14.11.1973
Neðri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins segja hér nokkur orð í sambandi við þær aths., sem hafa komið fram, um leið og ég þakka fyrir góðar undirtektir undir frv., enda vil ég vænta, þess, að full samstaða geti orðið um afgreiðslu málsins.

Hér hefur nokkuð verið minnst á það, hvort taka ætti fram í l., hvernig haga skuli ytri mörkum þessa lögsögusvæðis, þar sem um er að ræða minni fjarlægð á milli landa en sem nemur 400 mílum, þ. e. a. s. þegar þarf að koma við einhvers konar miðlínureglum. Þetta atriði var að sjálfsögðu talsvert athugað af þeim, sem sömdu frv., og ég get sagt það, að fram komu frá minni hálfu nokkuð svipaðar aths. við þetta og hafa komið fram hjá þeim hv. tveimur þm., sem hér hafa talað. En niðurstaða þeirra lögfræðinga, sem fjölluðu um gerð frv., eftir að þeir höfðu m. a. haft náið samráð við prófessora í lögum um þetta atriði, var sú, að þeir vildu mjög halda sig við það að hafa ákvæði eins og það er í frv., en sjálfsagt er að taka það til nánari athugunar.

Hér er um það að ræða, að réttur okkar er miðaður við það að fara allt að 200 mílum, og síðan kemur skýrt fram í grg., að beinlínis er gert ráð fyrir því, að til samkomulags þurfi að koma við aðrar þjóðir í þeim tilvikum, þegar þessi regla verður að teljast óeðlileg í framkvæmd, að fara alveg út í 200 mílur, og vitnað til þess að fara þá samkv. þeim reglum, sem verða að teljast alþjóðlegar reglur í slíkum tilfellum. En eins og kom hér fram hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, liggja nú fyrir athuganir á alþjóðavettvangi einmitt um það, hvernig með þessi mál skuli fara, hvaða reglur skuli um þetta gilda. Það getur verið varasamt að ákveða í lögum hjá okkur, að það skuli gilda miðlínuregla gagnvart öðrum löndum, því að ekki verður því neitað út af fyrir sig, að Jan Mayen er land, þó að mikill vafi sé á því, að til þess geti komið að miðlínuregla eigi að gilda á milli Íslands og Jan Mayen, þegar til þess þarf að taka að setja reglur um það.

Niðurstaðan hefur því orðið sú, að rétt væri að hafa orðalagið eins og það er í frv. gr., miðað við rétt allt að þessari fjarlægð, en taka hins vegar skýrt fram, að það er gengið út frá því, að í þessum tilvikum hljótum við að fara samkv. þeim reglum, sem þá verða að teljast alþjóðlegar varðandi atriði eins og þetta, og að leitað verði samninga við viðkomandi þjóðir. En það er sjálfsagt að taka þetta til nánari athugunar í þeirri n., sem málið fer til.

Það verður að vera alveg skýrt, að það er einnig samkv. okkar lögum um tvennt að ræða: Annars vegar eru landgrunnsréttindi okkar, þ. e. a. s. samkv. l. frá 1969, sem eingöngu varða rétt okkar til nýtingar á landgrunnsbotninum eftir hinum almennu skýringum á landgrunni og rétti strandríkja til nýtingar á botni. Þau takmörk, sem þar gilda samkv. okkar l. eru aðeins hagnýtingarmörkin. Við höfum samkv. þeim 1. rétt til landgrunnsbotnsins svo langt út sem hagnýtingarmöguleikar okkar leyfa. En ákvæði þeirra l.. snerta ekki á neinn hátt landgrunnsl., sem varða fiskveiðar, sem varða réttinn yfir hafinu, frá árinu 1948, okkar gömlu landgrunnslög, sem varða aðeins rétt okkar til lögsögu á hafsvæði því, sem markast af landgrunninu, eða eins og segir: innan endimarka landgrunnsins.

Ég hygg, að allir geti verið sammála um, að það sé vægast sagt hæpið af okkur að ætla að gera ráðstafanir í fiskveiðiréttarmálum með tilvísun til landgrunnsl. frá 1948 og telja, að það, sem þar er talað um innan endimarka landgrunnsins, heimili okkur t. d. að setja fiskveiðireglur 100 mílur frá landi eða svo. Um þetta atriði hafa ýmsir aðilar fjallað áður, og það hefur verið niðurstaða þeirra, að það væri meira að segja mjög vafasamt, að íslenskir dómstólar litu svo á, að réttur okkar samkv. landgrunnsl. næði langt út fyrir 50 mílur. Í allítarlegri grg. um landgrunnið, sem samin var af sérstakri n. og einum íslenskum haffræðingi, sem í þeirri n. starfaði, var einmitt komist þannig að orði, að þar var talið, að samkv. þessari skilgreiningu ætti Íslendingum að vera stætt á því að færa landhelgismörk sín út í 50 mílur samkv. þessari gömlu skýringu, sem sú lagasetning hvíldi á. En hér er vikið út frá því að binda sig við landgrunnsmörk og því bætt við, að það geti einnig verið um að ræða rétt til þess að setja fiskveiðireglur á hafsvæðinu allt að 200 sjómílum frá landi.

Ég vil svo aðeins taka undir það, sem hér hefur komið fram í þessum umr., að hv. sjútvn., sem fær málið til athugunar, athugi það, sem hér hefur verið bent á í þessum efnum, þannig að eins vel verði gengið frá öllu orðalagi varðandi málið og tök eru á. Og ég vænti þess, að þegar n. síðan hefur fjallað um málið á þeim grundvelli, þá geti hér orðið fullkomin samstaða um afgreiðslu málsins.