08.05.1974
Neðri deild: 128. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4433 í B-deild Alþingistíðinda. (3994)

9. mál, grunnskóli

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þau tíðindi hafa gerst nú við þessa umr., að einn og sami hv. þm. hefur flutt hér ræðu í nálægt 5 tíma. Nú er komið fram yfir miðnætti, og er full ástæða til þess að fara að stytta þessar umr. En einhver kann að spyrja: Er það daglegur viðburður á hinu háa Alþ.,þm. flytji svo langar ræður, að fundir tefjist langt fram á nóttu? Hver er tilgangurinn með þessum umr. hér? Hvað er það, sem raunverulega er verið að fjalla um?

Tilgangurinn er aðallega þrenns konar. Ýmsir þeir, sem hafa tekið þátt í þessum umr., eru andvígir þessu frv. eða mikilvægum ákvæðum þess og telja, að það sé nauðsyn á því, að þessu frv. sé frestað og það tekið til frekari endurskoðunar. Í öðru lagi eru menn að mótmæla málsmeðferðinni, sem hér er viðhöfð. Hún er allsendis óverjandi og fyllilega hægt að taka undir það, að slíkt er ekki hinu háa Alþ. bjóðandi. Í þriðja lagi er tilgangurinn með þessum umr. — og sá tilgangur er að minni hyggju mikilvægastur að mótmæla þeim vinnubrögðum, sem hér eru viðhöfð á þingi eða á að viðhafa hér síðar í nótt, mótmæla þeim einstæðu vinnubrögðum, að það eigi að rjúfa nú þing, senda þingið heim og svipta þm. umboði sínu. Ef einhver vill kalla þetta málþóf, sem hér fer fram í kvöld, þá er það ekki vegna þessa frv. sérstaklega, heldur vegna þess, sem felst í þessum freklegu vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. Og ég tek hér til máls til þess að leggja áherslu á þetta atriði.

Ég mun ekki verða langorður. Hér fyrr í dag fjölluðu hv. þm. nokkuð um þann rétt, sem hæstv. forsrh. hefði til þess að rjúfa þing, hvort hann hefði þennan rétt eða ekki. Nú skal ég ekki blanda mér í þær deilur, og vissulega má ráða af þeim upplýsingum og tilvitnunum, sem hér voru viðhafðar í dag, að þessi réttur er umdeilanlegur, svo að ekki sé meira sagt, mjög umdeilanlegur miðað við stjórnarskrána og það þingræði og það lýðræði, sem hefur ríkt á landi okkar.

En spurningin um það, hvort hæstv. forsrh. hafi hér stjórnskipulegan rétt eða ekki, er í mínum huga ekki aðalatriði þessa máls, heldur hið pólitíska siðleysi, sem felst í þessum vinnubrögðum. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í vetur, fyrir örfáum vikum, að hann mundi því aðeins víkja úr sínum valdastóli, að fram kæmi vantraust, sem samþ. væri. Þegar nú kemur upp sú staða í þinginu, að hann er kominn í minni hl. og það er komin fram vantrauststill., sem ljóst er, að muni verða samþykkt, þá sér hann ekki að sér, þá stendur hann ekki við fyrri orð sín og lætur á það reyna, hvort þetta vantraust er samþ. eða ekki og hlítir því. Hann grípur til annarra ráða. Hann grípur til þess gerræðis að rjúfa þingið.

Við þjóðinni blasir stórkostlegur efnahagsvandi, sem hæstv. ríkisstj. getur ekki leyst, og ljóst er, að engin samstaða er um það innan ríkisstj. eða hennar stuðningsflokka eða nokkurt samkomulag um þær till., sem fram hafa verið lagðar. Það er engin samstaða um, hvernig leysa eigi efnahagsvandann. Á hinn bóginn er ekkert, sem hendir til annars en hér sé fyrir hendi á hinu háa Alþ. meiri hl., sem getur sameinast um það að leysa vandann, sem við blasir, og standa að ráðstöfunum, sem nauðsynlegar eru. En engu að síður þvermóðskast hæstv. forsrh. við. Hann virðir ekki vilja meiri hl. þingsins, hann skeytir engu þingræðisreglum, hann misbýður virðingu Alþingis, hann misbýður sjálfsvirðingu sinni og hann misbýður þjóðinni og viðurkenndum leikreglum í stjórnmálum og á þingi. Hér er á ferðinni að mati okkar stjórnarandstæðinga svo óskammfeilið pólitískt siðleysi, að því hlýtur að vera mótmælt með öllum ráðum, með öllum tiltækum ráðum, jafnvel málþófi. Með slíkum ráðum er verið að vekja athygli alþjóðar á því, hvað hér er að ske. Hér er verið að skjóta sér undan ábyrgð og ákvörðunum hins háa Alþingis. Það er verið að beita brögðum, sem duga þessari ríkisstj. til að stjórna í þessu landi án þess að styðjast við meiri hl. Alþingis. Það er verið að koma í veg fyrir, að mynduð sé starfhæf ríkisstjórn í landinu. Og til þess að koma þessu gerræði fram á nú að svipta þm. umboði sínu. Ríkisstj. tekur sér það vald að svipta þm. umboði, sem þjóðin — ekki ríkisstj. — hefur veitt þeim. Það er þess vegna, sem menn standa hét upp og mótmæla. Hér er ekki til umr., hvort stjórnskipulegur réttur sé fyrir hendi, heldur hvort forsrh. og hæstv. ríkisstj. virði þingræðisreglur, pólitískar leikreglur, viðurkenni staðreyndir og víki fyrir öðrum, sem möguleika hafa til að stjórna í þessu landi.

