12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Í morgun var ég að gera mér það í hugarlund, að dagurinn 12. nóv. mundi verða álíka gleðidagur í sögu íslands og 15. febrúar 1972, þegar sá gleðilegi atburður gerðist, að allir 60 alþm. réttu upp höndina með samstöðu í landhelgismálinu. En þegar hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, hóf mál sitt á þingfundi í dag og skýrði frá því, að hann hefði verið beðinn að hafa framsögu fyrir meiri hl. hv. utanrmn., varð mér ljóst, að það hlyti að hafa orðið klofningur í sjálfri utanrmn. um afgreiðslu landhelgismálsins, sem við erum nú að ræða um. Ég taldi þetta vera harmafregn. En þegar hv. formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, hóf sitt mál þá lýsti hann því strax yfir að þó að sjálfstæðismenn í utanrmn. hefðu kosið að skila sérstöku nál., væri þó niðurstaða þeirra sú, að þeir mæltu með samkomulaginu við Breta í landhelgismálinu. Þá varð ég glaður. Þá var það nánast formsatriði, að þeir höfðu kosið að skila sérstöku nál., en voru lausn málsins samþykkir.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, lýsti því yfir, að hann mælti með samþykkt samkomulagsgrundvallarins, sem fyrir lægi, fyrir hönd Alþfl., fyrir hönd Framsfl. og fyrir hönd SF, og svo kom formaður Sjálfstæðisfl. og lýsti yfir samstöðu um þetta fyrir hönd Sjálfstæðisfl. Þar með höfðu allir stjórnmálaflokkarnir á Alþ. lýst yfir, að þeir styddu samkomulagið, eins og það lægi fyrir. Þetta var því orðinn gleðidagur. Hv. 2. þm. Reykv., formaður Sjálfstæðisfl., rökstuddi þeirra stuðning við samkomulagið rækilega, bæði í ræðu sinni og í nál., þegar það kom síðar á fundinum. Hann sagði m.a., að allir þm. Sjálfstfl. hefðu viljað leita samkomulags við Breta og koma á friði á miðunum til að bægja frá hættum. Í öðru lagi vilja þeir treysta því, að Bretar taki hér minna en 130 þús. tonna ársafla í stað 160–170 þús. tonna ársafla, sem talið er, að þeir hafi náð. Þetta var önnur röksemdin, að Bretar tækju með slíku samkomulagi minni afla á Íslandsmiðum en þeir hafa tekið á árinu liðna, síðan við færðum út landhelgina. „Í þriðja lagi teljum við,“ segir í nál., „lífsnauðsyn að stemma stigu við smáfiskadrápi hér við land og gera eftirlit með veiðarfærum og veiðum Breta samkv. samningnum virkt. Í fjórða lagi, teljum við miklu máli skipta, að tollalækkanir samkv. viðskiptasamningi okkar við Efnahagsbandalagið geti komið til framkvæmda og markaðir fyrir sjávarafurðir í löndum þess nýtist okkur“.

Niðurstaðan varð því sú samkv. orðalagi nál. og alveg í samræmi við það, sem kom fram í upphafsorðum í ræðu hv. 2. þm. Reykv., formanns Sjálfstæðisfl., en þar segir: „Með tilvísun til þess, sem hér hefur verið sagt, munum við undirritaðir fulltrúar Sjálfstæðisfl. í utanrmn. greiða atkv. með till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að ganga frá bráðabirgðasamkomulagi við ríkisstj. Bretlands um veiðar breskra togara.“ Og það voru Geir Hallgrímsson og Matthías Á. Mathiesen, sem undirrituðu þetta nál. fyrir hönd sjálfstæðismanna.

