12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þegar ég hlustaði á hástemmdan lofsöng hv. síðasta ræðumanns um samninginn árið 1961, flaug mér í hug gamalkunn vísa:

Vakri-Skjóni hann skal heita,

honum skal ég nafnið veita,

þó að meri það sé brún.

Góður skal hann vera, góðan mun ég telja hann, sagði hv. síðasti ræðumaður. Það er gott að hafa svona barnatrú. En annars er ég dálítið hissa á því, hvað þessi samningur frá 1961 blandast inn í þessar umr. Um hann er ekki að ræða hér, og ég veit satt að segja ekki betur en það væri samþ. af öllum hv. alþm., að sá samningur hefði náð sínum tilgangi og hann væri þar með úr sögunni og honum skyldi sagt upp. Og honum hefur verið sagt upp.

Ég skal nú ekki fara mjög út í almennar deilur, sem hér hafa verið um hönd hafðar, en það hafa verið bornar hér fram nokkrar fsp. og ég vil leitast við að svara þeim. Ég geri ekki ráð fyrir, að það komi að sök, þótt allmargir séu enn eftir á mælendaskrá. Ég býst við, að þær fsp. séu fram komnar, sem máli skipta, og geri naumast ráð fyrir því, að það bætist við fsp., sem sérlega þýðingu hafa án ef svo fer, þá er auðvitað sjálfsagt að reyna að leysa úr þeim eftir getu.

En áður en ég vik að fsp., sem hér hafa komið fram, vil ég þó enn einu sinni taka fram og undirstrika, að hér hefur enn enginn samningur verið gerður. Ríkisstj. hefur ekki á neinn hátt farið út fyrir sitt umboð. Hún hafði umboð til þess að leita eftir og halda áfram samningatilraunum. Það hefur hún gert, og nú liggur niðurstaðan fyrir. En það er ekki samningur, heldur er einmitt hafður sá háttur á, sem ekki hefur alltaf verið hafður á, því miður, að leita samþykkis Alþingis fyrir fram, áður en samningar eru gerðir, svo sem auðvitað á að gera. Fyrr í dag vorum við að samþykkja samninga alveg mótatkvæðalaust, í einu hljóði, sem höfðu verið gerðir við þrjár þjóðir og hafa verið í framkvæmd. Það sá enginn neitt athugavert við þá. En þetta er einmitt rétti hátturinn, að leggja málið fyrir þingið, áður en ákvörðun er tekin.

Það er rangt að kenna þessa samninga sérstaklega við mig. Ég hef ekkert samþykkt. Það kom skýrt fram á Lundúnafundinum, að ég samþykkti ekki þau samningsdrög, sem þar voru lögð fram, en voru talin geta orðið grundvöllur að samkomulagi, heldur aðeins sagðist ég skyldu fara með þau til íslenskra stjórnvalda. Þeirri skyldu hef ég fullnægt, lagt þau fyrir ríkisstj. Þar hafa þau verið samþ. Síðan koma þau hér til Alþ. Þegar menn sjá þessi samningsdrög, er ósköp eðlilegt, að menn sjái, að það vantar ýmislegt í þau, sem þeir hefðu talið æskilegt, að þar stæði. Og þá standa hv. alþm. einfaldlega frammi fyrir þeirri staðreynd að gera það upp við sig og meta, hvort þeir telja þetta, sem þeir hefðu kosið að væri í samningnum, svo mikilvægt, að það eigi að hafna þessu samkomulagi. Og heimurinn ferst ekki, þótt við höfnum þessu samkomulagi. Ef það er sannfæring meiri hl. þm., að það séu svo miklir ókostir samfara þessu samkomulagi, þá eiga þeir vissulega að fara eftir sinni sannfæringu og hafna því og taka þá því á eftir, sem að höndum ber og má gera ráð fyrir að verði svipað ástand og ríkt hefur á Íslandsmiðum að undanförnu, og þó auðvitað verra, því að vitað mál er, að eftir því sem slík barátta stendur lengur, þá hlýtur hún samkv. eðli málsins að harðna. Þetta er það, sem menn þurfa að gera upp, og ég hef auðvitað ekkert við það að athuga, þó að hér séu ýmsir menn, sem séu þeirrar skoðunar, að það séu ókostir á þessum samkomulagsdrögum, sem hér liggja fyrir, að þeir segjast vilja hafna þeim. Ég fellst að vísu persónulega ekki á þeirra mat, og ég held, að þeir mættu að ósekju spara nokkuð gífuryrðin um þau. Ég held raunar, að þeir mundu hafa talað talsvert öðruvísi um þetta mál og haft færri stóryrði, ef þeir hefðu ekki verið hér um bil öruggir um það, áður en þeir töluðu, að þeir væru í minnihl. og þyrftu ekki að bera ábyrgð og gætu leyft sér að leika lausum hala.

