12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Frsm. meiri hl. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það eru nokkur orð í tilefni af þeim umr., sem orðið hafa. Ég mun ræða mörg atriði, en drepa aðeins á þrjú atriði eða svo.

Hv. talsmenn minni hl. utanrmn. hafa rætt nokkuð fortíðina í þessu sambandi. M. a. hafa þeir látið orð falla um það, að núv. stjórnarflokkar hafi rofið eininguna um landhelgismálið fyrir kosningarnar 1971. Hvaða eining var það, sem rofin var? Málið stóð þannig, að núv. stjórnarflokkar vildu ákveða það fyrir kosningarnar að færa landhelgina út í 50 mílur. En núv. stjórnarandstæðingar vildu ekki ákveða neitt um þetta. Af þessari einföldu ástæðu gat ekki orðið um neina einingu að ræða. Núv. stjórnarflokkar áttu sem sé ekki samleið um það fyrir alþingiskosningarnar að ákveða það eitt í landhelgismálinu að bíða átekta, eins og í raun og veru var afstaða núv. stjórnarandstæðinga.

Hv. talsmenn minni hl. utanrmn. hafa nokkuð borið saman samninginn frá 1961 og þennan samning, sem nú er verið að gera, og hafa jafnvel látið að því liggja, að þessi samningur væri Íslandi óhagstæðari en sá frá 1961. Ekki er ég þessarar skoðunar, og svo mun um fleiri. Í þessum samningi er ekkert réttindaafsal. Ísland afsalar sér engum rétti með þessum samningi. En með samningnum frá 1961 var afsalað réttinum til einhliða útfærslu landhelginnar, og í stað þess sett í samning, að ef Bretar vildu, þá skyldi ákvörðun um útfærslu ganga fyrir Haagdóminn. Þetta var vitaskuld afsal á réttindum, skuldbinding, sem gekk í þá átt að afsala einhliða útfærsluréttinum.

Nú eru engin alþjóðalög til um stærð landhelginnar, og hér var því í raun og veru ákveðið, að Íslendingar skyldu ganga með þetta lífshagsmunamál sitt undir gerðardóm, ef Bretar vildu. Samningur, sem innihélt þetta, verður ekki með neinum rökum borinn saman við það, sem hér er verið að ráðgera, sem sé samning um takmarkaðar og tímabundnar veiðar innan landhelginnar. Það er ekkert skylt með þessum samningum, þegar þessi kjarni samninganna frá 1961 er skoðaður. Enda er reynslan ólygnust, því að það var ekki hægt að færa út landhelgina nema losa sig fyrst við samninginn frá 1961. Það varð að segja honum upp, til þess að einhliða útfærsla gæti átt sér stað.

Hv. talsmenn minni hl. utanrmn, hafa sagt í þessum umr., að bresku herskipin hafi farið út fyrir 50 mílurnar og samningsaðstaða skapast við Breta, af því að hæstv. forsrh. hafi farið að þeirra ráðum í utanrmn., en ekki ráðum okkar, fulltrúa stjórnarflokkanna. Skylt er, að það komi fram, að þetta er ekki rétt túlkun á því, sem gerðist. Fyrir utanrmn. lá 26. sept. að segja skoðun sína á því, hvort slíta skyldi stjórnmálasambandi við Breta, eins og búið var að lýsa yfir af ríkisstj., að gert yrði, ef þeir héldu áfram ásiglingum. Og þá lá einnig fyrir, hvort hætta skyldi við þau áform vegna bréfsins frá Mr. Heath, sem þá var komið fram og fyrst og fremst var um það að draga út freigáturnar, ef við hættum gæslunni í nýju landhelginni.

Stjórnarflokkamenn í utanrmn. tóku þá afstöðu, að taka ætti strax ákvörðun um stjórnmálaslit, eins og áður var raunar búið að ákveða, enda ný ásigling komin til, en svara Mr. Heath í þá átt, að samningar eða viðræður við hann eða aðra Breta um efni málsins kæmu ekki til greina, nema freigáturnar færu út fyrir fyrst, en löggæsla Íslendinga héldi áfram. Þetta var afstaða okkar í n., og fulltrúi Alþfl. í utanrmn. hafði sömu afstöðu í þessu efni.

En fulltrúar Sjálfstfl. létu á hinn bóginn bóka það, sem upplýst hefur verið í þeirra blöðum og þessum umr., að þeir vildu láta fara að ræða við Mr. Heath og grennslast eftir því, hvað fyrir honum vekti, þ. e. a. s., fulltrúar stjórnarandstæðinganna vildu ekki taka ákvörðun um stjórnmálaslit, en þess í stað taka upp viðræður við Mr. Heath um það, hvað fyrir honum vekti, þótt freigáturnar væru í landhelginni.

Mergurinn málsins er þá sá, að hv. fulltrúar Sjálfstfl. tóku sem sé aldrei afstöðu með stjórnmálaslitum við Breta.

En hvað gerði svo ríkisstj.? Hún ákvað stjórnmálaslit við Breta þvert ofan í afstöðu sjálfstæðismannanna, sem kæmu til framkvæmda án nýrrar ákvörðunar, ef freigáturnar væru ekki komnar út fyrir innan örfárra daga. Og Mr. Heath var svarað í samræmi við það.

Það var þessi ákvörðun um stjórnmálaslit, sem kom freigátunum út fyrir og opnaði samningaleiðina, en ekki afstaða sjálfstæðismannanna í utanrmn., sem ekki vildu taka afstöðu með stjórnmálaslitum. Og þessi ákvörðun hæstv. ríkisstj. var í samræmi við álit stjórnarflokkafulltrúanna. Þetta vildi ég, að kæmi hér skýrt fram, vegna þess að ég tel, að skýringar hv. minnihl.-manna í utanrmn. gefi alveg ranga mynd af því, hvað það var, sem raunverulega gerðist og varð til þess, að hægt var að ná freigátunum út úr landhelginni.

Þá vil ég aðeins minnast örfáum orðum á brtt. á þskj. 112 frá hv. 3. landsk. þm. Frá löggæsluatriðum og refsingum fyrir brot á samningunum er gengið með sérstökum hætti, eins og greinir í sjálfu samningsuppkastinu. Með þeim skýringum, sem hæstv. forsrh. hefur gefið, og þegar við hefur verið bætt þeirri löggjöf, sem ætlunin er að setja um sérstakar refsingar, sem komi til í þessu sambandi, hlýtur þetta ákvæði að teljast algerlega fullnægjandi fyrir Ísland. Og allir þeir, sem vilja raunverulega, að þessir samningar komist á, hljóta því að greiða atkv. á móti brtt.