Þarna höfum við það svart á hvítu, að allir stjórnmálaflokkarnir á Alþ. hafa tjáð sig samþykka því að staðfesta bráðabirgðasamkomulagið, sem fyrir liggur við Breta. En það er dálítið, sem skyggir á, og það er, að það hefur komið í ljós, að það eru nokkrir undanvillingar í Sjálfstfl. Við höfum orðið varir við þrjá, 3½ kannske. (Gripið fram í.) Það ber nú ekki mikið á milli í þessu tilfelli a. m. k. Ég held, að það sé ekki tilviljun ein, að undanvillingarnir eru hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, hv. 3. þm. Sunnl. Guðlaugur Gíslason, og hv. 5. þm. Vestf., Þorvaldur Garðar Kristjánsson. Þetta er úr sjálfstæðisliðinu. Og svo er maðurinn, sem ekki má gleyma, hv. 3. landsk. (Gripið fram í: Hann er ekki í Sjálfstfl.) Hann er ekki í Sjálfstfl., nei, nei, hann skal ekki hafa neina skömm af því. (Gripið fram í). Ég ætla að segja örfá orð um þá, svo að þér verði rórra. Ég skil það, að hv. 3. landsk. reyni að slá pólitískar keilur á þessu máli. Honum veitir ekkert af því að grípa í hvert einasta hálmstrá, sem hann heldur sig sjá, til þess að reyna að halda sér uppi á, og verður honum þó vart hugað pólitískt líf, þótt hana reyni að slá pólitískar keilur á landhelgismálinu. Ég held, að það yrði ekki svo vænlegt til fanga. Þó að hv. þm., sem hér talaði seinast, væri farinn að telja upp úr kössunum í næstu kosningum, þá held ég, að það geti skeikað einhverju.

Nei, ég vil segja það um undanvillinga Sjálfstfl., að það er engin tilviljun, að það eru þessir menn, sem skera sig úr leik og neita nú að fylgja forustu síns flokks í þessu máli. Guðlaugur Gíslason, hv. 3. þm. Sunnl., vill ná höggi á hv. 5. þm. Sunnl., Garðari Sigurðssyni, heldur sig geta plokkað einhver atkv. af honum, ef hann greiði atkv. á móti samkomulaginu, sem Garðar sé bundinn af. Hv. þm. Matthías Bjarnason, 2. þm. Vestf., og góðvinur hans, Þorvaldur Garðar Kristjánsson, 6. þm. Vestf., halda, að þeir geti plokkað einhver atkv. af hv. 1. þm. Vestf. Steingrími Hermannssyni, hv. 7. landsk., Karvel Pálmasyni, og e. t. v. af mér líka, sem hef nú ekki af miklu að má, — með því að hlaupa undan merkjum Sjálfstfl. í þessu máli. Matthías Bjarnason er ekki á neinum nástráum í pólitíkinni, hann þarf ekki að vera með nein atkvæðasnöp, svo að ég skil ekkert í honum. Þorvaldur Garðar Kristjánsson stendur að vísu nokkru tæpar sem 5. þm. Vestf., hann er í neðstu tröppu og gæti dottið úr henni kannske. En ég held, að hann bjargi sér ekki upp í 4. eða 3. tröppu með þessu. Vestfirðingar eru drengskaparmenn og þeir launa ekki lubbaskap með atkv. (Gripið fram í: Við höfum aðra reynslu af þeim.) Nei, við höfum einmitt þessa reynslu. Vestfirðingar launa ekki lubbaskap með atkv. sínum.

Ég minnist þess, að hv. 5. þm. Vestf. Þorvaldur Garðar Kristjánsson, sagði meðal margs annars, að þessi samningsgerð væri þjónkun við Breta með afstöðu sinni? Er formaður þingflokks Sjálfstfl., Gunnar Thoroddsen, sem hélt hér ágæta, rökfasta ræðu og endaði með því að lýsa yfir stuðningi við samkomulagið, að sýna þjónkun við Breta? Þau högg, sem okkur stjórnarsinnum eru greidd með svona farsendum, eru líka greidd forustu Sjálfstfl. Hv. 5. þm. Vestf., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, sagði líka, að það væri verið að níðast á Vestfirðingum með þessu samkomulagi. Er þá forusta Sjálfstfl. að níðast á Vestfirðingum? Líklega. (Gripið fram í: Hefur hún gert þetta samkomulag?) Hún er samþykk þessu samkomulagi. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá hv. 2. þm. Vestf.