Á hinn bóginn má þó seg,ja, að það er við hæfi, að þessi hæstv. ríkisstj. endi feril sinn með þessum hætti. Ferill hennar hefur verið þyrnum stráður, brotalamirnar margar og óstjórnin að okkar viti í stjórnarandstöðunni hörmuleg. Og nú ætlar þessi hæstv. ríkisstj. að klykkja út með því að beita hér einræðislegum aðgerðum. Þetta, sem nú er að ske, flokkast nefnilega ekki undir þvermóðsku eða óbilgirni einvörðungu, heldur er það í ætt við það, sem þekkist í einræðislöndum, þar sem menn virða að vettugi þingræði og lýðræði.

Ég flutti við þetta frv. við 2, umr. málsins hér í þessari hv. d. 32 brtt. og gerði ítarlega grein fyrir þeim sem og afstöðu minni og minna flokksmanna. Þessar brtt. byggðust einkum á tvennu: í fyrsta lagi, að skólaskyldan ætti ekki að lengjast, í öðru lagi, að það ætti að auka verkefni og hlut sveitarfélaga meira en frv. gerði ráð fyrir. Það var að okkar mati og er enn algerlega ótímabært að hrinda fram þessu frv. með þeim ákvæðum, sem það felur í sér, á sama tíma sem verið er að endurskoða verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og fyrir liggur, að slík verkaskipting eða endurskoðun hennar muni liggja fyrir innan tíðar. Það var upplýst fyrr í þessari viku, af hæstv. félmrh., að sú endurskoðun væri langt á veg komin, hún gengi í þá átt að auka sjálfsforræði sveitarfélaga, og þess vegna er óeðlilegt og ótímabært og óhyggilegt með tilliti til löggjafar og þróunar í þessum málum að öllu leyti nú að hrinda í framkvæmd þessu frv. – Þetta var okkar mat og er enn, að það sé ekki viturlegt.

Í öðru lagi er frá því að segja varðandi skólaskylduna, að um það urðu mjög miklar umr. á öllum stigum þessa máls, hvort rétt væri að lengja skólaskylduna eða ekki. Umr. um þetta mál snerust nær einvörðungu um þetta atriði, skólaskylduna. Þess vegna var það, að ég leyfði mér að bera fram brtt. við 2. umr. málsins, sem gengu út á að koma í veg fyrir þá lengingu skólaskyldunnar, sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. að skólaskylda verði áfram 8 ár, en ekki 9 ár, eins og gert er ráð fyrir. Sú brtt., sem réði úrslitum, var felld með 17 afi atkv. í þessari d. 3 þm. greiddu ekki atkv. og 4 voru fjarstaddir. M.ö.o.: ákvörðun hv. d. um að lengja skólaskylduna var mjög óljós og vilji þingsins lá ekki glöggt fyrir. En þannig fór málið út úr þessari deild.

Í hv. Ed. fékk málið athugun í menntmn. Ed., og hvað skeður þar? Það skeður, að 7 manna menntmn. skipuð hv. þm, úr öllum þingflokkum skiptist í tvo hópa. Einn þm. leggur til, að skólaskyldan sé 9 ár, að frv. verði óbreytt, en 6 hv. þm. í þessari menntmn. leggja til, að skólaskyldan verði 8 ár, hún sé áfram óbreytt frá því, sem hún hefur verið hingað til. Þetta eru mjög athyglisverð tíðindi og sýnir glöggt, hver vilji hv. þm. er. Og raunverulega endurspeglast í þessu áliti vilji þjóðarinnar, því að það er sannfæring mín, að það sé vilji þjóðarinnar, að skólaskyldan sé ekki lengd. Við höfum fært fyrir því rök, að það sé óþarfi að grípa til þess ráðs nú, og enda þótt menn vilji ná fram umbótum og nýmælum í fræðslumálum, þá sé hægt að gera það án þess að lengja skólaskylduna á þessu stigi málsins. Það er enginn vafi á því, að það er skoðun meiri hl. þjóðarinnar, að það eigi ekki að lengja skólaskylduna, hún sé nógu löng eins og er.

