12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. Alþb. hafa flutt hér all einkennilegar ræður við þessa umræðu. Þið hafið nú heyrt í hæstv. sjútvrh., þar sem hann fjallaði aðeins að óverulegu leyti málefnalega um þá till., sem hér liggur fyrir. Í stað þess eys hann skömmum og svívirðingum yfir sjálfstæðismenn rétt eins og þeir beri ábyrgð á þeirri till., sem hér er lögð fram. Maður gæti ímyndað sér, að fólk, sem ekki hefur fylgst með þessum umr. og gangi mála og hlustaði á þennan málflutning, stæði í þeirri trú, að það væru sjálfstæðismenn, sem væru að flytja þessa till., en ekki hæstv. sjútvrh.

En í lok ræðu sinnar sér hann þó ástæðu til þess, þessi hæstv. ráðh., sem ber fram þessa till., að lýsa því yfir, að hann ætli ekki á neinn hátt að skorast undan að bera ábyrgð á þessari till. Það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi, að ráðherrar og tillögumenn þurftu að lýsa því yfir í ræðum, að þeir ætluðu ekki að skorast undan því að standa við sínar eigin tillögur.

Hæstv. iðnrh. flutti líka mjög einkennilega ræðu fyrr í þessari umr. Auk þess sem hann fjallaði í löngu máli um innanflokksmál Sjálfstfl., flutti hann heimspekilegar vangaveltur um viðhorf almennings til stjórnmálamanna. Það vekur alltaf undrun mína, hvernig þessi hæstv. ráðh. talar alltaf um stjórnmálamenn í annarri og þriðju persónu rétt eins og hann sé þeim hópi algerlega óviðkomandi og afneiti honum. Niðurstaða hans af þessum hugleiðingum var sú, að Alþb. vildi nú taka tillit til hins nýja tíðaranda og þess vegna ræddi Alþb. sín mál fyrir opnum tjöldum og gerði ágreining sinn við meðstjórnarflokka sína opinberan. Nú er ég ekki á móti opnari stjórnmálaumr., en auðvitað er þetta mál ekki svona einfalt. Það, sem Alþb. hefur gert, hefur verið að brjóta trúnað, virða óskir hæstv. forsrh. nánast að engu og lýsa till. hans gersamlega óaðgengilegar. Og Alþb. hefur gert meira í þessu máli. Það hefur svikið sín loforð við sína kjósendur og gengið til samninga við Breta vitandi um það, að þeir væru úrslitakostir. Alþb. hefur ákveðið að taka afstöðu í máli þessu þvert gegn vilja sínum og yfirlýsingum. Ég veit ekki, hvernig hæstv. iðnrh. lítur á hlutverk sitt í stjórnmálum, en ég þykist þó geta sagt honum, að það er sannarlega ekki í samræmi við tíðarandann að gefa út yfirlýsingar og taka svo ákvarðanir þvert gegn þeim.

Hins vegar er það mjög athyglisvert að heyra þá kenningu hjá þessum hæstv. ráðh. og forustumanni Alþb., að staða flokks hans hafi styrkst við þessi vinnubrögð. Það vita þá væntanlega allir nú, að ef Alþb. fylgir eftir þessum kenningum sínum að fara í gegnum sjálft sig og vega að samstarfsmönnum sínum, þá er ljóst, hver vinnubrögðin verða og hverjar skýringarnar verða, þegar kemur að næsta stórmáli.

Ég vil í þessu sambandi, þó að það sé nánast aukaatriði, ekki láta hjá líða að mótmæla enn einu sinni tilvitnun þessa hæstv. ráðh. í einhverjar ímyndaðar ályktanir ungra sjálfstæðismanna. Ég hef áður hent hæstv. ráðh. á, að þetta sé á einhverjum misskilningi byggt, en hann hefur látið sér sæma að endurtaka þessi ósannindi við þessa umr. Hér hefur þessi hæstv, ráðh. talað sem hinn syndlausi. Hann hefur gert aðkast að Sjálfstfl. og upphefur sjálfan sig á kostnað þess flokks. Og það er ómerkilegur málflutningur og lítilmannlegur, þegar þessi ráðh. er að vitna í ályktanir og ummæli, sem eiga sér enga stoð í veruleikanum. Ábyrgur stjórnmálamaður og hæstv. ráðh. ætti að skammast sín fyrir slíkan málflutning.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að því máli, sem hér er á dagskrá. Allt frá árinu 1961 hafa átt sér stað í þessu landi hatrammar deilur um þá samninga, sem gerðir voru við Breta og Vestur-Þjóðverja um lausn landhelgisdeilunnar á þeim tíma. Þessar deilur hafa verið óvenjulegar að því leyti, að þar hefur ágreiningur virst mun djúpstæðari og skoðanir manna fjarlægari en í flestum öðrum málum. Jafnvel í deilum um varnarmálin, sem þó eru mjög heitar hér, hafa menn virt skoðanir hver annarra og viðurkennt a. m. k. í raun, að sá ágreiningur stafaði ekki af öðru en málefnalegum skoðanamun, þar sem það eitt vekti fyrir mönnum, sem þjóðernistilfinning þeirra byði þeim.