Hv. 5. þm. Vestf., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, sagði líka, að með þessu samkomulagi væri verið að opna Vestfjarðamiðin fyrir Bretum. Hafa Vestfjarðamiðin verið lokuð fyrir Bretum á því ári, sem við höfum staðið í stríði við Breta? Hafa breskir togarar ekki sést þar? Ef hv. þm. heldur því fram, þá hefur hann fylgst heldur illa með eins og oft áður.

Nei, hv. undanvillingar Sjálfstfl. í þessu máli hefðu vel haft efni á því að standa í báðar lappir uppréttir frammi fyrir sínum kjósendum, hvort sem var í Sunnlendinga- eða Vestfirðingafjórðungi, og segja: Við erum samþykkir rökum forustumanna Sjálfstfl. um það, að þetta samkomulag sé betra en áframhaldandi stríð, þeim rökum, sem þeir fluttu fram. — Ég held, að þeir hefðu mátt gera sér betri vonir um atkv. upp úr kössunum í næstu kosningum, ef þeir hefðu staðið þannig í báða fætur með forustu síns flokks.

Það hefur verið sagt, og ég held, að það sé rétt, að það mundi enginn flokkur slá sér upp á því að rjúfa eininguna í landhelgismálinu, og ég held, að það sé enn fjær sanni, að nokkur þm. slái sér upp á því að rjúfa þessa samstöðu. Það er ekki stórmannlegt að reyna að snapa atkv. út á svona lítið karlmannlega afstöðu.

Mig rak í rogastans hérna um daginn, fyrir helgina, þegar hv. 3. landsk. þm. fræddi okkur um, að það væri til skrýtin skepna núna í dýraríkinu. Ekki nefndi hann hana blöðrusel, hann hef ég heyrt nefndan, og ekki nefndi hann hvalablástur í sambandi við þá lýsingu, sem hann gaf þá, en hann sagði, að þessi skepna héti blástursselum. Ég sló því föstu þá, að ég hefði þá séð þessa skepnu og vissi hvernig hún liti út. En ég var farinn að halda, að þetta hefði verið skynvilla og skepnan væri alls ekki til. En í dag kom allt í einu þessi feiknablástur hér í hv. d., og það var ekki hvalablástur. En það var sá sami hv. þm., sem hafði sagt okkur frá blástursselnum, sem var þá að blása. Ég slæ því föstu, að dýraríkið hefur eignast nýja tegund, skepnan er til.

Þessi hv. þm., 3. landsk., vildi, að þetta samkomulag við Breta væri miklu víðtækara en það er, og hann sagði, að það vantaði margt í það, m. a. vantaði það í, að það hefði verið farið fram það við Breta, að þeir viðurkenndu að vildu ganga inn á það við okkur í samkomulaginu að við segðum upp samningnum frá 1961. Að þessu vék hæstv. forsrh. M. ö. o.: hv. þm. vissi ekki um það, að Alþ. var búið að lýsa því yfir, að þessi samningur væri úr gildi fallinn (BGuðn: Þetta er bull.) Er þetta bull? (BGuðn: Þetta er bull í þér.) Ja, enn þá blæs selurinn. Hv. þm. hefur sjálfur tekið þátt í því að senda orðsendingu út í lönd um það, að þessi samningur sé þegar framkvæmdur og hafi ekki lengur gildi. En svo átti núna að semja um það við Breta, að hann skyldi falla úr gildi. (Gripið fram í). Þetta er alveg nákvæmlega sams konar fásinna og þegar hv. þm. hefur lagt til, að þjóðaratkvgr. fari fram um þetta mál og Alþ. vísi þannig frá sér efnislegri afgreiðslu þess, en síðan ber hv. sami þm. fram till. um það, að Alþ. skuli afgreiða málið og krefjast þess af Bretum, að þeir viðurkenni fiskveiðilögsögu Íslendinga innan 50 mílna. Það hefur hv. þm. ekki gert kröfu um gagnvart neinum þeim þjóðum, sem við höfum gert samning við hingað til. Það er tekið fram, að hvorugur aðilinn breyti afstöðu sinni um lagalega afstöðu. Og það hefur hv. þm. líka samþ., þá samninga. Hann veit sem sé ekkert í sinn haus, hvað hefur gerst í málinu, og er að tala um, að það eigi nú að gera það, sem búið er að gera fyrir löngu. Það væri ekki hægt að verða sér meira til vanvirðu fyrir Alþingi Íslendinga heldur en með því að taka mark á orðum þessa hv. þm.

