08.05.1974
Neðri deild: 128. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4436 í B-deild Alþingistíðinda. (3995)

9. mál, grunnskóli

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Naumast getur það lengur farið fram hjá neinum, hvorki þeim, sem hér eru staddir, né íslensku þjóðinni, að sú ríkisstj., sem nú situr, hefur ekki vald á störfum Alþingis. Hún getur ekki ráðið við það, hvernig mál eru flutt hér og hvort t.d. ræðutími væri takmarkaður, en í 38. gr. þingskapa er um það fjallað, að heimilt sé að takmarka ræðutíma, ef því er að skipta, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ef umræður dragast úr hófi fram, getur forseti úrskurðað, að ræðutími hvers þm. skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd, og einnig getur forseti stungið upp á, að umr. sé hætt. Svo getur og forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umr. eða síðar, að umr. um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma“ o.s.frv.

En sá er galli á gjöf Njarðar, að meiri hl. þd. þarf að samþykkja slíkan hátt, niðurskurð umr. og mér er um það kunnugt, að þeir stjórnarliðar hafa farið á fjörurnar við menn um að reyna að fá þá til að samþykkja það, að umr. væru niður skornar. En svo vill til, að hér í þinginu er 31 þm. eða kannske 32 andvígir núv. ríkisstj., stjórnarandstæðingar. Þess vegna væri hægt að halda hér áfram umr. um þetta mál og hindra framgang þess og allra mála annarra. Meðfram hygg ég, að sumir þeir, sem hér hafa talað, hafi viljað undirstrika þetta, svo að íslenska þjóðin gerði sér enn betur grein fyrir því gerræði, sem verið er að fremja af hálfu hæstv. ríkisstj.

Svo vill til, að nú er klukkan korter gengin í tvö. Dimmasti tími næturinnar er um það bil að nálgast. Það eiga að fara hér fram á eftir myrkraverk. Ég hygg, að það sé mjög heppilegt, að þau fari fram, áður en langt líður, og þess vegna skal ég ekki tefja umr. Ég hafði raunar hugsað mér að fara hér allítarlega yfir ýmsa þætti nátengda þessu skólafrv. Það vildi svo til, að ég kom inn á nefndarfund í menntmn. sem nýbakaður varaþm., og þá höfðu einmitt verið afgr. einar 80–90 brtt. við þetta frv., sem hér er til umr. Morguninn eftir var hægt að ráðstafa einum hálftíma til að ræða viðhorfið að því breyttu, og raunar létu menn þau orð falla, að um sumar brtt. væri því þannig varið, að þær hefðu hreinlega týnst og mundu aldrei finnast. Þessi vinnubrögð voru fyrir neðan allar hellur, og vinnubrögðin nú eru það einnig.

En skýringin á því, að þetta mál er fram knúið, er auðvitað einföld. Ég býst við, að allir viti, hvað þar hangir á spýtunni. Það er ekki umhyggja fyrir menningarmálum Íslands eða menntamálum, sem það knýr fram, eins og sést best á því, að þm. hafa veríð neyddir til þess að breyta um skoðun í Ed. nú í dag, taka aftur sína fyrri skoðun, og síðan er allt stjórnarliðið handjárnað og málið á að keyra í gegn, vegna þess að í stjórnarandstöðunni eru einstaklingar, sem það styðja. En ástæðan til, að þetta er gert, er sú, að hæstv. menntmrh. gerði það að skilyrði fyrir áframhaldandi dvöl í þessari ríkisstj., að hann fengi þetta frv. knúið í gegn, áður en þing yrði rofið. Hann hefur ekki, svo að ég muni eftir, komið fram nema einu máli, sem a.m.k. hefur vakið athygli í hans ráðherratíð, þ.e.a.s. að afnema setuna, en Alþ. hefur nú breytt þeirri ákvörðun. Að vísu hefur hæstv, menntmrh. ekki munað. um það að lýsa yfir, að hann ætlaði að vanvirða vilja Alþ. í þessu efni. Það er þá í samræmi við skoðanir samráðh. hans og þeirra manna, sem standa að núv. ríkisstj. Þeir virða hvorki meiri hlutavilja Alþ. né þjóðarinnar.

En um þetta frv. er annars það að segja, að það er langhundur hinn mesti. Það mætti mjög stytta það, það mætti gjarnan sníða af því svona eins og hluta, og yrði það þá mun skaplegra. Það er nærri því, að veita ætti mönnum doktorsgráðu fyrir að kunna alla þá lesningu, sem þar er að finna. En þar er líka talað um svo sjálfsagða hluti eins og það, að kennarar eigi að kenna, nemendur eigi að læra, jafnvel um það rætt, að svo geti farið, að kennarar og skólastjórar ræði við nemendur, ef þeir sýni einhverja óknytti, og margar l.eiðbeiningar eru á þennan veg. En margt er hins vegar gott í þessu frv., og vissulega hefði það þurft fram að komast.