Á hinn bóginn hafa ásakanir varðandi samkomulagið frá 1961 verið miklu heiftugri. Þar hefur þeim mönnum, sem stóðu fyrir samkomulaginu, verið brigslað hvað eftir annað um landráð og glæpsamlegt athæfi gagnvart íslenskum hagsmunum. Við höfum heyrt þessar yfirlýsingar og aðdróttanir endurteknar í þessum umr., þegar hæstv. iðnrh. talaði um alvarlegt afsal landsréttinda og áliti þá við samkomulagið frá 1961.

Nú þegar sá atburður á sér stað, að lagður er fram samningur eða till. að samningi, sem í eðli sínu er sambærilegur við hið fyrra samkomulag, þá er fyllilega eðlilegt og óhjákvæmilegt að rifja upp umr. og skoðanaskipti um þetta umdeilda mál, ekki síst þegar það er hald manna, að einmitt afstaða flokka og einstakra stjórnmálamanna hafi mjög ráðið úrslitum um þá stjórnmálaþróun, sem átt hefur sér stað í þessu landi hin síðari árin.

Það er mín skoðun, að nú þegar við ræðum um þetta samkomudag eða tillögur til samkomulags, séum við ekki aðeins að ræða um, hvort við eigum að samþykkja það eða fella það, heldur séu hér ráðin örlög þess málflutnings, sem hafður hefur verið uppi allan síðasta áratug, og jafnframt lagður dómur á samkomulagið frá 1961.

Ég mun stikla á stóru, þegar ég geri þennan samanburð á þessum tveimur samningsdrögum, en ég geri það vegna þess, að ég er einn þeirra, sem fullyrða, að samningurinn frá 1961 hafi verið góður og alla vega hafi hann verið góður í samanburði við þann samning, sem nú er lagður fram. Ég mun reyna að halda mig við málefnalegan samanburð.

Það hefur verið fullyrt af andstæðingum samkomulagsins frá 1961, að þar sé um að ræða réttindaafsal. Hv. 1. þm. Austf. notaði þetta orð sömuleiðis hér við þessar umr. Hann talaði um réttindaafsal og þegar maður skoðar umr. frá þinginu frá 1960, eða áður en samkomulagið var gert 1961, þá er það athyglisvert, að því var mjög haldið fram, að samkomulagið mundi binda hendur okkar Íslendinga um aldur og ævi, það mundi svipta okkur þessum réttindum til að færa út. Því var jafnvel haldið fram, að slíkir samningar væru einsdæmi í sögu fullvalda ríkja. Nú er það mitt mat, að á s. l. tveimur árum hafi það sannast, að þetta hafi ekki átt við rök að styðjast. Samkomulagið frá 1961 hefur ekki komið í veg fyrir einhliða útfærslu, og ég veit, að enginn hv. þm., enginn Íslendingur, dregur það í efa, að við höfum gert það í fullum rétti. Okkur hefur greint á um, hvort segja ætti upp samningnum frá 1961. Við sjálfstæðismenn höfum bent á, að samkvæmt því samkomulagi væri tekið beinlínis fram, að Íslendingar hygðust færa frekar út og tilvist samningsins væri því engin hindrun í þeim efnum. Núv. stjórnarsinnar hafa hafnað þessum skilningi og töldu uppsögn samningsins forsendur frekari útfærslu. En þessi ágreiningur breytir ekki þeirri staðreynd, að tilurð og tilvist samningsins frá 1961 hefur ekki bundið hendur okkar, hvað þá að þar hafi verið um að ræða réttindaafsal um aldur og ævi. Ella stæðum við ekki hér í þessum sporum nú. Ella hefðum við ekki fært okkar landhelgi út í 50 mílur, hvort heldur við segjum þrátt fyrir eða vegna samkomulagsins frá 1961.

