08.05.1974
Neðri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4341 í B-deild Alþingistíðinda. (3930)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara hér út í langar umr. utan dagskrár. Ríkisstj. mun neyta þess réttar, sem hún hefur til þess að bera sin mál undir þjóðardóm, þegar svo er komið fyrir henni, að hún hefur ekki lengur meiri hl, á Alþ. Þetta er réttur, sem er viðurkenndur í öllum þingræðislöndum, nema þar sem gerð er alveg sérstök undantekning frá og þingrofsrétturinn af vissum sögulegum ástæðum algerlega útilokaður.

Það er eðlilegt að sjálfsögðu og þarf ekki að hafa um það mörg orð, að það sé fráfarandi forsrh., sem stendur fyrir slíkri aðferð, vegna þess að það, sem hann skýtur undir þjóðardóm, er starf hans og stefna undanfarin ár.

Hvor aðferðin verði viðhöfð, að láta gildi þingrofsins taka gildi við dagsetningu eða frá einhverju síðara tímatakmarki, mun ég ekki skýra frá hér, vegna þess að ég mun ekki fara að segja frá því, hvernig þessu er háttað áður en ég hirti það þingheimi. Ég hef neitað öllum fjölmiðlum og öðrum um allar upplýsingar varðandi þetta, vegna þess að ég tel Alþ. eiga heimtingu á því að fá þetta fyrst og beint, eins og það er og frá því var gengið, þegar aðstaða verður til þess og öðrum störfum er lokið á Alþingi.

Eins og hv. þm. hefði getað lesið, ef hann hefði haldið áfram að lesa það, sem í bók minni stendur, hefði hann getað sagt, að báðar aðferðirnar séu jafnréttháar. Báðar eru gildar, og það má velja um hvora fyrir sig. En ef svo stendur á af einhverjum ástæðum, að það þarf að losa sig við þingið strax, þá er auðvitað ómögulegt annað en að beita þeirri aðferðinni, sem lætur þetta taka gildi strax. Ég vona, að hæstv. þm., og ég vona líka, að þetta boði gott, að ég nefndi hann hæstvirtan, — muni á næstunni leggja áherslu á að kynna sér bók mína betur en hingað til. Hann hefur aldrei nema gott af því. Um þetta einangraða atriði út af fyrir sig, um þingrof, getur hann fengið allt, sem hann þarf að víta, í ritgerð Bjarna heitins Benediktssonar í afmælisriti Einars Arnórssonar í stuttu máli saman dregið. En miklu stærri rit eru til um þetta, ef hann hefði áhuga á því, m.a. doktorsritgerð Knuds heitins Berlins við Kaupmannahafnarháskóla. Ég efast ekki um, að hann muni kynna sér þessi rit vel á næstu vikum, og mér er það sönn ánægja að vera honum innan handar um uppfræðslu í því efni.