08.05.1974
Neðri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4342 í B-deild Alþingistíðinda. (3931)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram, að ég hef ekki vefengt rétt hæstv. forsrh, til þess að rjúfa þing. Ég hef einnig kynnt mér rit hans um stjórnskipun Íslands nógu rækilega til þess og enn fremur ritgerðir annarra merkra stjórnlagafræðinga, t.d. Bjarna heitins Benediktssonar, til þess að gera mér alveg ljóst, að hann hefur formlegan rétt til þess að velja hvora þessa aðferð sem honum sýnist. En einmitt vegna þess, að ég tel mig hafa ástæðu til að óttast, að hann muni beita fyrri aðferðinni, þeirri aðferð, sem hann sjálfur telur í riti sínu óhagkvæmari, af því að hún valdi því, að þá verði landið þingmannslaust, sá ég ástæðu til að beina þessari fsp. til hans, ef hún kynni að mega verða til þess, að hann tæki skynsamlegri, hyggilegri og ábyrgari ákvörðun en ég nú óttast, að hann hafi í hyggja að gera.

Ég vek athygli á því, að hann neitar því ekki, að hann kynni að senda Alþ. heim í dag. Hann notaði orðin „að losa sig við þingið“, Ég vil í örfáum orðum benda á, hvaða áhrif slík ákvörðun hefði. Þá yrði ekkert Alþingi á Íslandi. Þá yrði ekki unnt að kveðja Alþingi saman, hvað sem kann að gerast, innanlands eða erlendis. Þótt stórtíðindi kynnu að gerast hér á landi, yrði engin löggjafarstofnun starfandi. Þótt stórviðburðir gerðust í landhelgismálinu á erlendum vettvangi, yrði ekkert Alþ. til að taka afstöðu til þeirra. Þótt óvæntir stórviðhurðir gerðust innanlands eða utan, er Alþingi Íslendinga nú ekki talið koma það við eða yrði ekki, ef þessi aðferð yrði viðhöfð. Ríkisstj. Framsfl. og Alþb. hefði þá öll völd í landinu í sínum höndum. Íslenzkum kommúnistum hefði aldrei áður verið fengið annað eins umboð.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þessari ríkisstj. hefur mistekist stjórn efnahagsmála gersamlega. Hún hefur brugðist eigin loforðum sínum í utanríkis- og varnarmálum. Henni hefur ekki tekist að leiða landhelgismálið til endanlegra lykta. Ef hæstv. forsrh. gerir það, sem nú er ástæða til að óttast, að hann geri síðdegis í dag, lyki ríkisstj. ferli sínum á þann hátt að sýna Alþingi Íslendinga, elstu stofnun þjóðarinnar, beina lítilsvirðingu og taka sér vald í hendur, sem Alþ. ber samkv. lýðræðisreglum, og um leið skapa ástand, sem gæti reynst þjóðhættulegt. Slíkum fyrirætlunum vill þingflokkur Alþfl. harðlega mótmæla.