Einhver kann nú að segja, að einmitt vegna ágreiningsins um það, hvort samningurinn væri í gildi eða ekki, hefðu Bretar og Vestur-Þjóðverjar getað skotið máli sínu til Haag og hans vegna, þ. e. a. s. samningsins, væri enn óvissa um rétt okkar og viðurkenningu annarra þjóða. En ég spyr þá: Dettur einhverjum í hug, að Bretar, Vestur-Þjóðverjar eða yfirleitt aðrar þjóðir hefðu frekar viðurkennt útfærsluna, enda þótt samningurinn frá 1961 hefði ekki verið í gildi og ekki væri hægt að vísa til málskots til Haag? Réttur okkar til útfærslu er eitt, en viðurkenning er annað. Við erum allir sammála um rétt okkar, og í því efni orkar samningurinn frá 1961 ekki heldur tvímælis. Hér er hins vegar deilt um viðurkenninguna, og að því leyti er landhelgisútfærslan ekki komin í heila höfn, og ég leyfi mér að fullyrða að aðrar þjóðir hefðu ekki orðið fyrri til, nema þá síður væri, að veita okkur viðurkenningu, og vitaskuld væri sama óvissan ríkjandi um afstöðu þeirra, hvort heldur sem samningurinn frá 1961 hefði verið gerður eða ekki.

Allt þetta ber að sama brunni: Samkomulagið frá 1961 hefur ekki orðið okkur til trafala og hefur ekki bundið hendur okkar við útfærslu landhelginnar í 50 mílur. Að þessu leyti er ljóst, að ásakanir um réttindaafsal um aldur og ævi hefur ekki átt við rök að styðjast. Sjálfstæðismenn héldu því fram 1961 samkomulaginu til gildis á þeim tíma, að það kæmi í veg fyrir vopnaða íhlutun Breta, að það forðaði frá árekstrum og hættuástandi á miðunum, þá og þegar við færðum út. Á þetta var ekki hlustað. Nú hefur atburðarásin orðið sú, að við höfum fært út og til árekstrar hefur komið. Til þess að forðast frekari átök leggur nú hæstv. ríkisstj. fram till. til bráðabirgðasamkomulags, og eins og í ljós hefur komið, er samningurinn svo gallaður, að hann hefur þann eina tilgang, og það er það eina, sem réttlætir hann, að við öðlumst með því frið, við forðumst þessa árekstra. Þann frið kaupum við með því að slá á frest frekari framkvæmdum og endanlegum ákvörðunum. M. ö o.: það, sem blasir við okkur núna, er þetta:

Fyrst er einskis metið af núv. stjórnarsinnum það ákv., sem var í samkomulaginu frá 1961, því er hafnað. Síðan er boðið heim þeim orsökum, sem nú valda því, að það er gerð tilraun til samkomulags, sem bindur hendur okkar í næstu tvö ár. Öllum aðgerðum er nú slegið á frest, og við verðum að bíða og vona, að mér skilst helst að bíða eftir því, að upp úr verði kveðið á Hafréttarráðstefnunni.

Ein þyngstu og veigamestu ámælin á fráfarandi ríkisstj. voru þau, að hún vildi ekkert gera, en frestaði öllum aðgerðum fram yfir Hafréttarráðstefnuna. Að vísu var það rangt að mínu mati, að fráfarandi ríkisstj. hefði viljað fresta öllum aðgerðum. En hitt er rétt, að núv. stjórnarandstaða taldi óhjákvæmilegt að taka tillit til niðurstöðu Hafréttarráðstefnunnar og vildi haga svo sínum aðgerðum, að málstaður okkar fengi stuðning á þeirri ráðstefnu. Nú er málum svo komið, að raunverulega er hæstv. ríkisstj. að leggja til, að við sláum aðgerðum á frest, þangað til úrslit fást á þessari ráðstefnu, og þó er það raunverulega ekki svo gott, því að ég get ekki betur séð en að þetta samkomulag, sem á að gilda til tveggja ára, gæti þýtt það, að Bretar fengju að halda hér áfram veiðum, jafnvel þótt Hafréttarráðstefnan tæki ákvarðanir okkur í hag í millitíðinni. Hér er því ekki aðeins um það að ræða, að ríkisstj. hefur í reynd fallist á þau sjónarmið, að Hafréttarráðstefnan hafi hér þýðingu, heldur hefur orðið um beinan undanslátt að ræða.