Það hafa margir hv. alþm. vikið að því, að umr. hér í dag hafi að miklu leyti verið um önnur atriði en um það mál, sem hér er til umr., mikið fjas, mikil brigsl varðandi samninginn 1961 og mjög langar umr., þó að allir flokkar séu sammála um málið og aðeins örfáir þm. ætli að notfæra sér aðstöðu sína til þess að reyna að snapa atkv. með því að vera á móti. En hvað er hér um að ræða? Það er aðeins um það að ræða að meta, hvort sé betra að halda áfram stríði við Breta um veiðar þeirra á Íslandsmiðum eða gera við þá það samkomulag, sem hér liggur fyrir. Þetta mat og ekkert annað liggur hér raunverulega fyrir. Þjóðin á um tvo kosti að velja, hafna samkomulaginu og halda áfram stríðinu við Breta og Þjóðverja eða gera samkomulagið, sem hér liggur fyrir. Og hvort er betra? Þeir hv. þm., sem vilja fella samkomulagið og greiða atkv. á móti því, telja auðvitað áframhaldandi stríð betra.

Ég skal enn einu sinni rifja upp, hvað í samkomulaginu felst.

Samkv. þskj. er það í fyrsta lagi, að allir verksmiðjutogarar og frystitogarar verða útilokaðir frá Íslandsmiðum, ef samkomulagið fær samningsgildi. Þessir verksmiðjutogarar og frystitogarar voru á viðmiðunarárinu 1971 25, að mér er tjáð. En Bretar hamast nú við að byggja slík skip, og nú innan skamms verða þau miklu fleiri en 25 og ættu þannig greiða leið á Íslandsmið, ef samkomulagið er ekki gert. Ég slæ því þess vegna föstu, að lágmarkstala frystiskipa og verksmiðjutogara er 25, en þau gætu líka á tveggja ára tímabilinu orðið miklu fleiri. En þessi skip eru öll útilokuð frá Íslandsmiðum. Við hvert eitt skip, sem við gætum gert samkomulag um að fækka á Íslandsmiðum, væri það ávinningur, og þau eru í þessu tilfelli a. m. k. 25, e. t. v. á tveggja ára tímabilinu miklu fleiri, enn fremur 15 stærstu togararnir, sem þá eru eftir, og aðrir 15 af minni gerðum, 30 skip í viðbót við þetta, sem ekki eiga að koma á Íslandsmið, ef samkomulagið er gert, samtals a. m. k. 55 skip.

Enn fremur segir í samkomulaginu, að breskir togarar megi ekki stunda veiðar á eftirtöldum friðunarsvæðum á þeim tímum, sem þar greinir: fyrir Norðvesturlandi, Suðurlandi og Norðausturlandi. Það er annað atriði samkomulagsins, friðunarsvæði á þremur stöðum, sem þeir mega ekki fara inn á, mega ekki veiða á, og má geta nærri, hvort ekki dregur eitthvað úr aflamöguleikum þeirra, að viðbættum 55 skipum, sem dragast frá.

Þriðja atriðið í samkomulaginu er svo, að breskir togarar mega ekki stunda veiðar á bátasvæðum fyrir Vestfjörðum, fyrir Austfjörðum og fyrir Norðurlandi. Mundi það ekki eitthvað takmarka þeirra veiðimöguleika að mega ekki fara inn á þessi bátasvæði? Þau eru þó valin af Íslendingum og sýnd á uppdráttum frá því í vor.

Fjórða atriðið er það, að breskir togarar munu ekki stunda veiðar á þeim tímum, sem hér segir, á svæðum bæði fyrir Vestfjörðum, fyrir Suðurlandi, fyrir Suðausturlandi, fyrir Norðausturlandi og fyrir Norðurlandi.

