12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það hafa nú þegar farið hér fram alllangar og miklar umræður um þetta dagskrármál. Þær umr. hafa þó að allverulegu leyti orðið um landhelgismálið almennt, en minni hluti umr. hefur í rauninni verið um þá samningagerð, sem hér liggur fyrir til umræðu. Nokkuð hefur þó verið rætt um einstök efnisatriði þessa væntanlega samkomulags. Afstaða stjórnmálaflokkanna hefur þegar komið nokkuð skýrt fram til málsins. Hún kom í rauninni að mestu leyti fram, þegar till. var lögð hér fram s. 1. fimmtudag, þá gerðu stjórnarfl. grein fyrir afstöðu sinni til málsins, þá gerði Alþfl. einnig grein fyrir sinni afstöðu og svo Bjarni Guðnason fyrir sinni. En einn stjórnmálaflokkanna á Alþ. hann hafði ekki gert upp hug sinn og gat ekki gert grein hér fyrir afstöðu sinni. Það var Sjálfstfl.

Í þessum umr. í dag hafa menn fengið að heyra afstöðu Sjálfstfl., og þó hygg ég, að þá sé svo um fleiri en mig, að þeir efist nokkuð um, að öll afstaða flokksins hafi komið fram enn. Það liggur þó alveg ljóst fyrir, að flokkurinn er klofinn í málinu. Fulltrúar flokksins í utanrmn., form. flokksins, Geir Hallgrímsson, og Matthías Á. Mathiesen, þeir eru með samkomulaginu eins og það liggur fyrir. Formaður þingfl. Sjálfstfl., Gunnar Thoroddsen, hefur einnig talað hér, og hann er eindregið með samkomulaginu. Þetta eru framámenn flokksins, sem sennilega hafa ráðið mestu um skrif Morgunblaðsins og blaða flokksins um langan tíma. En svo kemur eitthvað af hinu óbreytta liði flokksins. Þar koma m. a. Matthías Bjarnason, hv. þm. frá Vestfjörðum, Guðlaugur Gíslason, hv. þm. úr Suðurlandskjördæmi, og hv. þm., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, þm. af Vestfjörðum. Þessir þm. eru allir á móti samkomulaginu og segja, að þetta samkomulag þýði raunverulega uppgjöf fyrir Bretum, algjöran undanslátt. Nú liggja menn hundflatir fyrir Bretum, sagði Matthías Bjarnason. Sóknin á miðin verður aukin, sagði Guðlaugur Gíslason. Jaðrar við uppgjöf í málinu. — Þetta voru sýnilega orðsendingar frá þessum þm. Sjálfstfl. til forustu flokksins, sem vill þetta allt saman uppgjöf fyrir Bretum og algjöran undanslátt. Það á kannske eftir að koma eitthvað meira fram frá Sjálfstfl. um afstöðu hans í þessum málum.

Þegar maður reynir að gera sér grein fyrir því eftir þessum umræðum, hvað það er, sem markar afstöðu Sjálfstfl., þá er það býsna einkennilegt. Það, sem helst kom fram í ræðu Geirs Hallgrímssonar, formanns flokksins, var það, að hann sagði, að þessi samningur gæti nú verið góður, þó að hann væri ekki alveg eins góður og samningurinn frá 1961. Svo sagði form. Sjálfstfl., að í rauninni munaði litlu, mjög litlu, á þessum till., sem hér lægju fyrir til samkomulags, og þeim till., sem Íslendingar hefðu sett fram í samningaviðræðunum við Breta 4. maí á þessu ári. Enn fremur fullyrti form. Sjálfstfl., að það hefði verið hægt að semja löngu fyrr við Breta, — það virtist hann vita nákvæmlega, það hefði verið hægt að semja við þá löngu fyrr og ná við þá jafngóðum samningum. Ég fann ekki mikið af öðrum rökum, ef þetta skyldi flokkast undir rök hjá formanni Sjálfstfl. fyrir því, að hann væri með þeim samningsdrögum, sem hér liggja fyrir, en hann sagði eigi að síður ýmislegt annað um málið, sem ég ætla mér að víkja að.

Af því að það hafði m. a. komið hér fram hjá form. Sjálfstfl., Geir Hallgrímssyni, og fleirum, sem hér hafa rætt um þetta mál, að þeir vildu gjarnan ræða um landhelgismálið á breiðum grundvelli, þá langar mig nú einnig til þess að fara um það nokkrum orðum, hver hefur í raun og veru verið afstaða Sjálfstfl. til landhelgismálsins, þegar maður lítur á það almennt.