Það er tvítekið fram í þessum drögum og undirstrikað, að báðir aðilar að þessu samkomulagi halda fast við sínar lagaskoðanir í þessu máli. Hver heldur við sitt. Við Íslendingar gefum ekkert eftir af okkar skoðun um það, að við eigum og höfum tekið okkur 50 sjómílna fiskveiðilandhelgi. Og Englendingar á hinn bóginn gefa ekkert eftir af sínu sjónarmiði um það, að þeir viðurkenna ekki 50 sjómílurnar, hvorki eftir þennan samning né heldur áður. Og meira get ég ekki sagt um þetta og vil ekki hafa önnur orð um þetta, að hver aðili heldur fast við sína lagaskoðun. En þrátt fyrir það held ég, að enginn sæmilega skyni borinn maður geti verið í vafa um efni þessa samnings og hvað í honum felst í raun og veru. Með þessum samningi veitum við Íslendingar tilteknum fjölda fiskveiðiskipa annarrar þjóðar rétt til veiða á ákveðnum svæðum í íslenskri landhelgi um tiltekinn tíma. Ég held, að víðast hvar í umheiminum muni verða litið svo á, að í þessu felist talsverð viðurkenning á okkar rétti, þótt ekki sé með orðum. En það er enginn vafi á því, að þetta er höfuðatriði samningsins, að við veitum rétt þessum skipum í þessum hólfum í tiltekinn tíma. En báðir hafa að vísu fyrirvara, halda fast við sínar lagaskoðanir.

Það hefur verið spurt hér um lokun svæðanna. Að sjálfsögðu hélt ég því fram í mínum till. í London, að svæðin ættu að vera tvö, sem lokuð væru. Á það vildu Bretar ekki fallast. En um það, á hvaða tíma svæðin væru lokuð, var ekki samið, eins og menn geta sannfært sig um, ef þeir lesa þann grundvöll. sem birtur er í skýrslu þeirri, sem ég hef gefið um viðræðurnar, og er þar orðrétt tekið upp. Hitt er annað mál að Bretar höfðu bæði í viðræðum sínum hér og eins í viðræðum sínum úti í London sett fram sjónarmið um það og till., á hvaða tíma svæðin ættu að vera lokuð. En það var ekkert samþykki goldið við því. Þess vegna var það vissulega eitt af þeim atriðum, sem var samningsatriði, sem eftir var að útkljá, og það sagði ég auðvitað hreint og skýrt, bæði Landssambandinu og öðrum þeim, sem ég ræddi þessi mál við. En jafnframt taldi ég öruggara, þegar reiknaðir væru út aflamöguleikar Breta, að miða við einmitt þær till., sem þeir höfðu gert og sem væru þeim hagstæðastar, og við það voru útreikningarnir miðaðir. Þeir sýna að okkar bestu manna yfirsýn í þessum efnum, að þetta geti verið frá 110–130 þús. tonn og þó sennilega nær lægri tölunni. Ég ræddi við Landssamband ísl. útvegsmanna 19. okt. og svarbréf þeirra er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta :

„Vér leyfum oss að tjá yður herra forsrh., að eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi stjórnar og varastjórnar L. Í. Ú. og formanna útvegsmannafélaga víðs vegar um land, sem haldinn var í Reykjavík laugardaginn 20. okt.:

Fundurinn samþykkir að mæla með því við ríkisstj., að hún geri samning um lausn fiskveiðideilunnar við Breta á þeim grundvelli, sem nú er fáanlegur og forsrh. Ólafur Jóhannesson kynnti fulltrúum L. Í. Ú. á fundi 19. okt. s. l. Ályktun þessi var samþ. með 21:1 atkv.

