12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég held, að það fari vart á milli mála, að við þá afgreiðslu, sem nú fer fram um till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj, til að ganga frá bráðabirgðasamkomulagi við ríkisstj. Bretlands um veiðar breskra togara hér við land, verði það lýðskrum og ábyrgðarleysi, sem þm. stjórnarflokkanna og þá sérstaklega þm. Alþb. hafa leikið á undanförnum árum í sambandi við landhelgismálið í heild, að fullu afhjúpað. Það var vissulega tími til kominn, að þjóðin fengi að sjá, hvernig þessir menn hafa leyft sér að nota eitt mesta lífshagsmunamál hennar ábyrgðarlaust sjálfum sér til framdráttar í pólitískum tilgangi.

Þau verða nú að litlu, öll stóru orðin frá þeim tíma, sem landhelgissamningurinn frá 1961 var gerður. Hver hefði trúað því, að sá eldheiti baráttumaður landhelgismálsins, hæstv. sjútvrh. mundi eftir aðeins rúmlega eins árs baráttu rétta upp höndina og samþykkja það samkomulag við bresku ríkisstj., sem nú stendur til boða? Ég segi þetta með sérstöku tilliti til þeirra ummæla, sem þessi hæstv. ráðh. hefur haft varðandi samkomulagið frá 1961, og svo aftur þeirra yfirlýsinga, sem bæði hann og aðrir þm. Alþb. og aðalmálgagn flokksins, Þjóðviljinn, hafa oft gefið varðandi það samkomulag, sem hér stendur til boða. Þeir hafa marglýst því yfir, að í þessu bráðabirgðasamkomulagi sé um slíka úrslitakosti að ræða, að þeir muni aldrei taka þátt í að samþykkja það. Þetta eru staðreyndir, að þessar yfirlýsingar hafa þeir margsinnis gefið.

Öll þessi stóru orð og svo ótalmargt fleira, sem hér yrði of langt upp að telja, eru þessir strangheiðarlegu fulltrúar íslensku þjóðarinnar nú tilbúnir að éta ofan í sig og kasta fyrir róða til þess eins að fá í staðinn að sitja áfram í ríkisstj., til þess að geta haldið áfram að svíkja þjóðina og fórna hverju sem er, bara ef þeir fá að halda ráðherrastólunum.

Ég hygg, að þessi afstaða þingflokks Alþb. og ráðh. þess sé algert einsdæmi í allri þingsögunni, að þegar um er að ræða það stórmál, sem allir eru sammála um, að sé eitt stærsta lífshagsmunamál íslensku þjóðarinnar, og því höfum við vissulega haldið fram í sambandi við rök okkar fyrir útfærslunni, þá skuli þessi stjórnmálaflokkur, eftir að hafa lýst yfir, að þetta samkomulag, sem hér um ræðir, sé gersamlega óaðgengilegt og óviðunandi, þrátt fyrir það greiða atkv. með samþykkt till. til þess eins að geta setið áfram í ríkisstj. og ráðherrastólum.

Hv. þm. Jónas Árnason gaf þá yfirlýsingu eina um þetta mál, þegar hann tók til máls hér áðan, að þessi till., sem hér væri til lausnar í þessu máli, væri bæði meingölluð og grábölvuð. Þetta var það eina, sem þessi hv. þm. hafði að segja um þetta þýðingarmikla mál. Hann kom ekki að því einu einasta orði öðru en hann beindi fsp. til hv. 3. landsk. þm., um það hvort hann mundi virkilega vilja fella ríkisstj. Það er það eina sem hann hafði að segja, þessi sendiherra hæstv. sjútvrh., sem var búinn að fara land úr landi og margar ferðir til þess að reyna að koma Bretum í skilning um það, hvaða villigötur þeir væru komnir á í sambandi við kröfu sína um að fá að veiða hér áfram í íslenskri landhelgi. Maður hefði getað trúað því, að hann hefði eitthvað meira að segja um þetta mál, þegar hann loksins kemur hér í ræðustól til þess að ræða um endanlega lausn í þessu máli. Nei, yfirlýsingin var einföld. Hann sagði: Till. er meingölluð og grábölvuð. — Samt sem áður ætlar þessi hv. þm. að greiða atkv. með till., enda þótt hann tæki það ekki fram, hvaða afstöðu hann mundi endanlega hafa, þegar till. kæmi til afgreiðslu. En aðrir af forustumönnum flokksins hafa lýst því yfir, að flokkur þeirra muni standa sem ein hjörð við endanlega afgreiðslu þessa máls.