Það, sem liggur fyrir alveg óumdeilanlega, er, að á meðan Sjálfstfl. fór hér með völd í landinu fram að síðustu kosningum, þá stóð hann gegn því hér á Alþ., að ákvarðanir yrðu teknar um útfærslu landhelgismarkanna. Þá voru m. a. kempur hér á borð við hv. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, þá voru þeir ekki tilbúnir til þess að samþ. till. hér um að færa út fiskveiðilandhelgina við Ísland. Þá stóðu hann og aðrir þm. Sjálfstfl. að því hér á Alþ. að fella till. um þetta, og samþ. till. um að vísa málinu í n. Þegar síðan ákvörðun hafði verið tekin með myndun nýrrar ríkisstj. um útfærslu fiskveiðimarkanna í 50 mílur, komu þeir fram á sviðið, sem höfðu verið alls óviðbúnir fram að þeim tíma að standa að nokkrum mótuðum og ákveðnum till., — því komu þeir með yfirboðstill. og þóttust vilja gera meira. Að vísu voru þessar yfirboðstill. svo illa úr garði gerðar, að allir sáu í gegnum þær strax. Þegar þeir lögðu fram hér á Alþ. till. um, að við skyldum færa okkar fiskveiðimörk út að 400 metra dýptarlínu umhverfis landið og þannig skyldu mörkin færð nokkuð lengra út sums staðar við landið en út í 50 mílur, þá tóku þessir herrar þó fram í till. sinni jafnframt, að erlend skip mættu veiða upp að 50 mílna mörkunum þrátt fyrir þetta næstu 3 ár á eftir. Þá máttu auðvitað allir sjá, að þeir voru með þessu bakaskrefi sínu, með því að stíga svona aftur á bak um leið, fyrst að færa út aðeins meira en ríkisstj. hafið gert ákvörðun um, svo að draga allt til baka aftur í næstu setningu, a. m. k. í næstu 3 ár. Þá var þetta auðvitað orðið hlægilegt.

En þetta var þó alveg nóg handa þeim sjálfstæðismönnum til að klifa á, því að þeir vildu meira en aðrir í útfærslu fiskveiðilandhelginnar við landið. Já, og hvað gerðist svo, þegar kom að virkilegum framkvæmdum í sambandi við útfærsluna, þegar t. d. þurfti að takast á við það vandamál að losa Íslendinga við landhelgissamningana við Breta og V- Þjóðverja frá 1961? Hvar stóðu þeir þá? Þá stóðu þeir raunverulega, eða a. m. k. forustumenn flokksins,þeir sem töluðu fyrir hann, þeir stóðu gegn því, að þessum samningum væri sagt upp og að við fengjum á raunverulegan hátt frjálsar hendur til að færa landhelgismörkin út. Og þeir sjálfstæðismenn eru svo forhertir enn í dag, eftir allt það, sem á undan er gengið í þessum efnum, að þeir eru enn að tala um það, að samningarnir frá 1961 hafi verið góðir og hinn nýi form. flokksins, Geir Hallgrímsson, gerir sig að algjöru viðundri með því að endurtaka það hér, að með þessum samningi hafi Íslendingar unnið sinn stærsta stjórnmálasigur. Þetta gat verið gott á einum tíma, að segja þessa fjarstæðu á Heimdallarfundi, en ekki gengur neins staðar lengur að segja annað eins og þetta. Að þessu verður hlegið um allt landið. Og það er næsta hastarlegt, að maður eins og hv. þm. Matthías Bjarnason skuli enn í dag reyna að réttlæta samningana frá 1961 og gera samanburð á þeim og þeim samningsdrögum, sem hér liggja fyrir. (Gripið fram í: Drögum?) Já, enn eru þetta bara drög, verður kannske eitthvað meira, þegar verður búið að samþykkja það hér.

Já, ég kannast vel við það, að þeir sjálfstæðismenn, sem stóðu að því að gera samningana við Breta og V.-Þjóðverja árið 1961, hafa verið að reyna að hanga í því, að þrátt fyrir þá samninga hefðum við getað staðið að útfærslu landhelginnar. En þeir vita miklu betur, þeir vita það, að ef þeir samningar hefðu verið í gildi, þá hefðum við ekki getað staðið að útfærslunni nú. Í þessum efnum hafa þeir stundum verið að vitna í ákveðin ummæli, sem féllu á Alþ. hjá Bjarna heitnum Benediktssyni um þessi mál. Ég skal hafa þessi ummæli eftir, vegna þess að þau sýna það alveg svart á hvítu, að það er rangt, sem sjálfstæðismenn eru að halda fram nú í dag, að það hafi verið einhverjir möguleikar hjá okkur til að halda útfærslunni áfram, ef við hefðum verið bundnir af samningunum frá 1961. Hvað var það, sem Bjarni heitinn Benediktsson sagði í umr. hér á Alþ. um þetta mál? Hann sagði þetta orðrétt:

„Það sem ákveðið er skv. samkomulaginu,“ — hann var að ræða um samkomulagið frá 1961, — „er hitt, að við tilkynnum Bretum og þar með öðrum þjóðum um okkar einhliða útfærslu, sem tekur gildi að þeim 6 mánuðum liðnum, ef ekki áður er búið að hnekkja henni með úrskurði alþjóðadómstólsins. Þá tekur hin einhliða ráðstöfun íslensku ríkisstj. gildi, þegar þessir 6 mánuðir eru liðnir“.