En eitt er það, sem mjög skortir í þetta frv., sem þó væri vissulega ástæða til, að þar væri, úr því að svo nákvæmlega er farið út í einstök atriði, og það væri svolítill fróðleikur um nútíma stjórnmálasögu. Og satt best að segja hafði ég nú hugsað mér það, ef ekki stæði svona illa á, að það má ekki spilla þessum heppilegasta tíma til myrkraverkanna, að rekja það nokkuð, hvernig slík ákvæði gætu verið. Þar mætti t.d. gjarnan fjalla svolítið um framkvæmd landhelgismálsins á vegum þessarar hæstv. ríkisstj. Þar mætti gjarnan vera leiðbeiningar um það, hvernig fræða ætti 11–12 ára börn um frammistöðu hæstv. sjútvrh., þegar hann vísvitandi leyfði útlendingum, vinum sínum í Austur-Þýskalandi að sjálfsögðu, áhafnaskiptin hér á dögunum. Ég sagði „visvítandi“ og við það stend ég. Ég veit það og það vita það auðvitað allir, að sá hæstv. ráðh. vissi, hvað hann var að gera. Honum var fullkunnugt um, að þessi skip áttu að fiska á islandsmiðum, og það var einmitt þess vegna, sem hann veitti leyfið, til þess að vinir hans gætu áunnið sér hefðbundinn rétt innan 200 mílnanna, áður en þær ganga í gildi. En allur þingheimur veit og þjóðin öll, að ekkert er meira eitur í beinum þessa ráðh., sem þykist hafa verið mesti baráttumaður í landhelgismálum, en einmitt það, að 200 mílna stefnan sigri. Hann er miklu afturhaldssamari en jafnvel breskir togaraeigendur, sem í dag samþykktu, að 200 mílur ættu að vera framtíðarstefna Breta. Þar er hann í hópi með vinum sínum austan járntjalds, afturhaldssömustu mönnum í landhelgismálum í víðri veröld — og hér brosti — formaður heitir hann víst, kannske án þess að vera það í raun, Alþb.

En það voru ýmsir þættir á þennan veg, t.d. get ég ekki stillt mig um, vegna þess að form. Alþb. situr hér, að nefna eitt dæmi um varnarmál, afstöðu til Atlantshafsbandalagsins. En það gerðist nú eftir 25 ára veru okkar í Atlantshafsbandalaginu, að í fyrsta skipti var því lýst yfir af stjórnvöldum, að við Íslendingar hefðum þær skuldbindingar að veita Atlantshafsbandalaginu aðstöðu á Keflavíkurflugvelli til að reka þaðan hernað, að vísu í smáum mæli En strax fyrir 25 árum, er við gengum í Atlantshafsbandalagið, var því skýlaust lýst yfir, að engin slík skuldbinding yrði af Íslendinga hálfu gefin. En vinstri stjórnin sendir Bandaríkjastjórn, bandaríska sendiráðinu orðsendingu, drög að viðræðugrundvelli, minnir mig, að hæstv. forsrh. hafi nefnt það svo, þar sem tvítekið er fram, að til fullnægingar á skuldbindingum Íslands skuli þetta og hitt gert og þetta og hitt leyft á Keflavíkurflugvelli. Þetta er eina ríkisstj., sem léð hefur á því máls, að lýsa yfir, að við værum skuldbundnir til þess að veita hér hernaðaraðstöðu, „um aldur og ævi“ er orðalagið, sem þeir nota. Þetta verður rifjað upp.

Þeir halda það kannske, Alþb: menn, að þeir standi eitthvað sæmilega að vígi, vegna þess að blöð koma ekki út og fólkið veit ekki um framferði þeirra. En það er ýmislegt þessu líkt og síst betra, sem þeir eiga eftir að fá að heyra næstu daga, ef pressan fær að vera frjáls á Íslandi, ef blöðin fá að koma út, og við skulum vona, að svo verði.

En fram undan er þessi athöfn, sem ég veit, að hæstv. forseti Sþ. bíður eftir að framkvæma. Mér líkar mjög vel við þann mann. Mér er sagt, að hann ætli sér ekki að bjóða sig oftar fram til þings, það verði þess vegna síðasti fundur, sem hann stjórnar, sá sem nú brátt hefst. Ég lýk orðum mínum með því að votta hæstv. forseta Sþ., Eysteini Jónssyni, samúð mína.