Ég veit ekki, hvort þetta eina atkv. hefur verið atkv. hans Matthíasar. Nei, það hefur sjálfsagt ekki verið það, hann hefur ekki verið búinn að gera upp hug sinn þá, ekki verið búinn að taka afstöðu. Ég trúi því vel. Hann hefur setið hjá.

„Vér munum einhvern næstu daga leyfa oss að senda yður ábendingar vorar um, hvenær er talið heppilegast, að veiðihólf verði lokað, sem lokað á að vera á hverjum tíma.“

Þær till, frá Landssambandi ísl. útvegsmanna fékk ég svo reyndar ekki fyrr en 31. okt. En þá lagði ég þær fyrir sendiherra Breta og lagði ríka áherslu á, hve áríðandi það væri, að óskir okkar í þessu efni væru teknar til greina. Og hann hét því að koma þeim sjónarmiðum til skila við yfirmenn sína í Lundúnum, og ég efast ekki um, að hann hefur gert það. En svarið var því miður neikvætt, og af hverju? Ja, ég hugsa af því, að Bretar kunna að reikna eins og Íslendingar. Það er engin ástæða til að dylja það, að tillögur þær, sem Landssambandið gerði, hefðu verið allmiklu hagstæðari fyrir okkur. Það hefði að dómi reikningsfróðra manna kannske getað munað 10–11 þús. tonnum. Og þegar þeir sjá fram á þá reikninga og gera sér grein fyrir því, þá telja þeir litlar líkur á því, að þeir geti náð 130 þús. tonnum. Þetta er sjálfsagt sú efnislega ástæða fyrir því, að þeir gátu ekki á þetta fallist. En ég tel mig í þessu efni hafa gert mína skyldu að koma þessum till. á framfæri og reyna að gera það, sem hægt var, til þess að fá þær hreytingar fram.

Sama dag og ég talaði við Landssamband ísl. útvegsmanna ræddi ég líka við Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, sem ætti að hafa nokkuð góða kunnugleika á þessum málum. Og frá þeim fékk ég svohljóðandi svar:

„Í framhaldi og tilefni af viðræðum, sem þér, hæstv. forsrh., efnduð til föstudaginn 19. þ. m. með nokkrum fulltrúum félags vors og Landasambands ísl. útvegsmanna, þar sem þér gerðuð grein fyrir grundvelli, sem nú væri fyrir lausn á fiskveiðilögsögunni við Breta, var haldinn fundur í félagi voru 20. þ. m. og þar var samþ. svofelld ályktun :

Almennur fundur í Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda haldinn í Hafnarhvoli í Reykjavík laugardaginn 20. okt., 1973 lýsir eindregnum stuðningi við till. þær, sem forsætisráðherrar Íslands og Bretlands hafa orðið ásáttir um “— þetta er að vísu ekki alveg rétt —“ að bera fram sem bráðabirgðalausn í fiskveiðideilunni um tveggja ára skeið. Telur fundurinn, að með samþykkt till. þessara sé afstýrt hættuástandi, sem gæti, ef það heldur áfram, leitt til mannskaða og fjárhagstjóns, sem aldrei yrði hætt. Skorar fundurinn á Alþ. að samþykkja tillögurnar.“

Þess skal getið, að allir meðlimir félagsins áttu aðild að afgreiðslu málsins, og var ályktunin samþ. einróma.