Hæstv. iðnrh. talaði hér alllangt mál um fjölmargt, sem ekkert kemur máli þessu við. Það er sýnilegt, að nú er verið að reyna að draga athygli þjóðarinnar frá þeim vinnubrögðum, sem þeir Alþb.-menn eru orðnir uppvísir að, en það er að gleypa öll stóru orðin, og allur sá áróður, sem þeir hafa haft í frammi á undanförnum árum um frv. ríkisstj. í sambandi við samkomulagið frá 1961, var ekkert annað en ábyrgðarlaus rógur í líkingu við þá iðju, sem landsfræg kvenpersóna er kennd við, þ. e. Gróa, Leitis-Gróa eins og reyndar ráðh. vitnaði til og vakti sérstaka athygli á í ræðu sinni.

Nú er það Watergate-málið og annað því um líkt, sem hæstv. ráðh. grípur til til þess að reyna að draga athygli þjóðarinnar frá þeirri afhjúpun, sem hann og hans flokkur stendur nú frammi fyrir alstrípaður og á engrar undankomu auðið frá þeirri staðreynd, að allt, sem þeir hafa sagt þjóðinni um heilindi sín í landhelgismálinu og um ótrúmennsku annarra, hefur verið einhver rógur og áróður settur fram í því augnamiði að blekkja kjósendur og þjóðina til fylgis við flokk sinn.

Ég vil þá víkja nokkuð að því samkomulagi, sem hér er til umr. og vissulega hefur bæði sína kosti og galla. Það hefur fyrr í þessum umr. verið gerður samanburður á því bráðabirgðasamkomulagi, sem gert var 1961, og því bráðabirgðasamkomulagi, sem nú stendur til boða. Það er auðvelt að henda á ýmsa liði í samkomulaginu frá 1961, sem eru okkur hagstæðari en það, sem er um að ræða að þessu sinni. En ég vil í sambandi við samningana frá 1961, sem ýmsir hafa borið fyrir sig að hafi verið til trafala í sambandi við samningagerðina nú, spyrja hæstv. sjútvrh. að því, hvað það hafi verið, sem kom í veg fyrir það 1958, þegar landhelgin var færð út í 12 sjómílur, — þá voru engir slíkir samningar til þess að koma í veg fyrir útfærslu, — að við gætum fært út landhelgina í 12 sjómílur. Samt sem áður var það nú svo, að það stóð í hæstv. sjútvrh. að koma málinu fram og að útfærsla landhelginnar yrði að veruleika og gildandi. Ég vil benda á, að með samkomulaginu frá 1961 viðurkenndu Bretar okkar 12 mílna fiskveiðilögsögu. Nú er ekki um neina slíka viðurkenningu að ræða. Í 7. lið segir, að samkomulag þetta gildi „í tvö ár frá undirritun þess, og hefur brottfall þess ekki áhrif á lagaskoðanir aðila varðandi efnisatriði deilunnar.“ Hvað halda hv. alþm., að fulltrúar Alþb. hefðu sagt um þetta atriði samkomulagsins, ef þeir hefðu í dag staðið utan stjórnar og getað leikið sitt óábyrga hlutverk, sem þeir hafa ætíð leikið varðandi landhelgismálið? Ég er ekki í neinum vafa um það orðaval, sem þeir hefðu haft á reiðum höndum til að ófrægja þá, sem að slíku samningsatriði hefðu staðið. Það hefði verið kallað landráð og ekkert annað að semja um veiðiheimildir í íslenskri landhelgi við þá aðila, hverjir sem svo það hefðu verið, Bretar eða aðrir, sem ekki vildu um leið viðurkenna okkar landhelgi. Um lögsögueftirlitið segir undir 6. lið samkomulagsins, að sé skip staðið að veiðum í bága við samkomulagið, geti íslenskt varðskip stöðvað það, en skuli kveðja til það aðstoðarskip breskt, sem næst sé til að sannreyna málsatvik. Þennan fyrirvara er ég viss um, að þeir Alþb.-menn hefðu einnig kallað undirlægjuhátt við Breta og ekkert annað, ef það væru ekki þeir, sem í ráðherrastólunum væru. Sá er nú munurinn að geta leikið ábyrgðarlaus lausum hala og brigslað öðrum um landráð og annað verra eða verða að bera ábyrgðina sjálfur og taka afleiðingum gerða sinna.