Þessi samningur eða drög að samningi, sem hér liggja fyrir, gera ráð fyrir því, að Bretar veiði innan 50 mílna í tvö ár. Í umr. frá 1960–1961 gerðu þáv. stjórnarandstæðingar sér mikinn mat úr því ákvæði, sem heimilaði Bretum að stunda veiðar innan 12 mílna landhelginnar um tiltekinn tíma á tilteknum svæðum í 3 ár. Þetta þóttu alger svik og undansláttur, og gefið var í skyn, að síðan yrði samið við Breta um áframhaldandi veiðar að þessum tíma loknum, eða jafnvel, að þeir mundu ekkert um það spyrja, heldur halda sínum veiðum áfram eftir sem áðu,r. Þetta muna þeir vel, sem sátu á þingi á þeim tíma. Og þetta muna þeir vel, sem fylgdust með þeim umr. utan þings. Þetta sannaðist að vísu að vera ómerkilegur áróður, en ég get ekki látið hjá líða að vitna til ummæla hæstv. félmrh. Björns Jónssonar um þetta atriði, en hann sagði, með leyfi forseta: „Þó að ekkert annað né meira réttindaafsal fælist í þessari þáltill., sem hér er rædd, þá væri slíkt afsal glæpur gagnvart íslenskum hagsmunum.“ Hvorki meira né minna en glæpur gagnvart íslenskum hagsmunum. Hvað skyldi hæstv. ráðh. segja nú, þegar hann stendur að því að leggja fyrir Alþ. nákvæmlega sams konar samkomulagstill. en án þess þó, að nokkur viðurkenning fáist í staðinn, eins og samningurinn frá 1961 gerði þó ráð fyrir? Hverjir eru nú glæpamenn og þjóðsvikarar?

Ólafur Jóhannesson forsrh. sagði um þetta atriði í umr. 1960, með leyfi forseta: „En með því að opna landhelgina fyrir veiðiskipum annarra þjóða er landhelgin raunverulega minnkuð, og hvernig sem menn annars líta á efni samningsins, þá verður aldrei komist fram hjá þessum staðreyndum, heitrofum og umboðsskorti íslensku ríkisstj.

Báðir töldu þessir menn, sem nú eru orðnir hæstv. ráðherrar, Björn og Ólafur Jóhannesson, að ríkisstj. hefði skort umboð til að semja um slíkan undanslátt í landhelgismálinu eins og þann að semja við Breta um tímabundnar veiðar innan 12 mílnanna. Skyldu þessir menn hafa haft umboð nú til þess að semja um sams konar undanþágur og raunar miklum mun verri undanþágur? Léðu þeir máls á því, þegar þeir sóttust eftir umboði kjósenda, að þeir undirskrifuðu samkomulag, sem er engu betra en samkomulagið frá 1961, svo að ekki sé meira sagt? Þetta eru spurningar, sem samviska þeirra hlýtur að svara. Annaðhvort hefur opinberast, að þeir hafi brigslað stjórnmálaandstæðingum sínum um landráð að ósekju eða þeir gerast nú sekir um sams konar glæpi og þeir hafa ásakað aðra um að fremja. Hvorugur kosturinn er góður, og raunar er allt þetta mál með svo einstökum hætti, að söguskýrendur munu furða sig mjög á. Það er ég viss um.

Þá var það ein fullyrðingin enn, að samkomulagið frá 1961 hefði verið nauðungarsamningur, því hefði hann ekkert gildi. Um þetta atriði hefur verið fjallað hér í umr. Auðvitað er það rétt, sem á hefur verið bent, að þeir samningar, sem nú er verið að gera, eru nákvæmlega jafnmiklir eða jafnlitlir nauðungarsamningar og hið fyrra samkomulag. 1960 voru herskipin að vísu enn innan landhelginnar, en nú var samið undir þeirri hótun, að Bretar sendu aftur inn herskip sín, ef ekki yrði gengið að samkomulaginu, og það sem meira er, hér er um úrslitakosti, afarkosti að ræða af hálfu Breta. Íslendingum er stillt upp við vegg og við þá sagt: Annaðhvort þetta samkomulag eða ekkert samkomulag. Annaðhvort þetta samkomulag eða við komum aftur með herskipin. — Hvað er þetta annað en sams konar nauðung, ef menn vilja kalla þetta nauðung, eins og 1961?

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur jafnvel gengið enn lengra en ýmsir aðrir í þessu sambandi, því að hann sagði í útvarpsumr. fyrir síðustu kosningar, með leyfi forseta: „Þessi samningur,“ þ. e. a. s. samningurinn frá 1961, „hefur verið nefndur nauðungarsamningur. Satt að segja felli ég mig ekki sem best við þá skýringu. Þjóðin veit, að sigur hafði unnist í deilunni, því getur varla verið um nauðung að ræða. Hitt þykir mér líklegra, að þarna komi fram undirlægjuháttur viðreisnarstjórnarinnar við erlent vald.“

Þetta voru orð hv. þm. Steingríms Hermannssonar í útvarpsumr, fyrir síðustu kosningar.