Ég skal ekki þreyta hv. alþm. á því að lesa upp fleiri ályktanir, en þær hafa borist frá Sjómannafélagi Reykjavíkur og Sjómannasambandinu (Gripið fram í: Lesa hana til enda.) Ég gæti gert það, en hv. þm. hefur sennilega ekki verið þar við eða ekki tekið afstöðu frekar en Matthías. Þeir hafa verið á ferðalagi að undanförnu, veit ég. Það er kannske ástæðan til þess, að þeir hafa ekki, eins og sjútvrh. bjóst við, ritað skeleggar greinar í Morgunblaðið á móti. Þeir hafa verið á ferðalagi, en sjálfsagt hefur hvorugur þeirra verið sá sjálfstæðismaður, sem í veislu einni góðri úti í Noregi stóð upp og sagði þau tíðindi, að stjórnin á Íslandi væri fallin. En þar var ekkert talað um eða látið í ljós álit á samningsdrögunum.

Með þessu tel ég mig hafa nokkuð svarað því, sem hv. 2. þm. Reykv. spurði um og reyndar fleiri varðandi tilhögun um lokun og svæðaskiptinguna.

Hv. þm. Bjarni Guðnason, — ég man ekki númerið á honum í bili og vil ekki vera svo óþinglegur að nota þá nafngift eða það nýyrði, sem hann gaf þm., þó að handhægt væri í notkun, — hann talaði nokkuð geyst, eins og hann hefur áður gert í þessu máli, og talaði ekki vel um samninginn frá 1961, og látum það nú vera. En hann sagði, að það væri verið að semja ofan í hann. Ég held, að þessi hv. þm. verði að rifja betur upp, hvað hefur gerst á Alþ. Það hefur verið samþ., líka með hans atkv., að þessi samningur hefði, eins og ég sagði áðan, þjónað sínum tilgangi, hann væri úr sögunni. Ætla menn að fara að éta það ofan í sig? Og svo eru menn að lá mér, að ég skuli ekki í Lundúnum hafa lagt meiri áherslu á það að málaferli fyrir Haag-dómi, sem eingöngu eru byggð á þessum samningi, skyldu ekki verða lögð niður, frá þeim horfið. Hefði það ekki verið svolítið spaugilegt eftir margítrekaðar yfirlýsingar af hálfu Íslendinga, að þessi samningur væri ekki neitt neitt, ef ég hefði farið að leggja á það áherslu þar að fá menn til að falla frá honum? Hefði það ekki getað litið út af minni hálfu svo sem viðurkenning á því, að hann væri í gildi eitthvað ennþá, þessi samningur? Nei, ég held, að ég hafi ekki getað sagt meira um það efni en ég sagði. Og ég held, að það hefði litið ákaflega einkennilega út, ef við, eftir þær yfirlýsingar, sem við höfðum gefið hér á hv. Alþ., og þær orðsendingar, sem við höfum sent Haagdómstólnum, hefðum farið á hnjánum að biðja um það úti í Lundúnum, að það væri horfið frá þessum málaferlum. Ég vona, að hv. þm. átti sig á því, að það hefði verið lítil rökvísi í því að haga sér á þann veg. Hitt er annað mál, að það er ágætt, ef það yrði hætt við þetta allt. Hver veit hvað skeður?

Svo var hv. þm. Bjarni Guðnason að tala um 6. liðinn í samkomulagsdrögunum, sem engan veginn fullnægja honum, og hann segir: Það er ekki nokkur mynd á þessu, við hefðum átt að semja um óskoraða lögsögu yfir okkar íslenska yfirráðasvæði. — Já, og hann hefur lagt fram brtt. í þá átt. Ég vil nú vona, að sú till. sé flutt í fljótfærni og hv. þm. hafi sést yfir, hvílík mótsögn felst í slíkum tillöguflutningi. Við Íslendingar höfum lýst yfir yfirráðasvæði okkar yfir 50 sjómílum. Við semjum ekki við neinn um það, að við eigum þann rétt, og við tökum það skýrt og ótvírætt fram í þessum samkomulagsdrögum tvívegis, að þau hafi engin áhrif á okkar lagaskoðanir. Eftir sem áður höldum við fast við þann rétt, að við eigum lögsögu yfir okkar 50 sjómílum. Og svo hefði átt að fara að semja um það við Breta, að við ættum að fá að hafa óskoraða lögsögu yfir okkar 50 mílum, ja, þvílík firn! Það voru viðhöfð af þessum þm. stór orð og talað um háðung og smán. Ætli mætti ekki heimfæra þau upp á þetta? Ef við ætluðum að fara að leggjast svo lágt að fara að semja um svona atriði, þá værum við að játa, að við hefðum ekki haft og hefðum ekki lögsögu á þessu yfirráðasvæði okkar. Það væri viðurkenning á því. Ég skora á hv. þm. að játa fljótfærni sína og taka þessa till. aftur og láta ekki þennan minnisvarða standa í þingtíðindunum eftir sig.

