13.11.1973
Sameinað þing: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

50. mál, stytting vinnutíma

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að þessi spurning er ekki alveg eins einföld til að svara henni og hún kannske kann að virðast í fljótu bragði. En ég hef fengið hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar og Kjararannsóknarnefnd til þess að aðstoða mig við það að svara þessu, og að þeim upplýsingum fengnum, sem ég hef getað fengið frá þessum stofnunum, er svar mitt á þessa leið:

Með l. nr. 88 frá 1971 er vinnuvikan stytt úr 44 dagvinnustundum í 40 stundir, en þá höfðu nokkrar starfsstéttir þegar samið um styttingu vinnutíma, sem ýmist var komin til framkvæmda eða skyldi koma til framkvæmda í áföngum á næstu árum. Þannig hafa opinberir starfsmenn og skrifstofufólk þegar náð 40 stunda vinnuviku, og nokkur iðnaðarmannafélög, sennilega um helmingur iðnaðarmanna, höfðu samið um einhverja styttingu í áföngum. Samkv. þessu höfðu l. formlega einhver áhrif á vinnutíma alls verkafólks, afgreiðslufólks og nær allra iðnaðarmanna, eða samtals yfir 60% allra launþega, þar af eru 53%, sem höfðu fullra 44 stunda dagvinnu fyrir, en aðrir skemmri.

Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um raunverulega breytingu heildarvinnutíma að meðtalinni yfirvinnu á árinu 1972 eftir setningu l. um styttingu vinnuvikunnar. Það hlýtur að ráðast mjög af hinu almenna efnahags- og atvinnuástandi á hverjum tíma, að hve miklu leyti stytting vinnuvikunnar veldur raunverulegri fækkun unninna stunda eða fjölgun eftirvinnustunda, að sama skapi og dagvinnustundum fækkar. Þetta getur einnig verið mjög misjafnt í hinum einstöku atvinnugreinum. Við setningu l. var lauslega áætlað, að vinnutímabreytingin kæmi að hálfu fram í fækkun unninna stunda og að hálfu í aukinni yfirvinnu, og var þá einkum miðað við ríkjandi atvinnuástand og að nokkru leyti reynslu frá fyrri vinnutímabreytingum.

Kjararannsóknarnefnd hefur gert úrtaksathugun á vinnutíma verkamanna í Reykjavík á fyrsta ársfjórðungi 1971 og 1972. Niðurstöður þessara athugana benda til þess, að í flestum atvinnugreinum hafi orðið nokkur stytting heildarvinnutíma verkamanna á þessu tímabili, en í heild hafi orðið heldur minni stytting vinnutíma hjá verslununum í Reykjavík en gert var ráð fyrir í upphafi. Um aðra launþegahópa liggja ekki fyrir neinar tölulegar upplýsingar, en miðað við það atvinnuástand, sem ríkt hefur að undanförnu, má telja víst, að t. d. iðnaðarmenn hafi frekar notið áhrifa l. um styttingu vinnuvikunnar í formi hærri tekna heldur en styttri vinnutíma.

Frá 1. nóv. 1971, þ. e. a. s. fyrir gildistöku síðustu samninga, til 1. sept. s. l. hefur kaupmáttur tímakaupstaxta verkamanna aukist um 27% miðað við vísitölu framfærslukostnaðar, en um 20%, sé miðað við vísitölu vöru og þjónustu, þ. e. a. s. a-lið framfærsluvísitölu. Aukning kaupmáttartekna launþega ræðst hins vegar mjög af því, hver hefur orðið raunveruleg breyting vinnutíma á tímabilinu, bæði vegna áhrifa l. um styttingu vinnuviku og eins vegna ríkjandi atvinnuástands, og þarf því ekki að vera hin sama og kaupmáttur tímakaupstaxtanna. Miðað við, að verkamaður hafi eingöngu unnið dagvinnu og notið styttingar vinnuviku að fullu í styttri vinnutíma og þar með lengri frítíma, er kaupmáttur atvinnutekna alls 14% hærri nú en haustið 1971, miðað við vísitölu framfærslukostnaðar, en 71/2% miðað við vísitölu vöru og þjónustu. En miðað við óbreytta yfirvinnu, eins og hún var að meðaltali árið 1971, styttingu vinnuviku og lengri frítíma, er kaupmáttaraukning 18% miðað við vísitölu framfærslukostnaðar, en 11% miðað við vísitölu vöru og þjónustu. Á þeirri forsendu, að stytting vinnuviku hafi að hálfu komið fram í fækkun vinnustunda í heild og að hálfu í fjölgun yfirvinnustunda, hefur kaupmáttur tekna verkafólks aukist að meðaltali um 23–24% miðað við framfærsluvísitölu, en 16–17% miðað við vísitölu vöru og þjónustu frá haustinu 1971.

Eins og ég sagði áðan, liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um breytingu vinnutíma hjá einstökum launþegahópum. Hins vegar liggja fyrir hjá Kjararannsóknarnefnd fullkomin frumgögn til þess að svara því, um hvaða breytingar hefur þar verið að ræða, en til þess að fá það upplýst fullkomlega og óyggjandi þarf að gera svokallað „prógram“, sem hægt er að keyra gegnum skýrsluvélar, og það tekur verulegan tíma, a. m. k. allmargar vikur, en ég hef gert ráðstafanir til þess, að þetta verk verði unnið, og mundi þá vera fært að svara þeirri fsp., sem til mín hefur verið beint, svo vel sem okkar upplýsingasöfnun leyfir. En hins vegar er þó það að segja, þó að ekki sé hægt að fullyrða um einstaka launþegahópa, að það má telja víst með tilliti til ríkjandi atvinnuástands, að í langflestum tilfellum hafi áhrif lagasetningar um styttingu vinnuviku að einhverju leyti komið fram í hærri tekjum launþega.

Ég vil svo þessu aðeins til viðbótar geta þess til þess að gera einhverja úrlausn frekari á þeirri spurningu, sem fram var borin, að þá hefur verið hjá Kjararannsóknarnefnd í tilefni af fsp. gerð úrtaksrannsókn, sem á að gefa nokkuð rétta mynd um verkamenn í Reykjavík, og þar hefur komið í ljós, að vinnutíminn breytist sem hér segir: Dagvinnutíminn hefur styst um 7.5%, eftirvinna aukist um 1.1% og næturvinna aukist um 27.2%, þ. e. a. s. meðalvinnutímastyttingin hefur þá orðið hjá þessu úrtaki 3.65%. Það svarar nokkurn veginn nákvæmlega til þeirrar ágiskunar, sem áður var gerð, að almennt mundi þessi lagabreyting hafa í för með sér, að hún fengist að hálfu leyti fram í styttri vinnutíma og að hálfu leyti í aukinni yfirvinnu, svo að það fellur alveg saman, þetta úrtak, við þær ágiskanir, sem hagrannsóknadeildin hefur yfirleitt byggt á í þessu efni.

Ég bið fyrirspyrjanda velvirðingar á því, að ég get ekki svarað þessu enn greinilegar, en vona, að innan tíðar verði unnt að veita honum frekari upplýsingar og enn þá nákvæmari en ég hef hér getað veitt.