22.10.1973
Sameinað þing: 5. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

343. mál, Seðlabanki Íslands

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Áður en ég svara þessum fsp., vil ég leyfa mér að benda á 1. mgr. 10. gr. 1. nr. 54 1972, um þingsköp, þar sem segir svo:

„Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði eða mál, sem ráðherra ber ábyrgð á, og sé við það miðað, að hægt sé að svara henni í stuttu máli“.

Ég tel hæpið, svo að ekki sé meira sagt, að fsp. þessari fullnægi fyrirmælum 1. liðs 10. gr. þingskapalaga, þar sem hér er spurt um fræðileg atriði, persónulegt álit og um mál, sem ekki heyra undir þau rn., sem ég veiti forstöðu. En þar sem hæstv. forseti hefur leyft þessar fsp., mun ég reyna að veita þá úrlausn við þeim, sem ég get.

Viðvíkjandi fyrstu spurningunni get ég lýst í fáum dráttum stöðu Seðlabankans, eins og hún kemur mér fyrir sjónir.

Samkv. 1. gr. 1. nr. 10 1961 er Seðlabankinn sjálfstæð stofnun, eign ríkissjóðs, sem lýtur sérstakri stjórn. Samkv. 4. gr. 1. skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstj. varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Seðlabankastjórn skal telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því, að sú stefna, sem ríkisstj. markar að lokum, nái tilgangi sínum. Yfirstjórn bankans er í höndum tveggja aðila, viðskrh., en hann fer með bankamál, og þingkjörins bankaráðs. Heimildir hvors aðila um sig eru nokkuð skýrt markaðar í lögum. Ráðh. ræður bankastjóra að fengnum till. bankaráðs og víkur þeim frá störfum, í sumum tilfellum að fengnu áliti bankaráðs. Hann setur reglugerðir um starfsemi bankans og tekur ýmsar ákvarðanir um seðlaútgáfu, einnig að tillögum bankaráðs. Bankaráð skal hins vegar hafa umsjón með allri starfsemi bankans og sérstaklega með reikningsskilum öllum. Bankastjórn skal hafa samráð við bankaráð um öll þýðingarmikil mál.

Samkv. ákvæðum 26. gr. l. ber bankastjórn ábyrgð á og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum bankans, sem ekki eru falin öðrum í lögum. Þá vil ég og geta þess, að samkv. beinum ákvæðum laganna þarf bankinn samþykki ríkisstj. til ýmissa ákvarðana í gengismálum.

Samkv. lögum eru þannig heimildir ráðh. til afskipta af Seðlabankanum mjög takmarkaðar. Það er og, að ég hygg, stefnan í öllum nágrannalöndum okkar, að Seðlabankar ríkjanna séu nokkuð sjálfstæðir og það sums staðar í miklu ríkari mæli en hér á landi.

Ég vænti þess, að með þessum almennu orðum hafi ég svarað 1. fsp. hv. fyrirspyrjanda, eftir því sem kostur er. Og af því svari má einnig nokkuð ráða, hvert svar mitt mundi vera við 2. lið eða 2. fsp. Mitt svar er það, að ráðh., í þessu tilfelli viðskrh., sem fer með bankamál, hefur hvorki að óbreyttum lögum né samkv. venju um starfshætti banka og bankaráða heimild til að stöðva byggingarframkvæmdir ríkisbanka, hvorki Seðlabankans né annarra banka.

Ég get þess einnig um leið, að það, sem frá fjárfestingarsjónarmiði mundi sjálfsagt skipta máli frá sjónarhóli ríkisstj., eru ársframkvæmdir, ársáfangar, ekki síður en heildarframkvæmdin, sem e. t. v. á að taka mörg ár. En sú fjárhæð, sem nefnd er í fsp., er, skilst mér, miðuð við alla framkvæmdina og þó heldur vel í lagt eftir þeim upplýsingum, sem ég hef nú þar um fengið.

Varðandi 3. fsp. verð ég hreinlega að játa, að ég treysti mér ekki til að svara henni, en hún lýtur nánast að því, hvert álit mitt sé á áhrifagetu hæstv. viðskrh., þegar hann hefur hvorki við lög né venju að styðjast. Ég hef mjög mikið álit á áhrifagetu hæstv. viðskrh., en treysti mér ekki til að láta í ljós álit á þessu. Hitt hefði verið sök sér, ef hv. fyrirspyrjandi hefði spurt að því, ef ég og hæstv. viðskrh. hefðum lagst á eitt, hvort við hefðum þá ekki haft tök á því að stöðva þessar framkvæmdir.

Hitt er svo annað mál, sem ekki er tími til þess að fara út í hér í þessum fsp.-tíma, það er almennt um byggingarframkvæmdir hins opinbera og þ. á m. Seðlabankans. Ég hefði verið og er tilbúinn til þess að ræða þau mál hér hvenær sem er, þegar tækifæri gefst til. En í þeim efnum vil ég seg,ja, að hér á landi hefur undanfarna áratugi verið landlægur kotungsháttur, sem er opinberum aðilum til hreinustu skammar.