Hv. þm. Guðlaugur Gíslason og reyndar fleiri þm. voru að ræða um, að það fælist hálfgert vantraust í því á forsrh., að það þyrfti að vera að lögfesta túlkun hans á samningsatriði, þessum 6. lið. Og hv. síðasti ræðumaður tók undir það, það ætti ekki að þurfa að vera að lögfesta slíkt. Hann ætti þó að vita betur. Það hefur þegar verið lagt fram lagafrv., og það er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt, vegna þess að í samningsdrögunum er mælt fyrir um sérstök viðurlög fyrir brot á þessu samkomulagi. Ef ekki er sett ákvæði um það í íslensk lög, sem væri samhljóða þessu ákvæði í samningnum, þá yrðu íslensk yfirvöld að fara eftir íslenskum lögum, því að íslensk lög gilda framar samningi. Þessi samningur verður ekki lög. Hér er ekki um það að ræða að lögfesta þennan samning, hér er aðeins um að ræða um þál., sem heimilar ríkisstj. að gera þennan samning. Ef það væri ekki sett í lög, að brot á þessum samningsákvæðum varðandi sviptingu leyfis eða því, að skipið væri tekið út af skrá, þá mundu íslensk yfirvöld vera skyld til þess að framfylgja íslenskum lögum, koma við þeim refsingum við breska skipstjóra, sem fyrirskipuð eru í íslenskum lögum um bann við botnvörpuveiðar. Af þeirri ástæðu er alveg óhjákvæmilegt að taka ákvæði um það fyrst í íslensk lög, sem verður nánast undantekningarákvæði frá almennu reglunum í lögum um bann við botnvörpuveiðum, en er sett þarna sem bráðabirgðaákvæði, sem eðlilegt er, vegna þess að þetta á aðeins að gilda um tvö ár. Sömuleiðis var auðvitað alveg óhjákvæmilegt og er óhjákvæmilegt að taka það fram, hvaða íslenskur aðili, hvaða íslensk yfirvöld eigi að fara með þetta ákvörðunarvald. Þó að ég náttúrlega meti ákaflega mikils álit þessara hv. þm. á mér, er það samt ekki svo, að mín orð eða mín túlkun sé lög, heldur verður að fá lagaheimild fyrir þessu, og þess vegna er það gert. En um það, hver fari með ákvörðunarvaldið í þessu efni, ætla ég, að gefi ekki verið neinn vafi, eftir að þetta frv., sem hér hefur verið lagt fram á borð hv. þm., hefur verið afgr. og samþ.

Sami hv. þm., Guðlaugur Gíslason, spurði: Verður samið við aðra? — Umboð ríkisstj, var bundið við það að halda áfram samningaumleitunum við Breta og Vestur-Þjóðverja um umþóttunartímabil. Það er þess vegna algerlega undir Alþ. komið, hvort það verða teknir upp einhverjir samningar við aðra, ef eftir því verður óskað.

