14.11.1973
Efri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

27. mál, skipti á dánarbúum og félagsbúum

Frsm. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, varðar skipti á dánar- og félagsbúum. Fyrir mun liggja að endurskoða íslenska löggjöf að því er varðar búskipti, skiptalög okkar. Hinn almennu skiptalög eru orðin nokkuð gömul að stofni, þau eru frá 1878, og með óverulegum breytingum síðan. Gjaldþrotaskiptalögin eru frá árinu 1929. Hvort tveggja er, að þessi löggjöf á um veigamikil atriði ekki lengur við, en hins vegar er endurskoðun á henni mjög erfitt og vandasamt verk, alveg sérstaklega þó frá lögfræðilegu sjónarmiði. Engu að síður þarf að koma fram nauðsynlegri breytingu, og endurskoðunin taka sem skemmstan tíma.

Ákvæði þessa frv. hafa verið sérstaklega tekin út úr til endurskoðunar, og þau fjalla um eitt einstakt efni, þ. e. a. s. röð þeirra skulda, sem koma fram við skipti búa. Allshn. hefur ekki talið sér fært að hrófla við því niðurröðunarkerfi, sem lagt er til að koma upp í frv. Margar þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir, eru að sjálfsögðu til bóta og til samræmingar við nútíma viðhorf. T. d. eru skattakröfur samkv. frv. eigi lengur forgangskröfur, heldur almennar. Þá er aukinn réttur krafna, t. d. að taka, sem tryggðar eru með sjálfsvörsluveði í lausafé, og þær settar í flokk með venjulegum samningsveðtryggðum kröfum. En einmitt nú á dögum er ákaflega mikið um það, að veðsett sé lausafé, og um það eru mjög strangar kröfur, hvernig að því skuli farið að formi til. Er þá næst til að taka, þar sem eru bifreiðar, því að yfirleitt eru þær orðnar grundvöllur að lánum meira en flest allt annað lausafé. Í frv. eru líka launakröfur færðar sem forgangskröfur. Að vísu hefur sú trygging verið í lögum, en með annarri löggjöf. Þó er orðalag almennara í þessu frv. en í hinum lögunum, sem fjalla um forgangsrétt launakrafna, enda hefur tilhneiging verið til þess að skýra núgildandi lagaákvæði um launakröfur rýmra en ástæða sýnist til.

Ítarleg grg. fylgir þessu frv., sem er samið af prófessor í skiptarétti hvort tveggja, grg. og frv., en eins og ég sagði, er hér um mjög sérfræðilegt efni að ræða. Reglur á þessu tiltölulega þrönga sviði réttar hafa lengi verið svipaðar því, sem er á hinum Norðurlöndunum, og í þessu frv. er að sjálfsögðu höfð hliðsjón af því, sem þar hefur gerst í nýrri löggjöf og fram hefur komið í álitsgerð sérfræðinga um þetta efni. Þeirri viðmiðun verður að sjálfsögðu haldið áfram, þegar endurskoðun á sér stað um frekara efni á sviði skiptaréttar.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um efni frv., því eru gerð skil í ítarlegri greinargerð, og nefndin hún hefur ekki séð ástæðu til þess að koma fram með neinar breytingar. Hins vegar vil ég geta, að það hefði kannske verið eðlilegt, þó að ekki væri munað eftir því, þegar nefndin var að starfi, að senda frv. í öryggisskyni til þess embættismanns, sem mjög hefur fjallað um skiptamál, þ. e. a. s. yfirborgarfógetans í Reykjavík og hans manna. Ég tel, að það gæti gerst milli 2. og 3. umr. þessa máls. Væri sennilega að minni hyggju rétt að gera það, eins og ég sagði, í öryggisskyni. Að öðru leyti mælir allshn. með samþykkt þessa frv.