13.11.1973
Sameinað þing: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

364. mál, rekstrargrundvöllur skuttogara

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Það eru í rauninni á dagskrá tvær fsp. mikið til um sama atriði, varðandi rekstur togara og afkomu þeirra, og þetta fléttast nokkuð saman. Ég skal samt reyna að svara þessari fsp., eftir því sem hægt er, aðgreindri, og koma þá þær upplýsingar sem umfram eru og hér liggja fyrir, fram, þegar hin fsp. verður rædd.

Spurt er um, hvað miklu tap togaraútgerðinnar nam árið 1972. Það hefur farið fram athugun á því í sjútvrn.og eins í hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, og er talið, að tap togaraútgerðarinnar hafi numið á árinu 1972, þegar afskriftir eru taldar með, eða endurmetnar afskriftir, 141 millj. kr. Þar af eru afskriftir 37.3 millj. kr. Til þess að greiða upp í þetta tap hefur togaraútgerðinni verið greitt vegna rekstrarins á árinu 1972 samtals 101 millj. kr., eða úr Aflatryggingasjóði um 36 millj. kr., ríkissjóði um 45 millj. kr. og af gengishagnaði um 20 millj. kr., svo að það má segja, að þetta útreiknaða tap hafi verið greitt að mestu leyti af opinberum aðilum á þennan hátt, nema afskriftarfjárhæðir.

Þá er í öðru lagi spurt um það, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hyggist gera til þess að tryggja rekstur hinna nýju skuttogara. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar í þeim efnum enn. Málið hefur verið til athugunar, enda er hér um reynslurekstur að ræða, og reksturinn hefur á flestum skipunum staðið enn í stuttan tíma og varla hægt að tala um, að fengist hafi fullnægjandi yfirlit um rekstrarafkomuna enn sem komið er. En sem sagt, svarið við þessu er, að engar ákvarðanir hafa verið teknar í þessum efnum enn.

Þá er í rauninni þessum fsp. svarað, sem hér liggja fyrir og eru nú til umr. Viðbótarupplýsingar um afkomu og útlit á hinum nýju skuttogurum verða þá gefnar undir næsta dagskrárlið, þar sem spurt er um mjög svipað efni. Ég vænti sem sagt, að þessum fsp. sé svarað á fullnægjandi hátt.