Viðvíkjandi þeim spurningum, sem hann spurði um varðandi það, hvort þetta samkomulag, sem staðfest verður, ef Alþ. samþykkir það, — það er engin þörf á því ennþá, það getur hafnað því, þeir sem vilja taka ábyrgð á því, — hvort það stæði í vegi fyrir útfærslu í 200 sjómílur. Ég get raunar algerlega, bæði um þá spurningu og síðari spurninguna, sem þar fór á eftir, vísað til þeirra skýringa, sem hv. 5. þm. Reykv. gaf. Ég er algerlega sammála um það. Það er augljóst mál, að það stendur ekki í vegi. Það stendur skýrt í þessum samkomulagsdrögum, að þau eru um þetta umdeilda svæði, þau taka til þessa umdeilda svæðis, sem er svæðið á milli 50 og 12 sjómílna, og annars ekki. Hitt er annað mál, að auðvitað eru ekki Bretar skuldbundnir út af fyrir sig frekar til að viðurkenna 200 mílna útfærslu en þeir hafa nú viljað viðurkenna 50. En samkomulagið stendur út af fyrir sig ekkert í vegi fyrir því, enda hefur sú stefna verið mörkuð með frv., sem lagt hefur verið fram af ríkisstj., að það er fullur möguleiki til þess, ef mönnum sýnist svo, og sem sagt, samkomulagið breytir þar engu um.

Ég er hv. 5. þm. Reykv. alveg sammála um, að það er alveg óþarft út af fyrir sig, — það hefði ekki sakað, en það er algerlega óþarft út af fyrir sig að taka upp í þetta samkomulag ákvæði um heimild til skoðunar á veiðarfærum. Það eru, að mér er sagt af mínum sérkunnáttumönnum, alveg fullnægjandi ákvæði um það í alþjóðasamningi um Norður-Atlantshafssvæðið. Landhelgisgæslunni hefur að vísu verið falið að fara með það eftirlit, en það er út af fyrir sig ekki bundið við það, heldur getum við falið það t. d. rannsóknarskipunum. Landhelgisgæslan framkvæmdi þetta eftirlit og fór oft um borð í erlend skip og athugaði þetta, áður en þessi deila reis. Hitt er svo annað mál að eftir að þetta stríð var hafið, hefur því ekki verið við komið. En þetta samkomulag breytir engu um það.

Ég sagði í upphafi, að ég ætlaði ekki að fara út í neinar deilur hér. Það er orðið alláliðið og margir á mælendaskrá. En ég vil þó segja það út af ummælum hv. þm. Þorvalds Garðars Kristjánssonar, þegar hann var að tala um þjónkun ríkisstj. við Breta, að þeir ættu ekki að kasta grjóti, sem í glerhúsi búa. Get ég þar vísað til þess, sem hæstv. sjútvrh. minnti á varðandi skrif Morgunblaðsins æ ofan í æ, meðan á þessari deilu hefur staðið. Og það er sannarlega víst, að þau skrif hafa komist til skila á viðeigandi stöðum, og þeim hefur verið veitt athygli.

Menn spyrja: Hvað tekur við, þegar þessu samkomulagi lýkur? Sumir eru svo bjartsýnir að halda, að Hafréttarráðstefnan verði þá búin að leysa vandann. Ég er ekki einn í þeirra hópi. Ég held, að það verði miklu lengri tími, þangað til hafréttarráðstefnan verður búin að ganga fullkomlega frá sínum málum. En ég er svo bjartsýnn, að það muni að tveimur árum liðnum verða svo, að þá hafi Bretar fengið þann umþóttunartíma sem þeir geti sætt sig við, og verði þá búnir að breyta sínum skipastóli þannig, að hann verði ekki eins háður veiðum á Íslandsmiðum og hann hefur verið að undanförnu. Og það er einmitt stærsta atriðið við þennan samning eða samkomulagsdrög, eins og ég hef margtekið fram. Það er þetta, að það eru útilokaðir frystitogarar og verksmiðjutogarar. Það er ekki rétt, að það séu bara útilokaðir 30 togarar með þessu samkomulagi, það eru til viðbótar útilokaðir 25 frystitogarar, sem stunduðu hér veiðar 1971. Og þetta er auðvitað langstærsta málið og auðvitað það, sem menn verða að miða við, ef þeir ætla að kjósa hina leiðin, hafna þessum samkomulagsdrögum og reyna að þrauka áfram í stríðinu. Þá mega þeir búast við miklu meiri sókn en áður, með miklu stærri og betur útbúnum skipum en áður, frystitogurum og verksmiðjutogurum. Það er það, sem þeir ættu að íhuga, sem eru á móti þessu.

