af þm. og engir þm. séu til, þangað til kosið hefur verið. Þessa aðferð viðhafði Tryggvi Þórhallsson, þegar hann efndi til hins mjög umdeilda þingrofs 1931.

Hins vegar getur þingrof orðið með þeim hætti, að það taki gildi frá þeim degi, er nýjar kosningar fara fram. Sá háttur hefur jafnan verið á hafður undanfarna áratugi. Síðan lýðveldi var stofnað á Íslandi, hefur þingrof aldrei farið fram með öðrum hætti en þessum. Nú vil ég beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvorri aðferðinni hann hyggist beita, ef hann nú rýfur þing. Ég ber þessa fsp. fram nú í upphafi fundar í hv. Nd., því að ég geri ráð fyrir því, að ekki gefist aðstaða til neinna fsp. eða umr. á þeim fundi Sþ., þegar þingrofið verður tilkynnt.

Um þessar tvær þingrofsaðferðir segir hæstv. forsrh. í fræðiriti sínu um stjórnskipun Íslands, á bls. 254, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingrof hefur ýmist verið látið taka gildi frá dagsetningu þingrofsúrskurðar eða einhverjum tilteknum degi og þá venjulega þeim degi, er kosningar fara fram. Fyrri hátturinn var algengari áður fyrr, en í seinni tíð er hið síðarnefnda tíðara. Er það almennt hagkvæmara, eins og áður er sagt, því að þá verður landið ekki þingmannslaust.“

Fsp. mín til hæstv. forsrh. er um það, hvorri þingrofsaðferðinni hann hyggist nú beita.