13.11.1973
Sameinað þing: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

364. mál, rekstrargrundvöllur skuttogara

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af þessu segja það, að það leikur auðvitað enginn vafi á því, að það verður fylgst með því, hvað er nauðsynlegt að gera til þess að tryggja rekstur þessara þýðingarmiklu atvinnutækja. En rekstur þeirra er nú yfirleitt í höndum einstaklinga eða einkafyrirtækja, slíkir aðilar verða að sækja sjálfir um styrk til ríkisins, áður en við förum að gefa nokkrar yfirlýsingar um það, hvað við ætlum að greiða mikið af væntanlegu tapi þeirra, og efast ég ekki um, að hv. fyrirspyrjandi þekkir mætavel, að það er eðlilegt. En sem sagt, það hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir um það, hvað gera skuli og að hve miklu leyti þurfi að hlaupa undir bagga með þessum aðilum. Það er fylgst með rekstrarútkomu þessara skipa, eins og tök eru á, eins og ég segi er aðalatriðið, að reynt verður að sjá til þess, að rekstur þeirra geti haldið áfram með eðlilegum hætti, þannig að það þurfi ekki frekar að verða stöðvun þar á heldur en í sambandi við annan rekstur.

Ýmsar upplýsingar væri hægt að gefa hér almennt um þá reynslu, sem fengin er af rekstri þessara skipa, en það vinnst ekki tími til þess í þessum fyrirspurnatíma, en það kemur að því, að hin fsp. um sama efni verður hér rædd, og þá koma þær upplýsingar fram.