08.05.1974
Neðri deild: 128. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4351 í B-deild Alþingistíðinda. (3984)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Tillaga um að lýsa vantrausti á núv. ríkisstj. hefur verið flutt í Sþ. Að henni stendur meiri hl. þingheims. Í dag hefur 31 þm. afhent hæstv. forseta Sþ. ósk eða kröfu um það, að vantrauststill. verði tekin á dagskrá í Sþ. til umr. Ég veit ekki hvernig hæstv. forseti Sþ. muni svara því, en grunur leikur mér á, að ekki muni verða orðið við þessari kröfu, heldur verði, þegar næsti fundur er haldinn í Sþ., aðeins lesinn af hálfu hæstv. forsrh. þingrofsboðskapur og vantrauststill. komi því ekki til umræðu. Þar sem væntanlega gefst þannig ekki tækifæri, nema eitthvað breytist, í Sþ. til þess að ræða vantrauststill., vil ég með leyfi hæstv. forseta þessarar d. og þar sem hæstv. forseti Sþ. á sæti í þessari d. beina þeirri fsp. til hans og vænti þess, að hann svari því hér og nú, hvort hann muni virða að vettugi kröfu meiri hl. þings um að taka vantrauststill. á dagskrá í Sþ. og til umr. Ef svarið yrði neitandi, tel ég það alveg furðulegt virðingarleysi við þingræðið og vilja meiri hl. Alþingis.

Í sambandi við þetta mál og þær umr., sem urðu hér utan dagskrár í dag varðandi væntanlegt þingrof, vil ég taka það fram, eins og raunar kom hér skýrt fram í ræðum manna, að tvenns konar háttur hefur verið hafður á um þingrof, þ.e.a.s. hvort það taki gildi strax frá þeim degi, sem það er tilkynnt, þannig að umboð þm. falli niður og landið verði þingmannslaust og þinglaust frá þeim degi og fram til kjördags, eða hinn hátturinn, að rjúfa þing, en umboð þm. falli niður á kjördegi. Nú í marga áratugi hefur jafnan verið hafður sá háttur, að umboð þm. falli niður á kjördegi, þannig að landið sé aldrei þinglaust. Til þessa liggja eðlilegar ástæður og rökréttar. Það er fullkomin nauðsyn, að á hvaða tíma sem er, ef eitthvað óvænt ber að höndum, sé möguleiki að kalla saman þing, kalla saman aukaþing. Sá möguleiki er ekki fyrir hendi, ef þm. hafa verið sviptir umboði og landið er þannig þinglaust í nokkrar vikur eða allt að tveim mánuðum.

Hæstv. forsrh. hefur ekki upplýst í þessum umr., hvorn háttinn hann muni á hafa. Ég vil taka undir ummæli ræðumanna hér fyrr í dag að beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. forsrh., að hann hafi við hinn væntanlega þingrofsboðskap sinn þann háttinn á, að þing verði rofið aðeins frá kjördegi, þannig að landið verði ekki þinglaust. Ég tel alveg sjálfsagt að hafa þann háttinn á, þótt fordæmi sé fyrir hinu, m.a. í hinu fræga þingrofi 1931.

Ég ætla ekki að fara um þetta fleiri orðum, en vil aðeins endurtaka, að ég tel, að þingheimur og þjóðin eigi kröfu til þess, að vantrauststill., sem meiri hl. þings stendur að baki, verði tekin til umr., áður en þing verður rofið.