13.11.1973
Sameinað þing: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Jónas Árnason:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu eins hv. þm. áðan, var ég ekki ánægður með það samkomulag, sem hér liggur fyrir. Hins vegar liggur í augum uppi, að það er ekki aðeins stjórnarandstaðan íslenska, sem að undanförnu hefur beðið þess málþola að sjá þessa ríkisstj. hrökklast frá völdum. Sú eftirvænting hefur líka ríkt í aðalstöðvum NATO og hjá breska togaraauðvaldinu og hjá fulltrúum þess í bresku ríkisstj. Ég vil ekki gera hér margfaldan óvinafagnað með því að segja nei við þessu samkomulagi, sem hér liggur fyrir, og verða þannig valdur að því, að þessi ríkisstj. hrökklist frá. Ég vil, að þessi ríkisstj. fái tækifæri til að hrinda í framkvæmd þeim stórmálum mörgum, sem hún hefur á stefnuskrá sinni til hagsbóta fyrir íslenska alþýðu, og segi þess vegna já.