12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Frsm, meiri hl. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Þetta mál er nú vafalaust útrætt orðið í raun og veru. Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi koma inn á örfáum orðum til að gera enn skýrara, hvernig mér sýnist það hafa horft við.

Það er misskilningur hjá hv. 1. þm. Reykn., að það hafi farið nokkuð í mínar fínu taugar, það sem hann sagði um það, sem gerðist á utanrmn.-fundi 26. sept. En mér fannst ekki koma fram rétt mynd af því, sem þar gerðist. Það var í stuttu máli þetta: Við fulltrúar stjórnarflokkanna og fulltrúar Alþfl. vildum taka ákvörðun strax um slit stjórnmálasambandsins við Breta, eins og búið var að segja, að gert yrði eftir nýja ásiglingu. Þetta var sá stuðningur, sem okkur fannst ríkisstj. eiga að fá á þessum fundi utanrmn., og þennan stuðning fékk ríkisstj. frá okkur fulltrúum stjórnarflokkanna og Alþfl., en ekki frá fulltrúum Sjálfstfl., sem vildu byrja viðræður við Mr. Heath.

Ríkisstj. tók síðan strax ákvörðun um stjórnmálaslitin og tilkynnti Bretum þau, en jafnframt gerði hún þá viturlegu ráðstöfun að mínum dómi um leið að segja við Bretana, að þessi ákvörðum ríkisstj. kæmi ekki til framkvæmdar, ef freigáturnar yrðu komnar út fyrir eftir vissan tíma. En það var þessi ákvörðun hæstv. ríkisstj. um stjórnmálasambandsslitin, sem kom freigátunum út úr landhelginni, en sú ákvörðun var ekki í samræmi við afstöðu hv. sjálfstæðismanna í utanrmn.

Þetta fannst mér nauðsynlegt að kæmi fram, þegar hv. 1. þm. Reykn. tók meira að segja þannig til orða, að forsrh. hefði farið að till. minni hl. utanrmn. og þess vegna hefðu freigáturnar náðst út. Þessi ummæli hv. þm. gefa að mínu viti alveg ranga mynd af því, sem raunverulega fór fram. Það var þetta, sem ég vildi koma á framfæri og árétta með þessum örfáu orðum.