13.11.1973
Sameinað þing: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

74. mál, fiskiðnaðarnámskeið sjávarútvegsráðuneytisins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Svör við þessum spurningum hafa mér borist í hendur frá sjútvrn. og frá Fiskmati ríkisins, og er rétt, að ég lesi þau hér upp fyrst.

Það er í fyrsta lagi: Ástæður fyrir auglýsingu Fiskmats ríkisins um fiskiðnaðarnámskeið eru eingöngu þær, að samkv. könnun, sem gerð var í sumar, vantar nú þegar 35–45 manns til þess að vinna við fiskmat og gæðaflokkun fisks í hinum ýmsu hraðfrystihúsum eða öðrum fiskvinnslustöðvum landsins. Fiskvinnsluskólinn mun ekki alveg á næstunni útskrifa einn einasta nemanda, sem bætt gæti úr þessari fyrirliggjandi þörf á hæfum matsmönnum á vegum Fiskmatsins, og þess vegna þurfti Fiskmatið sjálft að gera þessar ráðstafanir. Þess má geta, að Fiskmat ríkisins hefur haldið slík námskeið í meira en tvo áratugi og þannig leyst úr brýnni þörf með því að veita mörg hundruð matsmönnum nauðsynlega þekkingu

Í öðru lagi: Fiskvinnsluskólinn er nú að hefja sitt 3 starfsár og mun útskrifa sína fyrstu nemendur næsta vor. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um það, hvaða réttindi þetta fólk muni hljóta að loknu námi né heldur hvaða réttindi menn munu geta aflað sér með því að sækja námskeið líkt og það, sem nýlega var auglýst á vegum Fiskmats ríkisins. Í þessu sambandi skal þó upplýst, að á sameiginlegum fundi, sem starfsmenn sjútvrn. hafa haldið með skólastjóra og skólanefndarform Fiskvinnsluskólans, ásamt fiskmatsstjóra og yfirmönnum Fiskmatsins, varð samkomulag um eftirtalin 3 atriði:

a) Líklegt er eða næstum fullvíst, að í náinni framtíð muni þörfin á fræðslu fólks, sem veljast mun til fiskmatsstarfa, verða meiri en Fiskvinnsluskólinn getur veitt samkv. kennsluskrá.

b) Námskeið lík því, sem nýlega var auglýst, verða þess vegna nauðsynleg í nokkur ár til viðbótar. Verður höfð samvinna milli Fiskmatsins og Fiskvinnsluskólans um að meta þörfina á slíkum námskeiðum og um tilhögun og framkvæmd þeirra.

c) Fiskmatið og Fiskvinnsluskólinn munu gera till. til sjútvrn. um það, hvaða réttindi fiskmatsmenn skuli hafa með tilliti til menntunar og hvernig skuli haga löggildingu þeirra. Ráðuneytið mun síðan, að fengnum þessum till., hlutast til um, að endurskoðaðar verði gildandi reglugerðir um þessi atriði.

Að lokum skal þess getið að forsvarsmenn Fiskmatsins og Fiskvinnsluskólans töldu einnig æskilegt, að lög um Fiskvinnsluskólann verði endurskoðuð með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengist hefur á þeim rúmu tveimur árum, sem skólinn hefur starfað, og þá verði athugað, hvort ekki sé sjálfsagt, að Fiskmatið eigi fulltrúa í skólanefnd, til þess að tryggja nánara samband milli skólans og þeirra greina sjávarútvegsins, sem hann á einkum að þjóna. En skólinn heyrir, eins og kunnugt er, ekki undir sjútvrn., heldur menntmrn.

Þessar upplýsingar, sem ég hef nú lesið, eru undirritaðar af Þórði Ásgeirssyni skrifstofustjóra í sjútvrn.

Til viðbótar við þetta vil ég lesa hér nokkrar upplýsingar um bréfi frá fiskmatsstjóra, en bréfið er það langt, að varla vinnst tími til að lesa það hér allt, enda sé ég ekki, að sumt af því, sem kemur fram í bréfinu eigi endilega erindi hingað inn á Alþ. Fiskmatsstjóri segir þetta m. a. í bréfi sínu :

„Ein meginforsendan fyrir þeim margþættu þjónustustörfum, sem Fiskmati ríkisins er skylt að framkvæma, er að kanna starfshæfni fiskmatsmanna, sem framkvæma undir stjórn þess gæðaflokkun, hreinlætis- og búnaðareftirlit, bæði í veiðiskipum og í landi, ásamt mörgum eftirlits- og trúnaðarstörfum, er heyra til gæðamati fisks og fiskafurða. Samkv. þessu hvílir jafnan sú skylda á yfirmönnum Fiskmats ríkisins að fullvissa sig eins og unnt er um starfsreynslu og hæfni þeirra, er þeir fela gæðaflokkun fisks og fiskafurða og önnur skyldustörf í því sambandi.

Samkv. framansögðu hefur í rúma tvo áratugi verið haldið uppi námskeiðum á vegum sjútvrn. og Fiskmats ríkisins og Fiskmati ríkisins jafnan verið falin framkvæmd þeirra námskeiða. Við námskeiðin hefur Fiskmat ríkisins jafnan notið góðra aðstoðar ýmissa aðila, t. d. Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og aðila frá sölusamtökum fiskframleiðenda og einstökum framleiðendum, vegna húsnæðis og fleira.

