14.11.1973
Neðri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég held, það sé fyllilega tímabært að breyta landgrunnsl. í þá átt, sem gert er í þessu frv., og ég felli mig vel við þá aðferð. Ég held, að það sé jafnvel réttara að hafa heimildir í þeim lögum varðandi allt það, sem snertir okkar rétt til fiskveiða. Nýtingarmörkin í 1. frá 1969 eiga hins vegar miklu betur við um það, sem sú löggjöf fjallar um, og ég held þess vegna, að það eigi að vera í sérstakri löggjöf.

Mér fannst líka athyglisvert það, sem hv. 8. landsk, þm. upplýsti í ræðu sinni, og er á sama máli og hann um það, að viðfelldnara væri, að ákvæði okkar um skilgreiningu á landgrunnssvæðinu væru ekki fortaklaust á þann veg sett, að hægt væri að segja, að við gengjum á rétti annarra aðila, eins og Færeyinga og Grænlendinga, með okkar lagasetningu. Þó að hæstv. ráðh. segi, að þegar þar að kæmi, væri hægt að leysa slíka árekstra með samkomulagi, er það varla unnt með samkomulagi andstæðusettri löggjöf Íslands, nema með því að breyta henni, og mér fyndist óskemmtilegt að þurfa að þoka lagaákvæðum til baka, vegna þess að aðrar þjóðir segðu, að við hefðum gengið á rétt sinn með lagasetningunni, með of fortakslausri lagasetningu um landgrunnsskilgreiningu, sem alls staðar væri 200 sjómílur frá grunnlínum. Enda held ég, að auðvelt sé að komast hjá þessu strax með lagasetningunni nú, t. d. með svohljóðandi viðbót: „Þó telst landgrunn Íslands aðeins að jafnlengdarlínu milli Íslands og Grænlands og Íslands og Færeyja. Mörkin væru að öllu öðru leyti 200 sjómílur frá grunnlínum, með þessari undantekningu. Mér fyndist skemmtilegra að setja það strax, til þess að þurfa ekki að þoka neitt til baka með það síðar vegna réttar annarra aðila. Ég mun a. m. k. óska þess, að hv. n., sem málið fær til meðferðar, athugi, hvort við ættum ekki strax að setja þau takmörkunarákvæði, sem við getum búist við að þurfa að setja siðar vegna réttar annarra ríkja varðandi fiskveiðilögsögu.

Að öðru leyti skal ég lýsa því yfir, að ég er fylgjandi þessu frv. og tel fyllilega tímabært, að lagaákvæðum sé breytt á þann veg, sem þetta frv. stefnir að.