Ég var satt að segja undrandi áðan yfir þeirri yfirlýsingu, sem hv. þm. Hannibal Valdimarsson gaf, og þeirri skýringu, sem hann gaf í sambandi við þetta mál. Hann sagði, að hann hefði kallað það galla á samkomulaginu, ef ekki hefði verið ákvæði um, að íslenskt varðskip skyldi kalla breskt eftirlitsskip til þess að athuga, hvort mælingar væru réttar. Ætli þessi hv. þm. vildi þá ekki koma með till. um það að setja inn í íslenskt lagasafn, að í framtíðinni skuli vera hafður sá háttur á að kalla jafnan til athugunar eftirlitsskip frá þeim þjóðum, sem eiga skip, sem stunda fiskveiðar hér við land og brjóta okkar íslensku fiskveiðilögsögu?

Í sambandi við þær undanþágur og kvótaskiptingu, sem í þessu bráðabirgðasamkomulagi felst, verður að segjast, að það er engu líkara en Bretar hafi haft þar algert sjálfdæmi, hvað viðkemur þeirri tímasetningu, sem um er að ræða. Hæstv. forsrh. gaf hér nokkra skýringu á því, hvernig þetta mál hefði farið, þegar það kom til umr. við Breta, og hvernig gengið hefði að fá nokkru um þokað varðandi þau tilmæli, sem komu frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Hann sagðist hafa sent beiðnina með milligöngu breska sendiherrans í Reykjavík, og hann sagðist vera viss um, að hann hefði komið tilmælunum á framfæri. En það er kannske engin ástæða til þess, að það fengist nokkru um þokað í þessum efnum, sagði hæstv. forsrh., vegna þess að Bretar kunna að reikna. Íslendingar kunna víst ekki að reikna. (Forsrh.: Jú, jú.) Jú, jú, segir hæstv. forsrh. En reikningur hans hefur þá ekki komið að gagni, a. m. k. ekki í þessum efnum, fyrir íslenska hagsmuni. Til viðbótar því verður að harma, að ekki skuli vera utan 12 mílnanna nein friðunarsvæði fyrir minni báta á öllu svæðinu frá Látrabjargi að Austurhorni, þegar frá er tekið óverulegt veiðisvæði á Selvogsbanka um mjög takmarkaðan tíma, aðeins einn mánuð, sem vitað er, að ekki kemur að þeim notum, sem til er ætlast, þar sem aðalhrygningu þorskfisksins er alls ekki lokið um 20. apríl, en þá er gert ráð fyrir að opna þetta veiðisvæði á ný fyrir öllum veiðum. Vitanlega hefði það þurft að vera stærra, þetta svæði, sem þarna er um að ræða og einnig hefði tímalengdin þurft að verða meiri, a. m. k. út aprílmánuð, til þess að það næði verulegum árangri í sambandi við það að friða þessar aðalhrygningarstöðvar þorskfisksins, sem allir eru sammála um, að eru hvergi þýðingarmeiri en á þessu veiðisvæði.

Það ákvæði samkomulagsins, að ekki skuli loka nema einu hólfi í einu, er að sjálfsögðu veigamikið atriði, sem kemur til með að auðvelda Bretum að ná því heildarfiskimagni, sem þeim er ætlað með þessu samkomulagi.

Eins og fiskveiðideilan þróaðist á síðustu mánuðum, áður en Bretar tóku þá ákvörðun áð kall herskip sín út úr fiskveiðilandhelginni, um leið og ákveðið var, að forsrh. landanna mundu hittast og gera lokatilraun til þess að ná bráðabirgðasamkomulagi um lausn deilunnar, þá var öllum ljóst, að framkoma bresku herskipanna var með þeim hætti, að hvenær sem var gat komið til þess, að hinar alvarlegustu afleiðingar hlytust af. Við höfum þegar fórnað einu mannslífi, og sýnilegt var, að þær fórnir gátu hvenær sem var orðið enn meiri og hinar afdrifaríkustu fyrir íslensk sjómannaheimili og íslensku þjóðina í heild. Það er m. a. með þetta í huga, sem ég, þrátt fyrir margvíslega annmarka, sem ég sé á þessu samkomulagi, og einnig með tilliti til þess, að hér er um tímabundið samkomulag að ræða og möguleikar okkar til þess að gera enn stærra átak varðandi fiskveiðilandhelgina virðast nú skammt undan, að ég mun greiða atkv. með þessari till. um bráðabirgðasamkomulag til lausnar landhelgisdeilunni. Með því verður endir bundinn á það hættuástand, sem að öðrum kosti yrði viðvarandi á íslenskum fiskimiðum.