M. ö. o.: Bjarni heitinn Benediktsson viðurkennir, að ef ekki er á 6 mánaða tilkynningartímanum búið að hnekkja því af hálfu Alþjóðadómstólsins, að við getum fært út, taki útfærslan gildi. Hvað hefur gerst nú? Á 6 mánaða tilkynningartímanum notuðu Bretar þetta ákvæði og fengu Alþjóðadómstólinn til þess að úrskurða, að útfærsla okkar skyldi ekki vera gild. Án efa lægi málið enn þá fyrir dómstólnum til meðferðar, og hann úrskurðaði Bretum og V.-Þjóðverjum ákveðinn rétt til þess að halda hér áfram veiðum skv. þessum samningi. Þetta eru þær staðreyndir, sem liggja fyrir.

En það liggja líka enn þá skýrari staðreyndir fyrir um það, hvernig þessi mál voru raunverulega gerð með samningunum frá 1961. Alþjóðadómstóllinn hefur nú þegar fjallað um þetta mál að vissu leyti. Hann hefur þegar sent frá sér álit sitt og greinargerð um það, hvað þessi samningur þýddi í raun og veru, hvernig hann batt okkur Íslendinga. í grg. frá Alþjóðadómstólnum segir m. a. orðrétt, eins og ég skal nú hér lesa upp um þetta atriði, — þar segir dómstóllinn :

„Saga samningsviðræðnanna sýnir ekki einungis tilgang aðila en skýrir einnig þýðingu þess, að ríkisstj. Íslands átti að senda ríkisstj. Hins sameinaða konungsríkis tilkynningu með 6 mán. fyrirvara, því að fyrirsvarsmenn Hins sameinaða konungsríkis lýstu því yfir 2. des. 1960, að trygging sú, sem þeir leituðu eftir, skyldi meðal annarra atriða kveða á um,“ svo er tekið orðrétt upp í gæsalöppum: „að engar aðgerðir, sem beitt yrði til framkvæmdar slíkri reglu, skyldu taka til breskra skipa, meðan málið væri til meðferðar fyrir dómstólnum.“

Þetta hafa Bretar lagt fram sem sönnunargagn fyrir því, að svona hafi verið staðið að samningunum, um þetta hafi verið samið, og Alþjóðadómstóllinn hefur fallist á þessa skoðun, að ef Bretar hreyfðu sig á 6 mánaða tilkynningartímanum, þá gætu þeir látið dóminn stöðva okkur með útfærslu. Þetta vita þeir sjálfstæðismenn fullkomlega. Þetta liggur allt fyrir. En enn reyna þeir að lemja höfðinu við steininn og réttlæta samningana frá 1961, sem hefðu þannig bundið Íslendinga gersamlega í landhelgismálinu (Gripið fram í.) Nei, ég er einmitt að benda á það, hvernig þessi þm. hefur m. a. staðið að þessu máli. En ég á eftir að tala meira við hv. þm.

Hv. þm. Matthías Bjarnason talar mikið um það, hvað menn geti verið kokvíðir, og kannast ekki við kokvíðari menn en m. a. mig, sem ætla að kyngja þessum samningi. Ég ætla nú samt, að mér takist að kyngja þessum samningi með álíka víðu koki og form. Sjálfstfl., um leið og hann samþykkir þetta. En það er meira. Það kok, sem gleypti samningana frá 1961, hlýtur að vera miklu stærra en það, sem kemur niður þessum samningi, því að ekki ætla ég það, að nokkuð sambærilegt verði í þessum samningi. Það væri ekki úr vegi, að hv. þm. léti slá máli á þessa tvo samninga.

Ég hafði látið orð falla um það fyrr í umr., að vísu ekki í sambandi við þetta mál, að það hefði ekki verið fýsilegt fyrir okkur íslendinga að eiga úrslit okkar í landhelgismálinu undir niðurstöðum dómstólsins í Haag, þegar þannig hefði verið staðið að málunum. Ég hafði þá m. a. sagt, að það færi ekkert á milli mála, að skoðanir ýmissa alþjóðalögfræðinga hefðu verið mjög misjafnar á því, hvað alþjóðalög raunverulega segðu um víðáttu landhelgi. Það var að heyra hér á formanni Sjálfstfl. hinum nýja, sem nú hefur tekið við, Geir Hallgrímssyni, að hann áttaði sig ekkert á þessu. Hann fór að spyrja, hvað ég meinti. Jú, ég get bent honum á það, að því miður kom það fram hjá einum þekktum íslenskum lögfræðingi í alþjóðalögum, alþjóðarétti, Hans G. Andersen. — Hann lét í ljós álit sitt í þessum efnum. Og Morgunblaðið, blað hv. form. Sjálfstfl., birti þessa ræðu og álit Hans G. Andersens í þessum efnum og hafði engar athugasemdir við þetta að gera af sinni hálfu. En þessi ræða var flutt 1. des. 1970 og hirt í Morgunhlaðinu löngu síðar. Þar segir m. a. þessi kunni lögfræðingur um þetta atriði það, sem hér skal lesið upp, hann var að tala um lög varðandi víðáttu landhelginnar, — hann sagði orðrétt:

„Þetta er tvímælalaust rangt. Alþjóðalög eru fyrir hendi, og ættu íslendingar að vera þakklátir fyrir að hafa átt þátt í þróun þeirra. Enginn vafi er á því, að eins og er er hámark viðáttu landhelgi og fiskveiðilögsögu að alþjóðalögum miðað við 12 mílur.“

