08.11.1973
Sameinað þing: 16. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera hér að umræðuefni efnisatriði þess máls, sem hér er til meðferðar, formaður þingflokks míns hefur lýst yfir afstöðu þingflokksins til þess. En mér finnst í raun og veru ófyrirgefanlegt að nota ekki þetta tækifæri til að gera að umræðuefni það gegndarlausa myrkviði og dómgreindarleysi, sem mér virtist ríkja hjá hv. 3. landsk. þm. hér áðan í ræðu hans. Hafi nokkur stjórnmálamaður íslenskur á nokkrum tíma rassskellt sjálfan sig í ræðustól, þá var það þessi hv. þm. Ég skrifaði hjá mér, að ég held nokkuð orðrétt, nokkur gullkorn úr hans máli og ætla að leyfa mér að fara um þau nokkrum orðum.

Hann byrjaði á því að segja: Það var allt að því hin eina rétta stefna að ná samkomulagi við Breta, en nú vil ég það ekki. — Hann sagði í öðru lagi: Verndunarsjónarmiðinu er mjög vel borgið, en ekki nógu mikið. — Hann sagði í þriðja lagi: Framkvæmdina og eftirlitið get ég ekki fellt mig við, — þ. e. a. s. að það sé í höndum Íslendinga sjálfra. Það er staðreynd, sem hæstv. forsrh. og meira að segja stjórnarandstæðingar virðast telja, að sé atriði, sem hafi verið fullnægt. Og það er það, sem þessi hv. þm. vill ekki. Og hann sagði: Það er verið að gera nákvæmlega það sama og gerðist 1961. — Ekki einu sinni þeim hv. stjórnarandstæðingum, sem nú eru hér, virðist detta í hug að gera samanburð á þessu. Þó stóðu þeir að þessum samningi, sem þá var talinn landráðasamningur. Og hann sagði og leit, að því er mér virtist, þá fyrst og fremst til ráðh. Alþb., að það virtist sem stefna ríkisstj. í landhelgismálinu síðustu daga væri fyrst og fremst að þjóna NATO. Ég veit ekki, hvort ráðh. Alþb. taka gott og gilt, að slíkur áburður sé á þá borinn. En fjarri er mér að halda það. Ég held, að þeir hafi ekki verið neinir sérstakir erindrekar, ef svo mætti segja, NATOs innan ríkisstj. Og hann sagði: Þessi íslenska þjóð er eins og gamall klár bundinn á hlaði. (Gripið fram í.) Það er rétt. Ekki er nú samlíkingin ljót. Og hann bætti fleiru við. (Gripið fram í.) Hann vill greinilega ekki hlusta. Hann sagði: Blástursselir, sem óku með ströndum og sögðu: full yfirráð yfir landhelginni. Hann á kannske við sjálfan sig þessa einu ferð, sem hann fór með ströndinni í kosningunum 1971. Og svo sagði hann: Mér skilst, — ekki var nú fastar að orði kveðið, — mér skilst, að 50 mílurnar hafi verið kosningamál núv. stjórnarflokka. Ekki hefur þessi skoðun verið föst í sessi hjá þessum hv. þm., þegar hann taldi sig á þeim tíma vera að berjast fyrir þessu lífshagsmunamáli íslensku þjóðarinnar. Hann bara hélt þetta.

Mér finnst það furðu gegna, þegar til umr. er hér á Alþ. slíkt alvörumál eins og ég tel landhelgismálið vera, að málflutningur þm. sé með þeim hætti, sem þessi hv. þm, leyfði sér að hafa hér um hönd í ræðustól. Menn getur greint á um það, a. m. k. menn, sem eru vanir samningamálum, sem ég held nú, að þessi hv. prófessor sé ekki vanur, — menn getur greint á um það, hvort hér er um að ræða gott eða vont samkomulag. Þar er um málefnalega afstöðu að ræða. En slíkur málflutningur sem þessi hv. þm. leyfði sér að hafa um hönd hér á Alþ. er ekki sæmandi einum eða neinum íslenskum stjórnmálamanni, ekki einu sinni hv. 3. landsk. þm.