08.05.1974
Neðri deild: 125. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4348 í B-deild Alþingistíðinda. (3957)

291. mál, almannatryggingar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Enda þótt hv. 12. þm. Reykv. og ég höfum ekki undirritað þetta nál., liggur ekkert fyrir um afstöðu okkar til málsins af þeirri einföldu ástæðu, að okkur hefur enginn kostur gefist til þess að athuga það að einu eða neinu leyti. Hv. frsm., hv. 2. þm. Reykn., skýrði frá því, að n. hefði athugað þetta mál. Það hefur heilbr.- op trn. ekki gert. Það var boðaður fundur í heilbr.- og trn. kl. 13.30 í dag. Honum var síðan flýtt með boðum til kl. 1. Hann var síðan afboðaður. Hann var þar næst boðaður kl. 3. Hann var síðan, eftir að hæstv. forseti hafði tilkynnt um fund í d. kl. 3, boðaður fyrirvaralaust og stóð í örfáar mínútur, þar sem þessu máli, sem mér sýnist allviðamikið, var rubbað af með þeim hætti, sem dæmin sanna. Þetta eru að sjálfsögðu engin vinnubrögð og langt frá því að vera hinu háa Alþ. samboðin.

Það var gengið um hér, án þess að nokkur nefndarfundur hefði verið haldinn um málið, og menn beðnir um að skrifa upp á nál. Það gerði einn af þm., hann gekk hér um ganga til þess að smala saman nm. til þess að fá þá til að skrifa upp á þetta frv., án þess að það hefði nokkru sinni verið lagt fyrir eða tekið fyrir í n. Allir menn sjá, hver óhæfa þetta er, enda var það ekki fyrr en þetta frv. hafði verið afgr. í n., sem einstaka nm. fóru að spyrja eftir því, hvað einstakar gr. þess þýddu. Fyrir því er það, að það kemur auðvitað ekki til greina, að við eigum neina aðild að þessu.

Ég vil þó taka það fram, að við örstutta athugun sýnist mér t.d. 3. pr. þessa frv. mikilsverð og þá þar af leiðandi þær breyt., sem hv. Ed. hefur gert á þeirri gr. um hækkun, sem þar er lögð til, hækkun úr 30 þús. kr. upp í 37 500 og úr 64 þús., eins og þar segir, upp í 80 þús. kr. Út af fyrir sig hefði ég getað samþ. að þessi gr. verði lögfest. En hér eru mörg fleiri atriði og öll eru almannatryggingalögin það viðamikil, að engu tali tekur og það er hin mesta óhæfa að standa að breyt. á þeim með þessum hætti, eins og við höfum nú fyrir augum.

Ég geri ráð fyrir því, að við hv. 12. þm. Reykv. munum freista þess að bera fram brtt. við frv. við 3. umr. þess. En ég veit ekki, hvort þess er nokkur kostur, miðað við þau vinnubrögð, sem hér eru viðhöfð. Allt að einu mun þess freistað að hafa áhrif á meðferð þessa máls, eins og frekast er kostur. En ég ítreka eindregin mótmæli mín við þessum vinnubrögðum, og skiptir þá engu, þótt þau kunni einhvern tíma áður að hafa verið viðhöfð. Þau fordæmi eru ekki til fyrirmyndar. Hið háa Alþ. verður að breyta til í þessu efni, ég tala nú ekki um, þegar svo stendur á, að á næstu mínútum e.t.v. hyggst hæstv. forsrh. grípa til þess ráðs að svipta þm. umboði sínu. Það kann að vera, að hæstv. forsrh. hafi til þess lögformlegan rétt, en engan siðferðisrétt. Hann brýtur þar a.m.k. siðferðisreglur allar, ef hann ætlar að fara fram með þeim hætti, eins og mönnum sýnist, að í boði sé. Þegar þannig stendur á, að slíkt er í bígerð, er rokið upp til handa og fóta og ætlast til þess af hv. þm., að þeir afgreiði ýmis mikilsverð mál. Hv. þm. eiga að mótmæla þessum aðferðum með því að neita að taka þátt í nokkurri afgreiðslu, þegar við eigum e.t.v. á næstu mínútum von á því, að þjóðin verði svipt Alþingi sínu af hæstv. forsrh. Það væri það minnsta, sem hv. alþm. gætu gert, að koma hvergi nærri afgreiðslu mála, eftir að slík ódæmi eru í boði eins og hér virðist vera á ferðinni.