Nú er það spurning, hvort það sé álit þessa sama hv. þm., að deilan við Breta hafi staðið betur 1961, eftir að viðreisnarstjórnin hafði haldið um stjórnartaumana um nokkurt skeið, heldur en nú, þegar vinstri stjórnin hefur hafi alla forustu á hendi í rúm tvö ár. Ef sigur hafði raunverulega unnist, þegar samningarnir voru gerðir 1961, hvar stendur deilan þá nú. Er hv. þm. þeirrar skoðunar, að staðan sé verri á þessum tíma? eða er hv. þm. þeirrar skoðunar, að nú sé hæstv. ríkisstj. að sýna undirlægjuhátt sinn gagnvart erlendu valdi? Það væri fróðlegt að fá skýringar á þessu.

Að mati annarra enn þá róttækari stjórnarandstæðinga á þeim tíma var þessi undirlægjuháttur túlkaður með öðrum hætti. Hv. þm. Gils Guðmundsson komst svo að orði, með leyfi forseta: „Ég tel enga hugsanlega skýringu á smánarsamningnum við Breta frá 1961 aðra en undanlátssemi gagnvart NATO. Þá var þjóðareiningu um landhelgismálið fórnað á altari Atlantshafsbandalagsins, þegar samkomulagið var gert árið 1961“ Þetta sagði hv. þm. Gils Guðmundsson.

Nú skulum við gera ráð fyrir því, að Alþb. sé enn andsnúið NATO, þó að varlegt sé að fullyrða slíkt á tímum hringsnúninga og kollsteypna þessa stjórnmálaflokks. En ef gengið er út frá því, að Alþb. vilji viðhalda þjóðareiningu, án þess að það sé gert af velvilja gagnvart NATO, hefur þá ekki fengist staðfesting á því, svo að óyggjandi sé, hversu fráleitt og lágkúrulegt það hefur verið að halda því fram, að samningurinn hafi verið gerður vegna undanlátssemi við NATO. Sá samningur, sem nú er verið að gera, er sprottinn af sömu hvötum, og ég læt að vísu Alþb. og hv. þm. Gils Guðmundssyni eftir að draga sínar ályktanir, en ef hann er enn sömu skoðunar og fram kemur í fyrrgreindum orðum hans, þá er hringsnúningur þeirra Alþb.-manna meiri og stórbrotnari en ég hef gert mér í hugarlund. Þá er ekki nóg með það, að þeir kyngi óaðgengilegum smánarsamningi nú, heldur eru þeir farnir að taka sjálfsmorðskollsteypur af einskærri tillitssemi við Atlantshafshandalagið.

Hæstv. sjútvrh. hefur gert tilraun til að réttlæta fyrir sér og þjóðinni þetta samkomulag, sem nú liggur hér fyrir, á þeirri forsendu að nú væri ekki gert ráð fyrir neinum yfirdómi, engum gerðardómi, eins og gert hefði verið 1961, eins og hann kemst að orði.

Nú er rétt að vekja athygli á því, að þessi hæstv. ráðh. hefur ekki treyst sér til þess að rifja upp röksemdir sínar frá umr. fyrir heilum áratug. Hann hefur ekki treyst sér til þess einfaldlega vegna þess, að þær hafa allar fallið um sjálfar sig. Og það væri einfalt að sýna fram á það, ef með þarf. Hann hefur gert lítið úr gerðardómnum, og í þeim tilgangi hefur hann rangtúlkað ummæli látinna manna. Ráðherrann gefur í skyn, að engin alþjóðalög séu til og því sé það fásinna mikil að vísa slíku máli til alþjóðadómstóls. Hann hefur að vísu verið spurður um það áður, en ég spyr hann enn um það, þegar hann talar um, að engin alþjóðalög séu til: Vill hann þá meina, að útfærslan 1958 og útfærslan 1972 hafi ekki byggst á lögum, hafi ekki byggst á rétti? Vill hann viðurkenna, að hans aðgerðir í þessu máli hafi ekki verið bundnar við lagalegan grundvöll?

Ég er þeirrar skoðunar, hvaða álit sem ég annars hef á þessum hæstv. ráðh., að hann hafi haft réttinn með sér í þessu máli. Og þegar menn hafa réttinn með sér, þá eiga þeir ekki að hika við að leggja málstað sinn undir úrskurð dómstóla. Þeirrar skoðunar er ég, og þeirrar skoðunar er hæstv. forsrh. sbr. margtilvitnuð og margfræg ummæli hans frá umr. í nóv. 1960.