Þetta vissum við margir, að Hans G. Andersen hafði látið frá sér fara og Morgunblaðið hafði prentað það eftir honum. Vissum það auðvitað líka, sem ég ætla að form. Sjálfstfl. viti, að margir aðrir lögfræðingar, heimskunnir menn, m. a. í Bretlandi og V.-Þýskalandi og víðar, þeir hafa miskunnarlaust haldið því fram, að það væru til alþjóðalög um víðáttu landhelgi, þó að það hafi verið afstaða okkar Íslendinga og margra annarra og líka mjög þekktra, heimsþekktra lögfræðinga, að það væru engin lagaákvæði, sem byndu okkur í þessum efnum. En miðað við þessar aðstæður, landhelgissamningana frá 1961, eins og þeir voru úr garði gerðir, og miðað við þennan ágreining, sem við vissum að var uppi meðal lögfræðinga um það, hvernig líta skyldi á einhliða útfærslu landhelgi, þá var það vitanlega algert glapræði að ætla að láta þetta mál í hendur erlends og íhaldssams dómstóls og með öllu þýðingarlaust, hversu oft sem Gunnar Thoroddsen eða aðrir endurtaka það, að hann vilji fara til Haag til þess að vinna þar málið. Hann hefur ekki nokkurt minnsta vald á því að lofa neinu um það, að hann geti unnið neitt mál, þó að hann yrði sendur til Haag. Hér var aðeins um það að ræða, hvort menn vildu taka á sig þá áhættu að tapa niður sókn okkar í landhelgismálinu með öllu, eða hvort við ættum að fara þá leið, sem við höfum farið áður og ýmsir aðrir höfðu farið, að neita því, að erlendur dómstóll ætti úrskurðarvald í þessum efnum. Ég hef bent á þetta til þess að sýna, að Sjálfstfl. hefur ekki af miklu að státa í sambandi við aðgerðir sínar í landhelgismálinu, þegar það er rætt á breiðum grundvelli.

Komi maður svo að seinni hluta málsins, en hann varðar aftur það, hvernig staðið hefur verið að samningaviðræðunum við Breta og V.-Þjóðverja í þessu máli, síðan þær viðræður hófust, liggur það fyrir, þannig að allir vita og þekkja, að aðalmálgögn Sjálfstfl. hafa blátt áfram klifað á því allan tímann, alveg til hins síðasta, að við ættum að semja við Breta, það væri vel hægt að semja við Breta, það munaði svo að segja engu, þetta væri alveg að koma saman, og og þeir hafa verið í rauninni alltaf með öllum undansláttartillögum, sem fram hafa komið. Já, það hefur svo ekki verið sparað að gera tilheyrandi árásir á þá menn sem af hálfu okkar Íslendinga hafa farið með okkar samningamál. Ég hef fengið ríflegan skammt af þessu allan tímann. Það hefur ekki borið mikið á milli Breta og þeirra forustumanna Sjálfstfl., þar hafa þeir þó verið á einu máli, að það þyrfti að losa sig við einn úr samningunum, sem sagt Lúðvík. (Gripið fram í.) Ætlar þú að samþykkja samkomulagið, Pétur, má ég spyrja? Ertu ekki búinn að gera upp hug þinn enn þá? — En það kom líka skýrt fram hér í umr. hjá form. Sjálfstfl., Geir Hallgrímssyni, að hann hélt því fram alveg eins og Bretar, að það hafi verið afstaða mín allan tímann að reyna að slíta Íslendinga frá vestrænni samvinnu. Þó að ég hafi staðið að tillögugerð um að bjóða samninga æ ofan í æ í fullu samráði við fulltrúa Sjálfstfl., hæði í landhelgisnefnd og utanrmn., því að þeim hefur svo sannarlega verið gerð grein fyrir þeim tillögum, sem fram hafa verið lagðar, — þó að ég hafi boðið það að standa að samningagerð miðað við ákveðið tilboð, þá hafa þessir aðilar kosið sér þá stöðu með Bretum að baknaga mig allan tímann og segja, að ég kæmi í veg fyrir samninga. Hvað hafa þeir meint með því? Auðvitað, að við hefðum átt að gefa meira eftir en við höfðum sett fram tillögur um. (Gripið fram í.) Jæja, hefur þú lesið það einhvers staðar? Blessaður, gefðu mér nú þetta hlað. (Forseti: Þm. eiga að muna, að það á að segja: hv. þm.) Já, ég verð víst að bæta því við, en það kalla svo margir fram í hjá mér, að ég hef ekki við. Og svo er ég þar að auki að spara mér tíma. (Forseti: Það er mælt til þeirra líka.)

