14.11.1973
Neðri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fagna því frv., sem hér liggur fyrir. Ég hafði orð á því, þegar ég kom heim af fundi hafsbotnsnefndar í sumar, að það mundi vera orðið tímabært fyrir okkur að setja mjög fljótlega löggjöf um 200 mílna efnahagslögsögu, og færði þá sérstök rök fyrir því, sem ég sé ekki ástæðu til að endurtaka hér. Ég taldi, að það mundi veita okkur sterkari aðstöðu til þess að berjast fyrir málinu á alþjóðlegum vettvangi að hafa áhrif á aðra, ef við setjum slíka löggjöf. Nú er með því frv., sem hér liggur fyrir, stigið veigamikið spor í þá átt, þar sem heimilað er að koma hér á 200 mílna fiskveiðilögsögu, þó að það verði ekki gert í einum áfanga. Og það má vel vera, að það sé rétt og skynsamleg aðferð að fara þannig að, að breyta þeirri löggjöf, sem fyrir er um það efni, í þetta horf. Ég mundi hins vegar, a. m. k, fljótt á litið, hafa talið heppilegar, að þetta yrði gert í öðru formi eða það yrðu sett ný og sérstök lög um 200 mílna efnahagslögsögu. Það byggi ég á því, að á alþjóðlegum vettvangi hefur staðið mikil deila annars vegar um auðæfin, sem eru í hafsbotninum, og hins vegar auðæfin, sem eru yfir hafsbotninum, þ. e. hinar lifandi verur, fiskinn. Það er þegar komin viðurkenning fyrir því hjá mörgum þjóðum, að þær vilja ganga mjög langt hvað það snertir, að lögsagan yfir auðæfunum í hafsbotninum sé sem víðust. Þannig lýstu Bretar því yfir á síðasta hafsbotnsnefndarfundi, að þeir væru fylgjandi 200 mílna lögsögu hvað snertir auðæfin í hafsbotninum, og þar til viðbótar, ef það væri landgrunn fyrir utan 200 mílurnar, þá ættu auðæfin þar einnig að tilheyra strandríkinu hvað botninn snertir. Hins vegar vilja Bretar ekki viðurkenna nema 12 mílna fiskveiðilögsögu. Þetta hefur sem sagt verið stefna þeirra ríkja, sem eru okkur andstæðust i landhelgismálinu. Þau geta vel fallist á víða hafsbotnslögsögu, sem snertir auðæfin í hafsbotninum, en þrönga fiskveiðilögsögu.

Barátta okkar Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi hefur framar öðru verið fólgin í því að láta sömu reglu gilda um auðæfi yfir hafsbotni, þ. e. a. s. um fiskinn, og um auðæfin í hafsbotninum. Og t. d. þær till., sem við fluttum á þingi Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári, beindust fyrst og fremst að því að tengja saman réttinn til auðæfanna i hafsbotninum og auðæfanna, sem eru yfir hafsbotninum. En eins og ég sagði áðan, hefur af hálfu andstæðinga okkar stefnan verið sú að aðskilja þessi auðæfi í sundur, þannig að það verði víðari lögsaga, sem snertir hafsbotninn, heldur en sú, sem snertir yfirráðin yfir auðæfunum yfir hafsbotninum. Þess vegna held ég, að það hefði verið hyggilegra að farið af okkur að setja um þetta sérstök lög, þar sem rétturinn yfir auðæfunum bæði í hafsbotninum og yfir honum væru tengd saman.

Í framhaldi af því tek ég undir það, sem kom hér fram hjá hv. 5. þm. Reykv., að mér finnst það mjög athugandi, ef við afgreiðum þetta mál i því formi, sem það er nú, þ. e. sérstök lög um fiskveiðilögsöguna, að þá verði ákvæðunum um þau lög, sem gilda um auðæfin i hafsbotninum, breytt i sama form, þannig að við höfum sams konar ákvæði hvað snertir auðæfin í hafsbotninum og auðæfin yfir hafsbotninum. Ég held, að það sé sú stefna, sem við verðum að leggja megináherslu á á alþjóðlegum vettvangi, eins og við höfum gert hingað til, að rétturinn yfir þessu hvoru tveggja verði tengdur saman, en ekki aðskilinn, því að hættan er sú, ef hann verður aðskilinn, að það styrki þær þjóðir, sem berjast fyrir þrengri fiskveiðilögsögu.

Ég vil þess vegna beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til athugunar, að gefa því verulegan gaum, hvort við eigum ekki að haga okkar löggjöf þannig og það sé sterkast fyrir okkar baráttu á alþjóðlegum vettvangi, að það gildi sömu ákvæði um auðæfin í hafsbotninum og auðæfin yfir honum, en þetta sé ekki aðskilið í íslenskum lögum, því að það verður áreiðanlega eins og hingað til eitt aðalmarkmið okkar eða aðalbaráttumál okkar á Hafréttarráðstefnunni, að þessi auðæfi séu ekki skilin sundur og það gildi það sama um þau hvor tveggja.