Þeir menn, sem vilja hafna þessu tilboði, sem fyrir liggur og við erum að ræða, segja auðvitað: Áframhaldandi stríð við Breta er betra. M. ö o.: þeirra niðurstaða er, að það sé betra, að hér skarki verksmiðjutogarar og frystitogarar Breta á Íslandsmiðum, heldur en þeir séu hér ekki. Það sé betra, að 15 aðrir stærstu togarar Breta séu hér áfram næstu tvö árin, heldur en þeir séu útilokaðir. Það sé betra, að aðrir 15 af minni togurum Breta herji hér, heldur en þeir séu hér ekki. Það sé sem sé samanlagt betra, að a. m. k. 55 togarar, stærri og smærri, séu hér að veiðum, heldur en þeir séu útilokaðir. En við hinir, sem viljum standa að þessu samkomulagi, blygðumst okkar ekki fyrir það, að við teljum betra, að Bretar séu útilokaðir á þennan hátt frá ákveðnum fiskimiðum og frá veiðum mikils fjölda skipa.

Þeir, sem vilja greiða atkv. á móti samkomulaginu, bæta nú ýmsu við þetta. Þeir komast að þeirri niðurstöðu, að það sé betra, að togararnir bresku eigi aðgang að friðunarsvæðunum fyrir Norðurlandi, Suðurlandi og Norðausturlandi, betra, að þeir fái aðgang að bátasvæðunum fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum, betra að Bretar moki upp smáfiski á afmökuðum alfriðuðum svæðum við Vestfirði, á Selvogsbanka og við Norðausturlandið, það sé betra að vera áfram í stríði við Breta en hafa það umsamið við þá, að íslensk varðskip megi stöðva breskan togaxa, sem hrýtur samkomulagið. Á þessu atriði hneykslast þeir ákaflega. Samkomulagið heimilar okkur þó að stöðva sérhvert það breskt veiðiskip, sem brýtur samkomulagið. Það er bölvað sjálfsagt að mati þessara manna. Við teljum það betra. Það getur kostað það að þurfa að skjóta á breskan togara til þess að stöðva hann. Við höfum samkv. þessu samkomulagi heimild Breta til þess að skjóta á þá, ef þeir brjóta samkomulagið, stöðva þá með hverjum þeim hætti, sem nauðsynlegt er. Hv. undanvillingar Sjálfstfl. eru sjálfsagt á móti því. Þeir segja: Það er nú það versta við þetta, að það á að kalla þarna til aðstoðarskip. Til hvers? Til að sannreyna málsatvik. Til að sannreyna það, að staðarákvörðun varðskips sé rétt, sé óvefengjanleg, þó að Bretar séu leiddir til. Ég hefði talið það veikleika í samkomulaginu, ef það hefði ekki verið tryggt með einhverjum hætti, að Bretar gengju úr skugga um það, að staðarákvörðun væri rétt. Ég játa það að vísu, að ég hefði talið eðlilegra, að breski togarinn brotlegi hefði haft umsaminn rétt til þess að kalla eftirlitsskipið til. En ég veit það fyrir víst, að íslenskur varðskipstjóri mundi að þessu samkomulagi gerðu alls ekki taka breskan togara, nema það væri alveg öruggt og óumdeilanlegt, að hann væri að brjóta samkomulagið. Á mörkum mundi varðskipið ekki taka slíkt breskt veiðiskip.

Nú vita það allir, að staðarákvörðun fer fram með nákvæmum mekaniskum tækjum, og það verður þess vegna ekki um það deilt, hvort hér sé um að ræða brot á samkomulaginu eða ekki. Tækin skera þar úr. Auðvitað höfum við ekkert að fela fyrir Bretum, ef varðskip tekur breskan togara. Það væri veikleikamerki, ef við segðum: Við tökum hann, en þurfum ekki að hafa neinn Breta þar við. — Að kalla Breta til, það er að bjóða þeim: Komið og sjáið, hvort hér er ekki um staðreynd að ræða, að hér er rofið samkomulagið. — Ég álít einmitt, þó að ég hefði heldur viljað, að Bretar hefðu samið um það sér til handa, að þeirra brotlegi togari mætti kalla eftirlitsskipið til, að þá sé það þó í raun og veru öryggisráðstöfun fyrir okkur, að breskt skip skuli kallað til.

