08.11.1973
Sameinað þing: 16. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Eins og skýrt hefur komið fram að undanförnu, höfum við Alþb.menn ekki verið ánægðir með samkomulagsdrögin, sem fyrir hafa legið í landhelgisdeilunni við Breta. Við höfum bent á, að í þeim drögum að samkomulagi, sem forsrh. kom með heim frá London, sé vikið í allveigamiklum atriðum frá áður markaðri stefnu okkar í landhelgisviðræðunum við Breta. Drögin gera ráð fyrir tilslökun frá síðustu till. Íslendinga varðandi sókn Breta á miðin og varðandi rétt þeirra til að veiða á miðunum. Við Alþb.- menn töldum, að þessum drögum að samkomulagi ætti að hafna og láta síðan reyna á það, hvort Bretar féllust ekki á hagstæðari samninga fyrir okkur. Ríkisstj. féllst á það við athugun á málinu, að rétt væri að leita eftir nokkrum lagfæringum á samkomulagsgrundvelli. Það var síðan reynt, en því miður varð niðurstaðan sú, að Bretar töldu sig hafa orðið stöðu til að neita um svo að segja allar breytingar. Það var skoðun okkar Alþb.-manna, að engin ástæða væri til þess, að Íslendingar beygðu sig fyrir þessari afstöðu Breta. Af þeim ástæðum fluttum við ráðherrar Alþb. enn tillögur í ríkisstj. um að hafna samkomulagsdrögunum og knýja fram nokkrar lágmarksbreytingar. Till. okkar um þetta efni var á þessa leið:

Ríkisstj. getur ekki fallist á fyrirliggjandi samkomulagsgrundvöll við Breta. Hún samþykkir, að reynt skuli til þrautar að fá fram breytingar á eftirtöldum atriðum:

1) Að skýrt sé, að Íslendingar geti ákveðið ný friðunarsvæði og breytt friðunartíma á þeim svæðum, sem nú eru í gildi.

2) Að lokuð veiðihólf verði 2, en ekki 1.

3) Að lokunartími veiðihólfa verði Íslendingum hagkvæmari, en gert er ráð fyrir í samkomulagsdrögunum.

4) Að fram verði tekið, að komi í ljós, að skip hafi brotið reglur um útbúnað veiðarfæra, þá jafngildi það brotum á samkomulagi.

5) Að samkomulagið gangi ekki í gildi, fyrr en EBE hefur samþykkt, að þau réttindi, sem Íslendingar sömdu um í viðskiptasamningi við handalagið, gangi öll í gildi.“

Um þessa tillögu náðist ekki samkomulag í ríkisstj.

Það atriði í upphaflegu samkomulagsdrögunum, sem við Alþb.-menn töldum alvarlegast, var orðalag þeirrar gr., sem fjallaði um, hvernig fara skyldi með brot, sem kynnu að verða á samkomulaginu, þ. e. a. s. hver skyldi fara með lögsöguvaldið. Það hefur nú gerst varðandi þetta atriði, að hæstv. forsrh. hefur opinberlega skýrt skoðun sína á þessu orðalagi samkomulagsdraganna. Hann telur, að samkomulagið feli það í sér, að íslensk yfirvöld ein eigi að skera úr um það, hvort skip hefur gerst brotlegt við samkomulagið, og þau ein geti því fellt niður veiðiheimild þeirra, sem brjóta samkomulagið. Þessi túlkun forsrh. er vissulega mikils virði. Nú liggur einnig fyrir, að ríkisstj. mun flytja frv. á Alþ. til þess að lögfesta ákvæði um, að framkvæmd samkomulagsins verði með þessum hætti, sem forsrh. hefur skýrt með túlkun sinni á þessu ákvæði.

