13.11.1973
Sameinað þing: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Samningarnir eru að mínum dómi verri en efni stóðu til, en aðfarirnar enn þá verri. Hæstv. forsrh. fer utan sérfræðingalaus og segist ekki ætla að semja, mætir öllum sérfræðingum Breta og kemur heim með úrslitakosti, sem hann segist vilja staðfesta án þess að bera þá undir samstarfsmenn sína, sem eru fleiri en ráðh. Með því gerir forsrh. samninginn að fráfararatriði og beitir þar vopni, sem forsrh. samsteypustjórnar á að beita af fullri varúð og eins sjaldan og við verður komið. Samkomulag innanlands er ekki síður nauðsynlegt en samkomulag við útlendinga.

Þá vil ég treysta því, að næst þegar semja þarf um stórmál þjóðarinnar, verði sýnd meiri reisn án hroka, styrkur án ofbeldis og samningsvilji án undirgefni. Samkomulagið er þó ekki verra en það, að það er snöggt um betra en að fela íhaldinu völdin og stefna þar með mörgum góðum málum í hættu, og á þessum forsendum segi ég já.