22.10.1973
Sameinað þing: 5. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

343. mál, Seðlabanki Íslands

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Það kemur fram að hans áliti, að bankamálaráðh, hafi ekki lögum samkv. tök á því að stöðva þessa byggingu, ég skildi það ekki betur. Ég skal nú ekki fara að deila mjög við hæstv. forsrh., sem er prófessor í stjórnarfarsrétti sérstaklega, en ég vil henda á, það, að allir pólitískir flokkar, a. m. k. fulltrúar þeirra í borgarstjórn Reykjavíkur, nema Alþb., og tveir prófessorar í lögum, sem ég hef talað við, eru sannfærðir um, að lögin heimila, að ráðh. geti gripið inn í, ef honum býður svo við að horfa. Ég vil benda hæstv. forsrh. á eitt. Hann talar um venju, en mér skilst, að venjur í stjórnskipunarrétti séu mjög takmarkaðar og það sé ekki hægt að afsaka mistök með því, að mistökin hafa lengi átt sér stað. En grundvallaratriðið, sem ég er eiginlega að velta fyrir mér, er það, að löggjafarþingið getur ekki látið afskiptalaust, þegar einstaka stofnanir hafa þá aðstöðu til að ráðast í byggingarframkvæmdir upp á hálfan milljarð, meðan nær allar opinberar stofnanir þurfa að sækja um hverja einustu krónu til 60 manna þings til þess að fá einhver,ja úrlausn. Þetta er algerlega óviðunandi ástand. Ekki aðeins Seðlabankinn hefur þessa aðstöðu, heldur líka landsbankinn, og þess vegna hafa málin þróast þannig, að allt tal um áætlunarbúskap og fjárfestingar hjá hinu opinbera verða orðin tóm, á meðan löggjafarsamkundan og jafnvel ríkisstj. hefur ekki tök á því að stjórna þessum málum, svo að ég vil beina því þá til ríkisstj., að hún endurskoði lög banka á þann hátt, að hún hafi tök á því að ráða þessum málum. Það er grundvallaratriðið.

Ég skal ekki fara meira út í það, en mér sýnist ýmsar aðrar fsp. benda einmitt í þá átt, að bankavaldið leikur lausum hala og bankaráðsmennirnir, sem kosnir eru hér á þingi, hætta að verða fulltrúar þingsins, þegar þeir eru komnir í bankaráð, heldur verða þeir fulltrúar bankans gagnvart þinginu. Málin snúast við. Og ég verð að segja, að það er algerlega óviðunandi, að löggjafarsamkundan láti sig svona mál ekki miklu varða og taki þá afstöðu, að það hafi einhverja yfirumsjón eða eftirlit með slíkum fjárfestingum banka eins og hér eiga sér stað.