En í þessu liggur ekki framkvæmdin. Framkvæmdin liggur í næstu mgr. eða setningu, þar sem segir, að togari, sem rofið hafi samkomulagið, verði strikaður út af listanum, strikaður út af þeirri skipaskrá, sem Íslendingar hafa samið um, að hafi veiðileyfi hér við land. Hver fer með þá framkvæmd? Íslenski dómsmrh. fer með hana. Til þess að vera öruggur um, að hann hafi öruggan, fastan grundvöll undir fótum með þessa aðgerð sína, liggur nú fyrir þinginu frv. til l., þar sem verður lagalega ákveðið að breskur togarinn, sem brýtur samkomulagið, eigi ekki veiðirétt hér lengur, hann sé máður út af skránni yfir þau skip, sem hér hafi veiðirétt. Þar með fækkar um hvern einn, sem hér hafi veiðirétt. Þar með fækkar um hvern einn, sem gerist brotlegur við þetta samkomulag, í viðbót við þau önnur skip, sem útilokuð eru samkv. samkomulaginu. Ég tel það miklu þyngri refsingu á breskt skip að missa veiðiréttindin hér með öllu heldur en þótt hann væri tekinn til hafnar og sektaður, tekin af honum veiðarfæri, og svo færi hann út á veiðar aftur, eins og þeir hafa gert. Framkvæmdin er því í höndum Íslendinga, framkvæmdin á þessu samkomulagi. Það stendur fast. Dómsmrh. tekur þau skip af skrá, sem gerast brotleg við samkomulagið.

Kannske er það svo mikilvægast við þetta samkomulag, að með því að gera það viðurkenna Bretar umráðarétt okkar yfir fiskimiðunum í kringum Ísland. Það gerir enginn samkomulag við aðila öðruvísi en það sé forsendan, að viðkomandi aðili, sem samkomulagið er gert við, viðurkennist að hafa þann rétt, sem um er samið. Matthíasi Bjarnasyni dytti ekki í hug að koma til mín og biðja um að fá að veiða upp við landsteina á Selárdalshót, svo að ég bregði á gaman, nema því aðeins að hann teldi mig vera umráðamann yfir Selárdalsbót. Hann semdi svo um það við mig, að hann mætti veiða þar hörpudisk eða kúfisk eða þann afla, sem fáanlegur væri. En hann viðurkenndi fyrst og fremst, að ég ætti umráðaréttinn, hann gerði ekki við mig samkomulag að öðrum kosti. Það er viðurkenning de facto af Bretum á rétti Íslendinga yfir sinni landhelgi, þegar þeir gera slíkt samkomulag við íslensk stjórnvöld. Og það er kannske meira virði en allt annað, sem í samkomulaginu stendur, þó að ég vilji á engan hátt vanmeta það.

Niðurstaða mín og þingflokks SF í þessu máli er því sú, sem ég lýsti hér fyrir helgina. Við viljum ekki heyja stríð stríðsins eins vegna. Við teljum, að samkomulagið feli í sér meiri veiðitakmörkun breskra togara og þar með meiri hlífð við okkar aðþrengda þorskstofn en reynslan á s. l. ári bendir til, að við gætum náð með áframhaldandi stríði. Við veljum því hina friðsamlegu lausn samkomulagsins og teljum hana hinn betri kost, sem þjóðin eigi völ á. Þess vegna mun þingflokkur SF greiða samkomulagi því, sem fyrir liggur atkv. sitt. (Gripið fram í: Hefur Karvel breytt um skoðun? — KP: Ég skal svara því.) Spurðu hann um það. Ég held, að ég verði að segja það að lokum, að miklu held ég, að það væri sæmra fyrir hv. 3. landsk að blása minna, en taka skoðanaskiptum og hlaupa frá þeim till., sem hann hefur lagt fram.