Mig langar svo að víkja að nokkrum atriðum, sem hér hafa komið fram í ræðu hv. þm. um viss efnisatriði málsins. Þá hef ég alveg sérstaka löngun til að víkja að hv. 2. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni. Þessi hv. þm. geystist hér allmikið. Jafnhliða því, að hann var að hæla landhelgissamningunum frá 1961, þessum ágætu samningum, sem hefðu bundið okkur alveg fasta, reiknaði hann það út, sem ég hefði búist við, að aðrir kæmu með en hann, en hann hefur samt fallið fyrir þessu, — hann reiknar út eins og sumir menn, sem lítið þekkja til fiskveiða og sjósóknar, hvað samningarnir frá 1961 hefðu stækkað landhelgina mikið í ferkm. Þessi ferkm útreikningur minnir mig alltaf á það, að menn séu farnir að reikna út íslenska fiskveiðilandhelgi í dagsláttum. En það er lítill mælikvarði á landhelgina, þótt menn finni það út, hversu margar dagsláttur hún sé. Sannleikurinn er auðvitað sá, að það eru viss svæði við landið og þá sérstaklega þau, sem eru næst landinu, sem hér hafa margfalda þýðingu fyrir okkur. Og allur ferkm reikningur er auðvitað fjas út í loftið. Jú, það er alveg rétt, með samkomulaginu, sem gert var 1961 var nokkuð breytt grunnlínum í kringum landið. En við þurftum ekki að gera neinn sérstakan samning við Breta þá og allra síst um það, að þeir gætu haft hér áhrif á útfærslu fiskveiðilandhelginnar við Ísland, jafnvel um ókomin ár, til þess að breyta okkar grunnlínum. Til þess höfum við alveg tvímælalausan rétt að lögum. Við þurftum ekki að gera neitt samkomulag og þurfum ekki að þakka Bretum eða einum né neinum neitt fyrir það. Það var aðeins okkar eigið ákvörðunarvald.

En hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, og reyndar fleiri þm. Sjálfstfl., sem hér hafa talað í kvöld, hafa verið býsna stórorðir um eftirgjöf fyrir Bretum nú eða algjöra uppgjöf. En ég vildi þá mega spyrja þessa hv. þm. um það, hvar þeir voru eiginlega staddir í landinu síðustu 3 vikur, á meðan þeir vissu mætavel hvaða tilboð lágu fyrir um hugsanlega samningagerð við Breta, og meðan þeir vissu, að það var ekki samstaða innan stjórnarflokkanna um það, hvernig ætti að standa að vissum atriðum í samkomulaginu. Við Alþb.-menn höfðum gert opinberlega grein fyrir því, hverju við vildum breyta og hvernig ætti að reyna að standa að því. Við töldum, að það ætti frekar að hafna samkomulaginu til þess að knýja fram betri samninga en að hverfa að þessu ráði. Það hefur ekki farið fram hjá neinum manni í landinu, að það var tekist meira og minna á um það, hvernig að þessum málum ætti að standa. Það fór m. a. ekki fram hjá Morgunblaðinu og Vísi. Þar var því lýst yfir daglega svo að segja, að Morgunblaðið, sem var þó að hafa ýmis orð um hv. forsrh., styddi nú forsrh. og nú það mætti þó treysta á stuðning þeirra sjálfstæðismanna í baráttunni við kommúnista, og annað eftir þessu. En hvar voru þeir, þessir glöðu baráttumenn á móti þessu samkomulagi, hv. 2. þm. Vestf. og hv. þm. Sunnl. hvar voru þeir staddir og af hverju létu þeir aldrei til sín heyra? Af hverju tóku þeir engan þátt í því að hafa áhrif á það, hvað væri að gerast? Og hvar var m. a. hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, stjórnarmaður í L. Í. Ú.? Hvar var hann staddur, þegar stjórn þess sambands var boðuð til fundar og samþykkti undireins fyrirliggjandi samningsgrundvöll? Hafði hann ekki áhuga á að mæta? Eða gleymdi Matthías Bjarnason sér og greiddi kannske atkv. með samkomulaginu þar, eins og L. Í. Ú. gerði? (Gripið fram í.) Nú, jæja. (Gripið fram í.) Hvað er hv. þm. að tala um? Veit hann ekki, að forsrh. hélt almennan hlaðamannafund og það var skýrt frá öllum gangi málsins opinberlega í öllum blöðum. Og hvað hefur hv. þm. sagt síðan, þangað til nú? Hvað hefur hann sagt? Hann hefur steinþagað um áhuga sinn á málinu.

Já þessi hv. þm., sem hér greip fram í, Pétur Sigurðsson, hann er í stjórn, að ég ætla, hvort tveggja Sjómannafélags Reykjavíkur, sem samþykkir grundvöllinn, og líklega líka í stjórn Sjómannasambandsins, sem líka samþykkir grundvöllinn. Mætti hann hvergi? Er hann alveg hættur að hafa nokkur áhrif, þar sem hann er? Nei, það er ekki vitað annað en að þessir hv. þm. hafi dyggilega tekið undir þá afstöðu, sem kom fram í Morgunblaðinu og Vísi, og stutt það mjög dyggilega, að það þyrfti að víkja Lúðvík Jósepssyni til hliðar, hann mætti ekki koma nærri því að tala við Breta, úr því sem nú væri komið. Hann mætti ekki hafa neitt um það að segja, hvaða tíma þessi sérstöku veiðisvæði yrðu lokuð. En þessir menn geta svo komið fram hér á eftir og þóst vera á móti því samkomulagi, sem hér stendur til að gera. Það verður auðvitað ekki litið á afstöðu eins og þessa öðruvísi en svo, að hér er um grátbroslega tilburði að ræða. Það vita það nánast allir, að hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, þeir hafa haft það lengi í sigti, að þeir gætu náð vissum mönnum vel í skotfæri í sambandi við þessa samningagerð, og hafa eigi að síður stutt sinn flokk í því að vera með öllum undanslætti, þar sem tillögur hafa komið upp í landhelgismálinu. — Ég sé, að hv. þm. líður ekki vel. þegar þessi sannleikur er sagður um hann.

En hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, sagði hér ýmislegt um viss efnisatriði málsins, þar sem hann hallaði mjög réttu máli. Hann hélt því m. a. fram, þegar hann ræddi um veiðihólfin við landið, að Vestfjarðahólfið væri langsamlega þýðingarmest fyrir Breta. Það er rangt. Opinberar tölur sýna, að það er Austfjarðahólfið, en Vestfjarðahólfið kemur þar næst á eftir. Já, bara lemja hausnum við steininn, það er eina leiðin auðvitað, þegar menn verða fyrir óþægilegum staðreyndum. En það er ekki aðalatriðið. Það er ekki um það að villast, að langsamlega þýðingarmestu veiðisvæðin fyrir erlenda togara hér við land eru Austfjarðahólfið og eins Vestfjarðahólfið. Það eru þessi tvö hólf, sem eru langsamlega mest stunduð og langþýðingarmest. En í þeim till., sem fyrir liggja, er líka tekið langmest tillit til þessara svæða, en ekki eins og hv. þm, sagði, minnst tillit til þeirra. Á Vestfjarðasvæðinu er gert ráð fyrir sérstöku bátasvæði, sem breskum togurum er algerlega óheimilt að koma inn á allan tímann, þar mega þeir aldrei veiða nær landi en upp að 20 mílum. Það er ekkert veiðihólf, sem hefur slíka allsherjarvernd eins og Vestfjarðahólfið, þar sem 20 mílna reglan gildir fyrir þessu hólfi öllu allan tímann. Austfjarðahólfið kemur þarna næst með verndun af þessu tagi, en sú verndun nær þó ekki nánda nærri eins langt. Mjög þýðingarmikill hluti af veiðisvæði Austfirðinga er opinn fyrir hinum erlendu aðilum alveg upp að 12 mílum. En það er enginn vafi á því, að þessar friðunarreglur, sem þarna er gengið út frá fyrir Vestfirðinga, eru þeim mjög dýrmætar.

Ég efast ekkert um það fyrir mitt leyti og hef látið uppi þá skoðun oft áður, að auðvitað hefði verið æskilegt, að tvö hólf hefðu verið lokuð hverju sinni allt í kringum landið, en ekki eitt. Það hefði auðvitað verið gífurlega mikill munur fyrir Vestfjarðamiðin og önnur mið í kringum landið, ef Bretar hefðu verið með öllu útilokaðir frá veiðum þar út að 50 mílum í 4 mánuði, sem hefðu síðan verið valdir með tilliti til hagsmuna okkar Íslendinga, en ekki að hér væri aðeins lokað svæði í tvo mánuði og það að verulegu leyti skv. reglum, sem Bretar virðast hafa sett fram kröfur um. Auðvitað hefði þetta verið þýðingarmikið. En það hefur sem sagt komið í ljós, að það hefur ekki náðst fram, þrátt fyrir það, að við Alþb.-menn börðumst fyrir því að fá þessar breytingar fram, eins og við höfðum aðstöðu til.

Það er auðvitað líka eins og hver önnur fjarstæða hjá hv. 2. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, að halda því fram, að þær reglur, sem hér er um að ræða, hafi ekkert að segja fyrir Vestfjarðamiðin. Auðvitað hefur það allmikið að segja fyrir þessi mið, sem lágu undir miklum ágangi útlendinga, þegar þeir geta ekki sent á miðin neina frystitogara, sem þeir hafa oftsinnis sent hingað á miðin áður. Og það hefur líka vitanlega mikið að segja fyrir miðin þar, að 30 skip af þeim skipastóli, sem Bretar hafa sent hingað á miðin, skuli þó vera útilokuð frá því að mega taka þátt í veiðunum. Auðvitað er hér um talsvert verulegan niðurskurð að ræða á sókn. Hitt er svo allt annað mál, að ég hef verið á þeirri skoðun og er á þeirri skoðun enn, að það hefði verið mjög nauðsynlegt að fá hér fram meira en gert er ráð fyrir í þessum samningi. En ég tel mig, og við Alþb.-menn, teljum, að við höfum gert það, sem í okkar valdi stóð, til þess að reyna að fá hér fram betri samning. En það verður ekki hægt að segja, að Sjálfstfl. hafi stutt við bakið á okkur í þeim efnum.