En við skulum skoða aðeins gerðardóminn betur. Í hvaða efnum átti samkvæmt samningnum frá 1961 að vísa máli til gerðardóms? Það var ekki vegna hugsanlegs ágreinings um 12 mílna útfærsluna. Bretar lýstu því yfir í þessum samningi sjálfum, að þeir féllu frá frekari kröfum og viðurkenndu, eins og síðar hefur verið staðfest, 12 mílna lögsöguna. Það var ekki vegna framkvæmdar á samningnum, sem þurfti að vísa málinu til gerðardómsins, vegna þess að í samningnum var að fullu og öllu viðurkennt, að Íslendingar hefðu full yfirráð yfir sinni eigin lögsögu, og það er meira en nú er gert. Nú fæst engin viðurkenning á okkar rétti til 50 mílnanna. Og nú sjást engin óyggjandi atkvæði um það í þessum samningi, hvernig með skuli fara, þegar brot eiga sér stað innan okkar eigin lögsögu. Það verður að setja sérstök lög um það til að lögfesta skoðanir hæstv. forsrh. um það, hvernig eigi að skýra þessi ákvæði samningsins. Þetta er mikil háðung. Nei, gerðardómurinn 1961 átti ekki að fjalla um þetta. Hann átti aðeins að koma til ef ágreiningur rísi um frekari útfærslu landhelginnar, um það, hvort Bretar ættu að viðurkenna útfærsluna eða ekki. Og það er auðvitað eins og hver önnur fjarstæða, að það sé réttindaafsal að viðurkenna að leggja mál sín undir dómstóla, ef ágreiningur kemur upp, rétt eins og það væri réttindaafsal, þó að einstaklingar undirgengjust dómstólaleiðina í samskiptum sínum við aðra einstaklinga, þegar ágreiningur kemur upp. Um þetta mun ég ekki frekar orðlengja, enda margoft áður rætt um það hér á hv. Alþ.

En þetta var sem sagt eina ákvæðið í samningnum frá 1961 um gerðardóm, og sagan hefur sannað, að það hefur ekkert skert okkar rétt til útfærslu, og það var til þess gert að koma í veg fyrir, réttara sagt til að tryggja, að við næðum fram rétti okkar fyrir tilstilli raka og laga. Á því höfum við byggt í þessu máli okkar, og við skulum ekki vera feimnir við að halda okkar málstað fram með rökum og með lögum.

En hvað þá um þetta samkomulag, sem nú er gert hér? Það gerir ekki ráð fyrir gerðardómi, og hæstv. ráðherra hælist um af því. En er það nú betri kostur? Hver á t. d. að skera úr um ágreining, sem upp kæmi um túlkun á þessum samningi? Hver segir, að túlkun okkar á framkvæmd við töku togara sé rétt? Hvað verður, ef Bretar óhlýðnast fyrirmælum okkar í landhelgisgæslunni, o. s. frv., o. s. frv.? Hvernig á að útkljá þennan ágreining? Það ríkir alger óvissa um framkvæmd á þessum samningi, og það er að mínu mati enginn sigur fyrir okkur, að ekki skuli kveðið á um málsmeðferð, ef upp kemur ágreiningur. Það er ekki til að stæra sig af, að sjútvrh. þurfi að krefjast þess, að skoðanir forsrh. um túlkun á samningnum þurfi að lögfesta, án þess þó að það hafi minnstu þýðingu um framkvæmd samkomulagsins. Og það er hrein blekking að halda því fram, að það hafi einhverja þýðingu, þó að við séum að lögfesta hér einhverjar skoðanir forsrh. Við erum hér með samning við Breta, sem meiningin er að staðfesta í kvöld, fella eða samþykkja, og sá samningur stendur, í samskiptum okkar við Breta, og það fá engin lög breytt þeim ákvæðum. Annað er blekking og fjarstæða.

Hér hef ég rakið að litlu leyti, hversu núv. stjórnarsinnar hafa gleypt ofan í sig öll fyrri ummæli, öll meiri háttar ummæli og allar fyrri yfirlýsingar, án þess þó að samningurinn, sem nú er lagður fram, sé að neinu leyti hagkvæmari fyrir okkur en samningurinn frá 1961. Þar er engin viðurkenning um rétt okkar, aðeins stundarfriður, keyptur því verði, sem er hálfu lítilfjörlegra en það, sem greitt var við samningana 1961.