Þegar þessi tíðindi berast hér um þingsali í gær, að menntmn. Ed. hafi komist að þessari niðurstöðu, og ljóst er nokkuð, að það muni verða samþ. í hv. Ed., að skólaskyldan muni verða stytt aftur frá því, sem frv. gerði ráð fyrir, — þegar þessi tíðindi berast, þá er hlaupið upp til handa og fóta af hæstv. menntmrh., og hvað sem þar fór á milli hans og nm., þá er eitt víst, að á síðasta stigi við afgreiðslu málsins í Ed. er þessi till. dregin til baka af 4 eða 5 flm. hennar og í stað þess að standa við till. sína og skoðanir sínar, þá fallast þessir þm. á að draga þessa till. til baka, en flytja aðra brtt. um það, að þessi mál séu tekin til endurskoðunar eftir 4 ár. Hvað hefur skeð hér? Það, sem hefur skeð hér, er það, að hæstv. menntmrh. var ljóst, að þetta mál var fallið, bað var dautt, ef þessi till. hefði náð fram að ganga, og það var brýn nauðsyn með tilliti til þeirra gerræðislegu aðgerða, sem nú á að hafa í frammí hér í þinginu, að fá þessu frv. framgengt með þessum hraða, sem fólk hefur hér orðið vitni að. Þess vegna hangir það saman, að hv. þm. hafa fallið frá skoðunum sínum til þess að koma fram vilja ríkisstj. að senda þingið heim. Hvort tveggja eru náttúrlega algerlega óverjandi vinnubrögð og ættu ekki að líðast. Hér er verið að krefjast þess, þvinga þm., sveigja þá til þess að falla frá skoðunum sínum og samþykkja frv., sem er raunverulega gegn vilja meiri hl. Alþ. Það er kjarni málsins.

Nú hefur hv. síðasti ræðumaður ásamt þremur öðrum hv. þm. í þessari d. tekið upp þessar till., og reynir að sjálfsögðu á það hér í d., þó að líklegt megi telja, að nú sé búið að sveigja aðra þm. til fylgis við frv. óbreytt, svo að það geti fengið hér afgreiðslu og ríkisstj. geti gripið til þeirra ráða að senda okkur heim.

Ég hef sýnt hug minn til þessa frv., bæði með málflutningi mínum og röksemdum og eins hvernig ég hef staðið að atkvgr., þegar málið var endanlega afgr. héðan frá n. og deild. Ég taldi, að þrátt fyrir ýmsa galla þessa frv. væri það margt nýtilegt, sem sneri að innra skólastarfi, að hinni kennslufræðilegu hlið, að það væri sanngjarnt að leggja ekki stein í götu þess. Og enda þótt ég tali við þessa umr. nú, þá er það ekki endilega vilji minn, að þetta mál sé dregið til baka, heldur er ég að standa hér upp til þess að vekja athygli á því, hverjar raunverulegar skoðanir og vilji þingsins er í þessu ákveðna máli, og jafnframt, eins og fyrr segir, til að mótmæla þeim vinnubrögðum, sem hér eru almennt höfð og á að viðhafa hér á eftir af hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Ég mun nú senn ljúka máli mínu. Við höfum hér, nokkrir hv. þm. Sjálfstfl., kvatt okkur hljóðs til þess að undirstrika mótmæli okkar, ekki aðeins við meðferð þessa frv., heldur gegn því gerræði, sem hér er viðhaft. Hæstv. forsrh., sem hefur minnihlutastjórn á bak við sig og vantrauststill. yfir höfði sér, grípur til þess ráðs að rjúfa þing, svipta þm. umboði sínu. Þetta gerir hann til þess að geta setið áfram í valdastóli án nokkurs umboðs frá þinginu. Þannig endar ferill þessarar ríkisstj. Ég tel, að Íslendingum séu framandi slík vinnubrögð. Þau hafa ekki tíðkast á Íslandi – ekki nema á tímum konungsvalds á Íslandi, og því verður ekki trúað öðru en íslenskir kjósendur taki undir mótmæli okkar, að íslenskir kjósendur svari slíkum bolabrögðum með viðeigandi hætti í kosningunum í sumar.