Skilyrði eru um starfsreynslu nemenda fyrir þátttöku í námskeiði, til þess að ná fram eins hæfum starfskröftum og unnt er með námskeiðum, og hefur í aðalatriðum eftirfarandi aðferðum verið beitt :

1) Að umsækjendur hafi mikla starfsþjálfun í viðkomandi framleiðslugrein, sem námskeiðið snýst um, áður en þeir eru innritaðir á námskeið. — Það er því væntanlega byggt á þekkingarskorti, þegar menn gera mjög villandi fsp. um 3 vikna námskeið. Nemendur hafa áður mikla starfsþjálfun.

2) Að veita með námskeiðunum alla mögulega fræðslu, verklega og bóklega, og taka jafnan inn í þá fræðslu allar nýjungar um fiskframleiðslu, gæðamat, hreinlætismál, búnað í framleiðslu og fleira.

3) Að kanna verkhæfni, framkomu og umgengnishæfileika nemenda meðan námskeiðið stendur yfir.

4) Eftir námskeiðið starfa nemendur á reynslutíma undir stjórn þar til hæfra manna, þar til hæfni þeirra alhliða séð telst reynd. Með þeirri öru aukningu og fjölbreytni í sjávarútvegi og framleiðslu síðustu ára hefur sérhæfni til hvers konar starfa aldrei verið meira krefjandi en nú. Samkv. könnun s. l. sumar kom í ljós, að þörfin á sérhæfðu starfsfólki vegna gæðaflokkunar fisks og fiskafurða svo og margvíslegra trúnaðarstarfa í því sambandi var varlega áætluð 35–45 manns nú þegar eða í síðasta lagi í ársbyrjun 1974.“

Þetta eru nokkrar helstu upplýsingarnar, sem koma hér fram í bréfi Fiskmats ríkisins. En til viðbótar við þetta vil ég segja það, að ég hef fyrir mitt leyti tekið ákvarðanir um nokkur atriði varðandi þetta mál, þar sem mín afstaða kemur skýrt fram.

Það er í fyrsta lagi, að ég vil, að þegar augl. fiskmatsmannanámskeið verði haldið á vegum Fiskvinnsluskólans og Fiskmats ríkisins sameiginlega og í fullu samstarfi þeirra á milli. Hef ég óskað eftir, að þetta yrði framkvæmt. Starfsmenn mínir hafa hins vegar upplýst mig nú í morgun um, að það virðist vera fullt samkomulag á milli skólastjóra Fiskvinnsluskólans og form. skólan. þar og fiskmatsstjóra um, að að þessu sinni verði það Fiskmat ríkisins, sem reki þetta námskeið. Séu þessir aðilar fullkomlega sammála, mun ég ekki grípa fram fyrir þeirra hendur. En ég hefði óskað eftir hinu.

Í öðru lagi hef ég óskað eftir upplýsingum um það, í hvers valdi það sé að ákveða tiltekin réttindi fyrir þá menn, sem ljúka þessu auglýsta námskeiði, og eins fyrir þá, sem ljúka prófum frá Fiskvinnsluskólanum. Það er ákvörðun mín að standa þannig að málum, að það sé ljóst, að það verði viðurkennt, að próf frá Fiskvinnsluskólanum veiti meiri réttindi en frá námskeiðinu og veiti próf skólans forgangsrétt til starfa umfram þau réttindi, sem það námskeið, sem t. d. nú hefur verið auglýst, getur veitt. Ég tel að það námskeið, sem nú stendur til að halda, og þau önnur, sem kynnu að verða haldin, verði að veita takmarkaðri réttindi, borið saman við þau réttindi, sem próf frá skólanum eiga að veita, og verður staðið að því að framkvæma það á þessa lund.

Þá hef ég einnig ákveðið að beita mér fyrir því, eftir því sem mitt vald nær til. að nemendur í Fiskvinnsluskólanum verði aðnjótandi ,sams konar námsstyrkja og námslána og nemendur hliðstæðra framhaldsskóla fá nú úr Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Þá er í fjórða lagi það, að ég tel brýna þörf vera á því að sjá um, að lög um Fiskvinnsluskóla ríkisins verði framkvæmd eins og þau eru eða þær ákvarðanir, sem í þeim er að finna í 6. gr. 1. segir alveg skýrum orðum, að á árunum 1972–1975 skuli enn fremur undirbúa stofnun fiskvinnsluskóla 1. og 2. stigs á Suðurnesjum, Akranesi og í stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum. Það var skoðun þeirrar n., sem fjallaði um setningu l. um fiskvinnsluskóla á sínum tíma, og það myndaðist fullkomin samstaða í n., þegar þau lög voru sett, að til þess að það mætti heppnast að byggja hér upp nægilega fjölmennan og myndarlegan fiskvinnsluskóla, þyrfti að koma upp í helstu landshlutunum 1. og 2. stigs námi skólans og síðan yrði aðalskólinn hér í Reykjavík.

Tími minn er búinn, og ég get ekki gefið hér frekari upplýsingar um þetta mál en ég er búinn á þessum takmarkaða tíma.