Hæstv. sjútvrh. Lúðvík Jósepsson hefur sagt um samningana frá 1961, með leyfi forseta: „Grundvöllurinn fyrir því, að það átti að veita Bretum viss fríðindi innan landhelginnar, átti að vera sá, að þeir viðurkenndu formlega og óumdeilanlega landhelgina.“ Og hæstv. forsrh. hefur sagt, með leyfi forseta: „Hér er um að tefla hreinan nauðungarsamning, sem felur í sér tvennt: að opna landhelgina fyrir Bretum og torvelda frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar um ófyrirsjáanlegan tíma eða loka þar jafnvel leiðum. Þess vegna er stundarfriðurinn of dýru verði keyptur að mínum dómi.“ Þetta voru ummæli þessara hæstv. ráðherra, þegar samkomulagið frá 1961 var hér til umræðu.

Nú hafa þessir menn kjark til þess að standa hér frammi fyrir þjóðinni og skora á þm. og þjóðina að standa saman í þessu máli, þetta mál sé hafið yfir alla flokkadrætti, og það væri slæmt, ef þjóðareining brygðist, það sé því alveg undarlegt, ef menn þurfi að deila um þetta. Hvað skyldu nú þessir menn hafa sagt, ef þeir hefðu setið í stjórnarandstöðu? Menn geta rétt ímyndað sér yfirlýsingarnar úr herbúðum Alþb.

Hér hefði ekki linnt látunum fyrir brigslum um glæpsamlegt athæfi, undirlægjuhátt, smánarsamning og heitrof.

Herra forseti. Það er eðlilegt, að menn velti fyrir sér, hvað sé raunverulega að ske með þessum skoðanaskiptum. Það, sem hefur átt sér stað, er sá blákaldi veruleiki, að þegar menn standa frammi fyrir vandanum sjálfir með ábyrgðina á sínum herðum, þegar þeir þurfa að gera upp við sig kosti og galla þeirra valkosta að semja eða ekki að semja, þá verður að gera fleira en gott þykir. Þeir hafa þurft að ganga í gegnum sams konar eldskírn og viðreisnarstjórnin frá 1961 þurfti að gera og allir þurfa að gera, sem bera ábyrgð og verða að taka ákvarðanir. Þeir hafa rekið sig óþyrmilega á þá staðreynd, að við erum ekki einir í heiminum, Íslendingar. Þess vegna þurfa núv. stjórnarsinnar, þjóðhetjurnar frá 1961 og frá síðustu kosningum, að leggja fyrir þjóðina sams konar „smánar og nauðungarsamning“ sem aðrir hafa þurft að gera á undan þeim. Og þeir hafa uppgötvað og verða að hafa það frammi fyrir þjóðinni, að slíkir samningar eru ekki gerðir með hugarfari glæpamannsins eða þjóðsvikarans, heldur að yfirsýn þeirra manna, sem vilja landi sínu og þjóð vel. Að því leyti efast ég ekki um heilindi þeirra manna, sem standa að þessari samningagerð, frekar en ég hef nokkru sinni efast um þjóðarmetnað þeirra, sem beittu sér fyrir samkomulaginu 1961.

Þessi samningur, sem hér er lagður fram, er staðfesting, ótvíræð kvittun fyrir því, að samkomulagið frá 1961 var farsæl lausn og í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar, og þeir samningar voru jafnvel enn merkari fyrir þá sök, að 12 mílur voru harðsóttari þá en 50 mílurnar eru nú. Á þeim tíma mátti engu muna, að 12 mílurnar yrðu samþykktar sem alþjóðalög á Hafréttarráðstefnunni. En nú er svo komið, að þjóðin hefur þegar tekið ákvörðun um það að færa út í 200 mílur á sama tíma og við erum að ná þessum áfanga út í 50 mílurnar. Þess vegna er þarna ólíku saman að jafna, ástandinu frá 1961 og ástandinu nú, og væri stjórnarsinnum sæmandi að viðurkenna, að þeir hafi haft þá stjórnmálaflokka, sem stóðu að samningunum frá 1961 fyrir rangri sök. Þeir hafa gert það að vísu með þessari tillögugerð, og að því leyti er hún sögulegur atburður.

