14.11.1973
Efri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

94. mál, lyfjaframleiðsla

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég gerði áðan grein fyrir því, hvers vegna ég hefði lagt málið fram hér í hv. Ed. Það er vegna þeirrar gagnrýni, sem fram kom hér í fyrra, og vona, að það verði mér ekki til ámælis. Ég hygg, að þau gögn, sem n. í Nd. aflaði sér, séu auðveldlega tiltæk, og að sjálfsögðu munu fulltrúar frá rn. verða n. innan handar að greina frá öllum þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á frv. frá því í fyrra. Sú aðstaða verður að sjálfsögðu látin greiðlega í té.

Ég kannast ekki við verulegan ágreining í sambandi við eignarhlutföll. Ég varð ekki var við neinn verulegan ágreining um þetta frv. í fyrra. Ágreiningurinn var fyrst og fremst um annað frv., um lyfjastofnun ríkisins. Um það kom fram verulegur ágreiningur, og af því að þessi frv. voru lögð fram samtímis, blönduðu menn þeim saman í umr. í Nd., þó að það sé, eins og ég gat um áðan, algerlega óþarft.

Ég væri því mjög hlynntur, ef hægt væri að stofna fyrirtæki, þar sem væri um að ræða helmingseign ríkisins á móti helmingseign einkaaðila. Einkaaðilar hafa starfrækt a. m. k. mjög myndarlegt fyrirtæki í þessari grein, Pharmaoc hf., við höfum átt mjög vinsamlegar viðræður við það fyrirtæki, og þar hefur einmitt komið fram þetta atriði, að þessir aðilar hafi dregið í efa, að þeir hafi bolmagn til þess að leggja fram helming hlutafjár í þessu fyrirtæki. Og sú breyting, sem þarna er gerð, er einvörðungu gerð í þessum tilgangi. Ef það liggur fyrir, að einkaaðilar vilja leggja fram eða geta lagt fram helming í þessu fyrirtæki, mun ég fúslega stuðla að því, að sú skipan verði, meðan ég gegni þeim störfum, sem ég gegni í ríkisstj. En ég hygg, að um þetta sé ekki neinn verulegur ágreiningur. Ef það er misskilningur minn, þá kemur það væntanlega fram í sambandi við störf hv. n.