Ég held, að það hljóti að fara fyrir fleirum svipað og mér, sem hlusta á þessar aðfinnslur hjá hv. 2. þm. Vestf. og hv. 2. þm. Sunnl., Guðlaugi Gíslasyni, og hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, þegar þeir ryðjast nú fram á völlinn og tala jafnvel háfleygt um það, eins og hv. þm. Þorvaldur Garðar, að það sé ömurlegt og hastarlegt, eins og hann sagði, að við skulum gefa svona eftir fyrir Bretum, um það leyti sem, eins og hann sagði, breska nýlenduveldið er alveg komið að fótum fram. Ja, maður hefði nú kannske mátt heyra það fyrr, að þetta væri skoðun þeirra í Sjálfstfl., að nú væri breska nýlenduveldið komið að fótum fram og ekki væri ástæða til að gefa neitt eftir fyrir þeim. Hvernig í ósköpunum stóð á því, að þessir hv. þm. komu ekki fram fyrr og létu til sín taka (Gripið fram í.) Nú, var þá allt gott?

En það, sem hér er um að ræða og er aðalatriði þessa máls, er, að við Íslendingar erum nú búnir að takast á við Breta í 2 ár í rauninni um okkar landhelgismál. Hafa verið okkur einna örðugastir í þeim átökum þeir samningar, sem við vorum að vissu leyti bundnir við lengi vel. frá tíð viðreisnarstjórnarinnar gömlu, samningarnir frá 1961. Það liggur alveg ótvírætt fyrir, að málsvarar Sjálfstfl., þeir sem ráðið hafa m. a. penna Morgunblaðsins og Vísi, hafa verið úrtölumenn allan tímann. Og það hefur verið algengt að helstu talsmenn Breta hafi veifað Morgunblaðinu einnig úti í Englandi til rökstuðnings sínu máli. Þetta hefur vitanlega ekki styrkt okkar aðstöðu í átökunum við Breta. Það er enginn vafi á því, að sérstaklega eftir að deilan tók að harðna við Breta, þá þurftum við á öllu okkar að halda. Við þurftum m. a. á því að halda, að við kæmum svo einarðlega fram við þá, að við segðum þeim það á þann hátt, sem þeir skildu, að við mundum slíta við þá stjórnmálasambandi, þegar þar að kæmi. Og það hefði gjarnan mátt senda þeim fleiri orðsendingar, sem þeir hefðu kannske veitt athygli. En þá var því ekki að heilsa, að Sjálfstfl. veitti mikinn stuðning til þess. Það voru fulltrúar hans í utanrmn., sem voru þeir einu, sem hikuðu og vildu ekki grípa til neinna frekari hótana gagnvart Bretum.

Þetta dró auðvitað allt til þess, að Bretar töldu, að þeir hefðu efni á því að berjast við okkur, þó með nokkuð hörðum átökum væri, og berjast við okkur lengi. Þeir heyrðu, að hér voru fulltrúar stórs flokks í landinu, sem trúðu áróðri þeirra. Þeir áttu meira að segja sína málpípu hér á Alþingi, formann stærsta stjórnmálaflokksins, Geir Hallgrímsson, sem hér flutti áróður þeirra um það, hvað þeim vegnaði vel á miðunum, bresku skipunum, og hvað þau fiskuðu þar mikið. Og hann flutti hér hreinar áróðurstill. þeirra um ástandið á miðunum. Þegar gripið var til nokkuð róttækra aðgerða í sambandi við landhelgisgæsluna, var það formaður stærsta stjórnmálaflokksins, sem nú er orðinn, sem m. a. beitti mestum úrtölum. Það var athyglisvert, að á meðan við stóðum í þessum hörðu átökum við Breta, var þannig staðið að málum hér, að menn voru að rífast um það á Alþingi við hv. þm. Geir Hallgrímsson, hversu Bretum liði nú vel á miðunum og hvað þeir hefðu fiskað mikið. Það var verið að rífast um þetta allt fram undir það svo að segja, að bresku togaraskipstjórarnir gáfust upp og fóru út úr landhelginni, af því að þeir þoldu ekki við lengur. En þannig var þetta, að ýmsir höfðu léð þessu eyra hér, og menn voru farnir að trúa því, að e. t. v. gætu Bretar hér mikið, en þeir gátu ekki meir en þetta, að þeir voru að gefast upp. Svo kom áróðurinn um það, hvað þeim liði afskaplega vel undir herskipaverndinni, þó að þeir hefðu getað haft hér herskip yfir hásumarmánuðina, á meðan auðveldast var að stunda veiðar hér við Ísland og auðveldast var fyrir herskipin að vera hér. Þá var því haldið fram, að Bretar hefðu veitt hér mun meira en þeir hafa veitt, til þess að sýna fram á það, hvað ráðstafanir Íslendinga væru þýðingarlitlar, og Morgunblaðið sló því upp dag eftir dag, að útfærsla okkar hefði gersamlega mistekist.