Það er ljóst af því, sem fram hefur komið í umræðum um þetta mál. að sá ágreiningur, sem uppi hefur verið, hefur fyrst og fremst snúist um það, að við höfum talið, að of lítið væri með þessu samkomulagi dregið úr sókn Breta á fiskimið okkar. Við höfum einnig talið, að hér væri um að ræða samkomulag til lengri tíma en æskilegt væri fyrir okkur Íslendinga. Auk þess höfum við talið, að ýmis allmikilsverð atriði, sem þetta mál snerta, kæmu ekki nægilega fram í samkomulaginu, eins og t. d. varðandi möguleika okkar til almennra friðunarráðstafana og eins varðandi refsingar við því, að notuð séu ólögleg veiðarfæri innan okkar 50 mílna fiskveiðilandhelgi. Það er hins vegar ekki neinn ágreiningur um það, að vissulega felast í þessu samkomulagi allþýðingarmikil ákvæði varðandi minnkun á sókn Breta á okkar fiskimið og allmikil viðurkenning felst í samkomulaginu okkur til handa. Það er líka mjög mikilvægt að mínum dómi, að Bretar hafa með öllu fallið frá því við gerð að þessum drögum að krefjast þess, að um framlengingu yrði að ræða að samkomulagstímanum loknum, hafi Hafréttarráðstefnan þá ekki lokið störfum. En það var ein meginkrafa Breta, þó að samið yrði til stutts tíma, að þá vildu þeir fá nokkra tryggingu fyrir því, hvað við tæki að samningstímanum loknum, ef ekki hefði náðst samkomulag um þessi mál á alþjóðavettvangi. En við höfðum allan tímann neitað að semja á nokkurn hátt nema til hins takmarkaða tíma. Þetta atriði hefur í rauninni fengist fram í þeim samkomulagsdrögum, sem hér liggja nú fyrir.

Annað mjög mikilvægt atriði að mínum dómi hefur einnig fengist hér fram, en það er, að ekki er gert ráð fyrir í þessum samkomulagsdrögum neinum yfirdómi, neinum gerðardómi til þess að skera úr um ágreining, sem upp kynni að koma.

Það er því ljóst af því, sem ég hef sagt, að sá ágreiningur, sem uppi hefur verið, hefur ekki verið um meginatriðin í landhelgismálinu. Innan ríkisstj. hefur verið fullt samkomulag um þá stefnu, að við þyrftum að halda fast við það, að landhelgissamningarnir frá 1961 væru úr gildi og gætu ekki bundið okkur, að við héldum fast við það, að enginn erlendur dómstóll, eins og Alþjóðadómstóllinn, gæti haft lögsöguvald til úrskurðar í sambandi við okkar landhelgisdeilumál, og að við héldum fast við þá stefnu, sem við höfum markað okkur í sókn á alþjóðavettvangi, þ. e. a. s. í sambandi við undirbúning Hafréttarráðstefnunnar. Í þessum efnum, sem ég hef minnst á, er fjallað um grundvallaratriði og meginefni málsins. En það hefur sem sagt verið uppi ágreiningur um það, hversu langt við gætum gengið í kröfum okkar til Breta og annarra með að draga úr hinni miklu veiðisókn á okkar miðum.

Nú liggur sem sagt ljóst fyrir, að ekki er samstaða innan ríkisstj. um að halda áfram frekari samningaviðræðum við Breta og knýja þá til að samþykkja tilteknar breytingar hér til viðbótar, sem við Alþb.-menn hefðum talið æskilegt. Þegar svo var komið, var ljóst, að það varð að taka afstöðu til þess, hvort ríkisstj. sem heild gæti staðið saman um þessa afgreiðslu málsins eða ekki. Við Alþb.-menn höfum því tekið þá ákvörðun, að þó að við séum ekki ánægðir með þessi efnisatriði samkomulagsins, sem ég hef hér gert grein fyrir, þá teldum við svo þýðingarmikið að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram, ekki síst fyrir landhelgismálið, fyrir framhald landhelgismálsins, og einnig varðandi önnur stórmál, sem ríkisstj. hefur með höndum, að við vildum fallast á þau drög, sem hér liggja fyrir að samkomulagi, þó að þau uppfylli ekki óskir okkar í öllum greinum.

Af þeim ástæðum, sem ég hef hér greint, munum við Alþb.-menn standa að samþykkt þess samkomulags, sem hér er óskað eftir heimild til þess að staðfesta, á þeim grundvelli, sem það liggur hér fyrir.