08.05.1974
Neðri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4345 í B-deild Alþingistíðinda. (3933)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég er sammála formanni Alþfl. um það, að forsrh. hafi tvímælalaust þingrofsvald, um það verði ekki deilt. En hitt er deiluefnið, sem hér er risið, hvort þingrofið á að taka gildi við dagsetningu, sem gæti orðið seinni partinn í dag, eða á kjördegi.

Það, sem ég kvaddi mér hljóðs til að benda á, gæti ég nú ítrekað eftir síðasta ræðumanni, að samkv. 1. gr. stjórnarskrárinnar skal vera þingbundin stjórn á Íslandi. Hvernig í ósköpunum getur hæstv. forsrh., einn fremsti fræðimaður okkar í stjórnlagafræðum, prófessor og kennari í þeim fræðum, — hvernig getur hann hugsað sér þingræði í landi, þar sem ekkert þing er, því að þannig verður ástandið nú í tvo mánuði? Það er alveg augljóst, að það stenst ekki samkv. 1. gr. stjórnarskrárinnar að velja um þann kostinn að láta þingrofið taka gildi við dagsetningu. Það verður að hafa það með þeim hætti, sem gert hefur verið undanfarin ár, að þingrofið taki gildi á kjördegi, það hafa gerst á síðari árum athurðir, sem undirstrika þetta alveg sérstaklega.

Það er leitað eftir fordæmum og nefnt, hvað gerðist 1931 t.d. En árið 1944 urðum við lýðveldi og kusum okkur forseta, og jafnvel ákváðum við, hverjir vera skyldu handhafar forsetavalds, þegar forseti er fjarverandi. Einn af þeim, sem með forsetavald fara, og sá, sem er æðstur þeirra tvímælalaust, er forseti Sþ. Getur þm. starfað áfram sem handhafi forsetavalds, ef á það reynir, þegar forsrh, er búinn að svipta hann þingmennskunni? Það er alveg fráleitt. Ég tel því, að hæstv. forsrh. verði að reyna að lesa eða a.m.k. að hugsa betur. Hann fékk eintakið af sinni ágætu og gagnlegu bók lánað hjá formanni Alþfl. og hafði það hér og gat flett því, en hann gat ekki fundið neinn stað betri en þann, sem lesinn var upp, þar sem hann sjálfur lætur í ljós það fræðimannsálit, að það hljóti að vera hagkvæmara og skynsamlegra að miða þingrof við kjördag, en ekki dagsetningu.