12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til skýringa, vegna þess að hv. síðasti ræðumaður hefur ekki sótt fund í dag, eða gat ekki sótt fund og hefur þess vegna ekki fylgst nægilega vel með því, sem fram hefur komið.

Ég vil fyrst leiðrétta það, þar sem hann segir, að ég hafi gefið í skyn, að Íslendingum væri í sjálfsvald sett, hvenær hólf væru lokuð. (SvH: Ég skildi það svo). Ég sagði það og tók skýrt fram, að um þetta væri ósamið en um þetta ættu Íslendingar atkvæði. (SvH: Þú varst búinn að segja það.) Nei. (SvH.: Víst). Það er rangt. Það er rangt. (SvH: Hvernig fórstu að því að reikna út þá?) Ég skal skýra það líka. Það er alrangt, það var algerlega ósamið um þetta, og þess vegna var það rétt, sem var borið til Sjálfstfl. um þetta og hv. þm. skýrði frá, að embættismenn ættu eftir að fjalla um þetta. Fyrir þessu gerði ég grein í ríkisstj. á sínum tíma. Hins vegar var það svo, að Bretar höfðu bæði á fundum hér í Reykjavík og gerðu það líka á Lundúnafundinum, sett fram till. um lokunartíma. En ég féllst aldrei á þann lokunartíma, einfaldlega af þeirri ástæðu, að hann gat ekki fallið saman, vegna þess að ég var með till. um tvö hólf, en Bretar með eitt, þannig að um það gat ekki verið að ræða, að um það væri neitt samkomulag. Þegar fiskimálastjóri reiknar þetta út, gerir hann það, get ég sagt, í samráði við mig. Hann tekur það, sem talið var, að Bretum væri hagstæðast, út úr þessu. (SvH: Hvernig fengu þeir það?) Til þess að sýna ekki myndina of glæsilega eða vera með neina gyllimynd, þá fékk hann þetta út, að þeir gætu náð 110–130 þús. tonnum. En það var ekki um það að ræða, að það væri neitt um þetta samið. Landssambandið gerði sínar till. um lokunartíma, og eins og ég skýrði frá hér í kvöld, reyndi ég það sem ég gat, þegar ég var löngu hingað heim kominn af fundi þeirra, að fá till. þeirra teknar til greina, en það fékkst ekki. (SvH: Af því að það var búið að semja um það áður.) Það eru hrein ósannindi, verð ég að segja, hjá hv. þm. að halda því fram. Það liggur alveg skýrt fyrir í skýrslunni, að það var ekki samið um það, að það var ekki samið um neitt.

Enn fremur er það misskilningur hjá hv. þm., að það hafi verið gengið að þeim till., sem ég gerði. Meginatriðið var náttúrlega það, að tvö hólf voru lokuð, og það er það, sem ég tel fyrst og fremst ábótavant í þessari till., að það skuli ekki hafa fengist fram. Þess vegna kom það ekki til mála, að ég samþykkti þann grundvöll, sem þeir settu fram sem hugsanlegan. Þetta er alveg skýrt tekið fram í skýrslu minni, ef hv. þm. hefur haft fyrir því að lesa hana. (SvH: Ég hef gert það.) Já, og þá getur hv. þm. líka lesið þá fréttatilkynningu, sem gefin var út eftir fundinn sameiginlega af mér og forsrh. Breta. Þar var skýrt tekið fram, að þetta væri ekki samkomulag, heldur að ég mundi gefa skýrslu um þetta til ríkisstj. (Gripið fram í.) Ég hef þetta hérna og get lánað hv. þm., svo að hann geti lesið það í rólegheitum, ef hann er eitthvað þreyttur eftir ferðalagið og á erfitt með að átta sig á hlutunum.

Þegar ég fór frá Bretlandi, var líka haft sjónvarpsviðtal við mig, og það liggur fyrir. Þá lýsti ég því yfir, að ég væri ekki ánægður með þennan grundvöll. Ég lýsti því yfir, að enn gæti hæglega komið til stjórnmálaslita við Bretland.

Allt þetta er skjalfest, þannig að það þýðir ekkert fyrir þennan hv. þm. að vera að halda fram staðhæfingum, sem stangast alveg á við staðreyndir, sem hægt er að upplýsa um. Og ég skil ekki, hvaða taugaæsingur er í honum út af því.

Það er alrangt, sem hann sagði, að það hefði verið samið um þetta í London. Ég hef marglýst yfir, að þm. eru algerlega frjálsir að því að hafna þessu, ef þeim sýnist það (SvH: Þm?) Já. Og þá er það líka misskilningur hjá hv. þm., að það sé óþarft að setja ákvæði í lög um sviptingu leyfis. Það eru engin ákvæði í íslenskum lögum um það efni. Þess vegna er nauðsynlegt að setja heimild um það í íslensk lög. Þetta frv. verður nú rætt á morgun, og þá get ég,gert nánari grein fyrir því.

Ég skal ekki fara að ræða um fleira við hv. þm., enda held ég, að það sé eins gott að fara að hugsa til heimferðar og fara að sofa.