Ég vil taka fram í lok máls míns, að ég hef ætíð verið eindregið meðmæltur því, að einhverju samkomulagi yrði náð við þær þjóðir, sem við er að etja í þessu máli. Hæstv. sjútvrh. virtist vera að væna Sjálfstæðisfl. um það að hafa ekki viljað samninga. En ég get fullvissað hann um það, að Sjálfstæðisfl. þarf ekki á neinum brigslum að halda í því efni, vegna þess að hann stendur vel undir því og stendur vel við það að vilja slíka leið, eins og hæstv. ráðherra hefur reyndar nú lagt til sjálfur. Sjálfstæðisfl. hefur viljað, að um þetta næðist mannsæmandi samkomulag, og við hér einstakir þm. Sjálfstæðisfl. höfum, held ég, allir verið á þeirri skoðun líka. Hitt er annað mál, að enda þótt við viljum samninga, þá auðvitað höfum við áskilið okkur allan rétt til þess að gera athugasemdir við það samkomulag eða drög að samkomulagi, sem lagt er fram. Það er allt annað að vilja samninga og gleypa hvaða samkomulag sem er. Á því er mikill munur. Og auðvitað er það staðreynd, að á þessum samkomulagsdrögum, sem hér eru lögð fram, eru margir og stórir gallar. Í mínum huga eru þeir einkum fólgnir í eftirfarandi:

Í fyrsta lagi virðist algerlega hafa verið farið eftir till. Breta varðandi hólfaskiptinguna. Þar hafa okkar till. verið nánast virtar að vettugi og Bretar í því sambandi farið með fullan sigur af hólmi. Þetta tel ég ákaflega slæmt, enda hefur það komið fram hjá talsmönnum þeirra kjördæma, ,sem eiga sérstaklega hagsmuna að gæta, að þetta er nánast óaðgengilegt.

Í öðru lagi hafa þessir samningar verið túlkaðir svo, að þeir gæfu okkur ekki heimild eða aðstöðu til þess að halda áfram áframhaldandi friðunaraðgerðum. Ég vil vona, að þessi túlkun sé röng, en ef hún er rétt, er það mjög miður og er stór galli á þessu samkomulagi.

Í þriðja lagi hefur ekki verið kveðið á um ótvíræðan rétt yfir lögsögu okkar. Allir alþm., bæði fyrr og nú, hafa lamið í borðið og sett þá kröfu mjög skýrt fram, að þeir mundu aldrei standa að samningum, sem ekki fælu í sér ótvíræðan rétt okkar Íslendinga yfir lögsögunni. En nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því, að Alþ. á að fara að samþykkja slíkt samkomulag, sem gerir ekki ráð fyrir því, að okkar réttur sé ótvíræður innan okkar eigin lögsögu.

Í fjórða lagi er ekki minnst á það, hvaða áhrif það hefði, ef Hafréttarráðstefnan kæmist að niðurstöðu í millitíðinni. Ég hefði talið fullkomlega eðlilegt, að sá fyrirvari hefði verið í þessu samkomulagi, að ef úrslit yrðu okkur jákvæð, mundi þetta samkomulag ganga úr gildi.

Í fimmta lagi hefur ekki verið minnst á Haagdómstólinn eða hvernig með það mál skuli fara, og kemur það manni mjög spánskt fyrir sjónir, þegar haft er í huga, að núv. stjórnarsinnum hefur málsmeðferðin fyrir Haag og málskotið þangað verið mikill þyrnir í augum. Ég hefði talið eðlilegra hvaða skoðun sem ég hef annars á því, hvort það eigi að vísa málinu til Haag eða ekki og flytja mál okkar þar — að taka afstöðu til þess í þessum samningum.

Í sjötta og síðasta lagi þykir mér það mjög miður, að ekki skuli vera tekið fram, að Íslendingar áskilji sér rétt til frekari útfærslu. Ég hef skrifað undir till. þm. Sjálfstæðisfl. um það, að Íslendingar færðu sína lögsögu — fiskveiðilandhelgi — út í 200 mílur eigi síðar en í árslok 1974, og sá tími er á því tímabili, sem þessi samningur gildir um. Ég er ekki reiðubúinn til þess að skrifa undir samkomulag nú, sem kemur í veg fyrir, að við getum fært út okkar landhelgi í 200 mílur á þessu tímabili. Hins vegar hafa menn viljað túlka þetta samkomulag svo, að það gerði þrátt fyrir allt mögulegt, að við færðum út í 200 mílur. Mér þætti vera æskilegt, að hæstv. forsrh. og jafnvel fleiri úr hæstv. ríkisstj. tjáðu sig um þetta, vegna þess að það er forsenda fyrir afstöðu minni til þessa máls.

Það má ætíð gera athugasemdir við slíka samninga, endalaust finna að einu og öðru. Ég er, eins og ég hef tekið fram, almennt hlynntur samkomulagi og vil ekki leggja stein í götu þess, að friður skapaðist, og því mun ég ekki greiða atkvæði gegn þessari þáltill. Ég mun gera grein fyrir atkvæði mínu, þegar til afgreiðslu málsins kemur.