08.11.1973
Sameinað þing: 16. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

91. mál, samningar við Belgíu, Noreg og landsstjórn Færeyja um veiðar innan fiskveiðilögsögu Íslands

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir á þskj. 99, staðfestir, ef samþ. verður, samninga þá, sem ríkisstj. hefur gert við ríkisstj. Belgíu og Noregs og landstjórn Færeyja varðandi heimildir til að veiða innan fiskveiðilögsögu Íslands.

Um till. er ekki ástæða til að fara mörgum orðum, þar eð samningar þeir, sem hér um ræðir, eru almennt kunnir. En hér er um þrjá samninga að ræða:

1. Samningur við Belgíu, dags. 7. sept. 1972, er gildir fyrir 19 skip, sem fiski samkv. leyfum á tilteknum svæðum, sem nánar er gerð grein fyrir í fskj. I með þáltill. á þskj. 99.

2. Samkomulag við Noreg, dags. 10. júlí 1973, um leyfi fyrir um það bil 45 skip, er stunda línuveiðar, allt að 125 fet að stærð, enda er á því byggt, að ekki séu fleiri en um það bil 30 skip, er stundi veiðar samtímis samkv. reglum, sem nánar eru tilgreindar á fskj. II með till. til þál. á þskj. 99.

3. Samkomulag við Færeyjar í tvennu lagi. Fyrst samkomulag, dags. 16. ágúst 1972, um heimild til línu- og handfæraveiða á svæðinu milli 12 og 50 mílna, eins og nánar er ákveðið á fskj. III á þskj. 99. Og í öðru lagi bréf frá utanrrh.

til Atla Dam lögmanns Færeyja, dags. 19. sept. 1972, um leyfi fyrir 10 færeysk togveiðiskip til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu, enda fylgi þau í hvívetna íslenskum lögum og sömu reglum varðandi veiðarnar og gilda fyrir íslensk skip við sams konar veiðar. Nöfn skipanna eru talin upp á sérstökum fskj. á þskj. 99.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um till. fleiri orðum. Hún skýrir sig sjálf, enda hafa ákvæði hennar verið í gildi nú um nokkurn tíma, eins og ég hef áður greint frá. Ég mun leitast við að svara fsp., ef fram koma, en að öðru leyti legg ég til, herra forseti, að till. verði vísað til hv. utanrmn. til meðferðar.