Vitaskuld má segja eins og kempan hv. 2. þm. Vestf. sagði, að það hefði svo sem verið auðvelt að ná þessu samkomulagi fyrir ári eða meir og þetta væri ekki gott, það ætti að vera hægt að ná betra samkomulagi. Já, samkomulagið er ekki eins gott og við viljum. Alþ. hefur málið nú í höndum sér. Hvers vegna þá ekki, ef menn hafa trú á því, að kempur eins og hv. 2. þm. Vestf. og t. d. hv. þm. Bjarni Guðnason mundu sækja gull í greipar Mr. Heaths, hvers vegna þá ekki að láta þingið setja n. og senda til Lundúna á fund forsrh. breska og freista þess að ná betra samkomulagi? Allir lýsa þeir því yfir, hv. þm. Matthías Bjarnason, hv. þm. Bjarni Guðnason, hv. þm. Ellert B. Schram og allir þessir, sem hafa tjáð sig á móti samkomulagi, — hann var að vísu aðeins hálfur ennþá, ég vona, að það sé villa, sem leiðréttist, — þeir hafa allir lýst því yfir, að þeir vildu samkomulag. Samkomulag vilja þeir. En þetta er bara ekki nógu gott samkomulag. Hví þá ekki að gera eina tilraunina enn og senda þessa menn, sem treysta sér til þess að ná betra samkomulagi? (Gripið fram í: Sagði ekki ráðh. um daginn, að það sé ekki hægt að fá betra samkomulag?) Jú, ég vil fá betra samkomulag, og þegar þið komið með það frá Bretlandi, þá skal ég glaður greiða atkv. með því. Allir eru sammála um það að vilja betur.

Svo var það að lokum fsp. frá Matthíasi Á. Mathiesen, sem ég vil ekki láta hjá líða að svara. Hann spurði um það, hvort í sambandi við þetta mál hefðu verið gefnar í ríkisstj. einhverjar upplýsingar um öryggis- og varnarmál. Þessu er fljótsvarað. Það hefur aldrei staðið til að versla á neinn hátt með landhelgismálið, og það hafa engar yfirlýsingar verið gefnar í því sambandi. Það hefur heldur engin þörf verið á því. Við höfum okkar málefnasamning, og þar er kveðið á um meðferð í varnarmálum. Og ég er sannfærður um, að það þarf engan stjórnarsinna að kaupa til þess að standa við og reyna að framkvæma þau fyrirheit, sem þar eru gefin. Það stendur nú einmitt þannig á, að á morgun eiga að hefjast viðræður um varnarsamninginn, og markmið þeirra viðræðna verður að reyna að sameina það tvennt, að við getum haldið áfram að vera í NATO og standa við okkar skuldbindingar gagnvart því, en losnað við að hafa erlent herlið hér, sem sé að reyna að endurskapa það ástand, sem hér ríkti á árunum 1949–1951. Þegar niðurstöður liggja fyrir af þeim samningaviðræðum, þá verða þær niðurstöður, eins og hæstv. utanrrh. hefur marglýst yfir, lagðar fyrir Alþ., hvernig svo sem þær verða í raun og veru. Ef tekst að ná samningi, sem við teljum ná þeim markmiðum, sem við höfum sett okkur, og vera þannig úr garði gerðan, að við getum sætt okkur við hann, þá verður hann lagður fyrir Alþ. til samþykkis. Ef aftur á móti þessar viðræður verða með öllu árangurslausar og ekki finnast leiðir til samkomulags, sem miða að þeim markmiðum, sem við höfum sett okkur, þá geri ég ráð fyrir, að það verði lögð fram á síðari hluta Alþ. í vetur, — en þá ætti þetta að vera farið að sjást, — þáltill. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að segja varnarsamningnum upp. Þetta er í samræmi við málefnasamninginn, og þetta stendur ekki í neinu sambandi við landhelgismálið.