Þetta var sú aðstaða, sem við bjuggum við í átökunum við Breta. Það var því í rauninni ekkert óeðlilegt, að til þess kynni að draga, að við gætum ekki haldið út af fullum krafti í átökum okkar við Breta, það mundu einhverjir linast. Ég segi það fyrir mitt leyti, að ég hefði kosið að halda þessum átökum áfram. Ég hefði gjarnan viljað, að bresku herskipin hefðu fengið að halda hér til á miðunum næsta vetur og mæta þeim erfiðleikum, sem þau mundu mæta hér á Íslandsmiðum yfir háveturinn, og sjá, að hvað miklu gagni þau hefðu komið.

En málið þróaðist þannig, eins og allir vita, að það var horfið að því ráði að reyna að fá það út úr samningunum við Breta, sem mögulegt var á þessu stigi málsins. Ég viðurkenni, að með þeim samningsdrögum, sem hér liggja fyrir, fáum við í okkar hlut allþýðingarmikla hluti. Niðurskurðurinn á flotanum hefur sitt að segja, og bátasvæðin hafa líka talsvert að segja. Þó að ekki sé nema eitt hólf lokað hverju sinni, þá hefur það einnig nokkra þýðingu. Ég efast ekkert um það, að hér eru Bretar að draga talsvert mikið úr sínum veiðimöguleikum frá því, sem þeir voru, á meðan hér var allt óheft, á því leikur enginn vafi. Og það er líka rétt, sem hér hefur verið sagt, að í þessu samkomulagi liggur viss almenn viðurkenning Breta á rétti okkar yfir 50 mílna landhelgissvæðinu. Ég hefði hins vegar talið, eins og ég hef sagt, að við hefðum átt að halda þessari deilu áfram og ná hér betri kosti. En það lá alveg skýrt fyrir, að það gat ekki orðið samstaða um það. Við Alþb.-menn gerðum því samkomulag við okkar samstarfsflokka um að standa að því samkomulagi, sem hér liggur fyrir, eins og við höfum gert grein fyrir, og ég tek alveg undir það, sem hæstv. heilbrrh. Magnús Kjartansson sagði hér, mín afstaða er nákvæmlega sú sama og hans.

Ég ætla mér ekki að skorast á neinn hátt undan því að bera ábyrgð á því að samþykkja þetta samkomulag, sem hér liggur fyrir. En ég hef áskilið mér rétt til þess að gera fulla grein fyrir því, eins og ég hef gert hér, hvert mat mitt var á stöðunni og hvernig ég leit á þessi mál og hvernig ég hefði frekar kosið að staðið væri að málinu. En þetta var, úr því sem komið var, tvímælalaust besti kosturinn, því að sá kostur hefði að mínum dómi verið hryllilegasti af öllum, ef Bretar höfðu fengið þennan samning, sem hér er um að ræða, og svo íhaldsstjórn á Íslandi daginn eftir. Þá hefðu þeir haldið sameiginlega hátíð, þeir í Morgunblaðshöllinni og hinir þarna suður í Downing Street, sem þar eru nú. Þá hefði verið sameiginlegur gleðskapur á báðum þessum stöðum.

Já, það er rétt, að ein meginástæðan til þess, að ég álít, að við hefðum þurft að fá meira út úr samningunum við Breta, er einmitt sú, að ég tel, að staða fiskstofnanna hér við landið sé orðin það veik, að við þurfum á meiri friðun að halda en við fáum út úr þessu samkomulagi. (Gripið fram í.) Það hefur ekki staðið á mér að vera með aukinni friðun, en ég hef bara gert mér grein fyrir því, að ástandið er þannig, að skv. opinberum skýrslum veiða Bretar meira en annan hvern fisk, sem veiddur er á Íslandsmiðum, meira en helminginn að fiskatölu til. Og á meðan ekki eru gerðar nægilega sterkar ráðstafanir til þess að færa niður sóknina hjá þessum aðila, sem tekur rúmlega helminginn af öllum fiskinum, þá er meira og minna gagnslitið, að hinn aðilinn dragi að sér höndina. Því verða vitanlega allar friðunarráðstafanir að taka mið af þessu.

Ég vil svo aðeins að lokum endurtaka það, að ég tel þessa tilburði hjá þeim, sem hér tala af hálfu Sjálfstæðisfl. á móti þessum drögum, nánast grátbroslega, þegar tekið er tillit til þess, sér, að það liggi afskaplega lítil alvara á hak hvernig málin hefur borið að. Ég held nú í sjálfu við ræður þessara hv. þm., af því að þeir hafa stutt sinn flokk í því, sem ég hef hér verið að lýsa, að hefur verið þeirra stefna í framkvæmd.

Ég tel, að besti kosturinn, úr því sem komið er, sé að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir. Ég geri mér vonir um það, að við getum haldið áfram nauðsynlegustu friðunarráðstöfunum eigi að síður, þó að það komi ekki skýrt fram í þessum samningum, þannig að þær allra nauðsynlegustu nái fram að ganga, og verður a. m. k. við það að miða. En ég sem sagt reyni ekki að skjóta mér undan því á neinn hátt — og læt ekki undan neinum frýjunarorðum neinna varðandi þessi mál — að standa með því samkomulagi, sem ég hef gert, og tek að mér á borð við alla aðra að bera ábyrgð á því sem því skásta, sem um var að velja, eins og komið var.