14.11.1973
Neðri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Ég skal segja það, að ég fyrir mitt leyti mundi fella mig vel við, að það kæmi fram á alveg ótvíræðan hátt, að hér væri ekki um að ræða frekari heimild en sem næmi miðja vegu milli Íslands og Grænlands og Íslands og Færeyja. Um það er ábyggilega enginn ágreiningur og sjálfsagt að athuga það, hvort ekki sé rétt að taka það skýrt fram í l. sjálfum. En það þyrfti auðvitað ekki, þótt um samkomulag væri að ræða, að breyta l., því að hér er aðeins heimilt að fara allt að 200 mílum, það skyldar okkur enginn til þess að fara alls staðar út í 200 mílur samkv. þessum l., svo að við þyrftum auðvitað ekki að breyta þeim, þó að um samkomulag væri að ræða. En ef það væri á einhvern hátt hægt að túlka það þannig, að við værum að ganga á rétt annarra, er vitanlega sjálfsagt að forðast allt slíkt.

En varðandi þá hugmynd, sem hér kom fram hjá hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, vil ég segja það, að ég tel heldur hæpið, en sjálfsagt er að hugleiða, hvort rétt væri að fara inn á þá braut. Ég held, að það sé býsna hæpið af okkur að slengja hér saman í eina löggjöf ákvæðum varðandi auðlindalögsögu almennt á þessu stigi. Það er að vísu rétt, sem hann sagði, að helstu andstæðingar okkar í landhelgismálinu, í fiskveiðiréttarmálum, berjast mjög fyrir því að hafa sem allra víðáttumesta heimild til hagnýtingar á landgrunnsbotni, og það stendur ekki á þeim að samþykkja botnsákvæði út í 200 mílur eða jafnvel enn lengra frá landi, því að það eru þeir, sem hafa mesta möguleika. á því sviði. En það eru margir samherjar okkar, sem við verðum vissulega að styðjast við í okkar landhelgismálabaráttu, sem eru ekki jafnhrifnir af þessari reglu. Þar koma fjöldamargir aðilar, einkum fulltrúar frá hinum fátækari þjóðum, sem eiga mjög erfitt með að taka undir þá reglu, að eitt og hið sama eigi að gilda um réttinn varðandi hafsbotninn, til nýtingar hans, eins og rétt til auðæfanna í sjónum. Ég held, að það sé ekkert, sem kalli á það á þessu stigi málsins hjá okkur að fara að tvinna þetta tvennt saman og gæti aðeins orðið til þess að valda óánægju í hópi sumra þeirra, sem við viljum vissulega vinna með í okkar landhelgismálum. Ef við setjum hér lagaákvæði, sem ætla okkur á skýran hátt réttindi varðandi fiskveiðar allt út í 200 mílur, því að það er það, sem okkur varðar, þá hefur það náð tilgangi á því sviði, en svo höfum við aðra löggjöf, sem ætlar okkur í rauninni ótakmarkaðan rétt til nýtingar hafsbotnsins eða svo langt út sem botninn verður hagnýttur, þá sé ég ekki endilega nauðsyn á því, að við förum á þessu stigi að tvinna þetta saman og setja sérstök lög í þessu formi. Ég segi þó í þessu máli, eins og sagt hefur verið: ég áskil mér rétt til að snúast í málinu, ef ég fæ nýjar upplýsingar, og sjálfsagt er að skoða það, ef eitthvað annað kemur fram, sem upplýsir frekar í málinu. Um þetta hefur auðvitað verið hugsað talsvert, og niðurstaðan er sú, að það sé ekki hentugt að tvinna þetta saman að svo komnu máli. Við náum því, sem við stefnum að í þessum efnum, best á þennan hátt, sem hér er lagt til með þessu frv.

Ég mæli sem sagt með því, að sjútvn. taki til athugunar þá hugmynd, sem kom fram hjá hv. þm. Þórarni Þórarinssyni um þetta atriði.