14.11.1973
Neðri deild: 22. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Vegna ummæla í ræðu síðasta ræðumanns verð ég að segja, að ég skildi ekki svar hæstv. forsrh. á þann veg, að það þyrfti að leita til neinna yfirvalda í landi, ef þannig stæði á, að brotlegur breskur togari reyndi að koma sér undan varðskipi, heldur væri einmitt sú gerð hans sama sem hans sekt gagnvart útstrikun af listanum. Þannig skil ég það, og þar sé þó úrslitavald í því tilfelli hjá þeim mönnum varðskipsins, sem mælinguna framkvæma.

Kannske er nú ekki rétt af mér að vera neitt að ræða mælingar hér, þegar kennarinn úr Vestmannaeyjum er búinn að upplýsa okkur um það, að jörðin sé kringlótt, og er ekki dónalegt að fá að vita um það.

Það kemur hins vegar í ljós í svari hæstv. forsrh. við minni fsp., að það eru einmitt mörg slík atriði, sem hafa alls ekki verið rædd, þegar þetta samkomulag var gert í London. Og það, sem ég óttaðist strax, þegar þetta var lagt fyrir okkur í þingflokki Sjálfstfl., voru m. a. slíkir agnúar, sem gætu stofnað til stórkostlegra átaka á milli aðila á miðunum hér heima, þannig að þeir, sem hafa haldið, að þeir væru að losa okkur undan slíkum átökum, gætu átt von á þeim enn þá magnaðri á eftir, vegna þess að það er oft og tíðum, að árekstrar vegna hinna minni, þýðingarminni atriða valda þeim. Það er ekki eingöngu hin stærri brot, hvort þeir séu fyrir innan línu eða ekki. Þegar ég benti í mínum þingflokki á nauðsyn á eftirliti veiðarfæra, og það var farið með það fyrir forsrh. og utanrrh., þá vissi ég auðvitað og veit, að það er til samkomulag um þetta, að það er heimilt að skoða veiðarfæri hjá hvorum öðrum. En það hefur ekki verið hægt að framkv. þetta gagnvart Bretum og Vestur-Þjóðverjum vegna átakanna við þessar þjóðir á undanförnu ári. Þar að auki er mjög lítið gert að því gagnvart öðrum aðilum, kannske vegna þess, að við höfum ekki haft skip og menn til þess að framkvæma þetta. En ég er alveg sannfærður um það, eftir að þetta samkomulag hefur verið gert og Bretar koma inn fyrir og fara að veiða, ef okkar varðskip, — við skulum segja okkar rannsóknaskip, sem ég hélt, að hefðu ærið nóg að gera, þótt þau væru ekki sett í þetta líka, sem er þó kannske ekki minnsta verkefnið fyrir þau í framtíðinni, — þegar þau koma að og stöðva breskan togara, sem hefur tekið sín veiðarfæri upp og áður en því er kastað aftur og krefjast þess að skoða vörpuna, ég er alveg viss um, að þetta á eftir að kosta átök á miðunum, Þess vegna óskaði ég eftir því og hefði ekki talið, að það væri nein breyting á samkomulaginu sjálfu, þótt sameiginleg yfirlýsing væri gefin frá þjóðunum um það, að jafnframt yrði þessi samningur virkur á milli þeirra um virkt veiðafæraeftirlit, sem forðaði því, að viðkomandi aðilar, og þá okkar ekki síður en þeirra, því að þeir fá þá sömu réttindi til þess að skoða hjá okkar skipum. Og guði sé lof, að það kemst á, því að því miður eigum við enn þá aðila, sem ekki fylgja þessum l. Þetta eru atriði, sem ekki er ástæða til þess að ræða núna. En aðeins það, sem hæstv. forsrh. sagði, að Landhelgisgæslan er nú að athuga með ýmsa framkvæmd þessara atriða, sýnir, að um þessi atriði hefur ekki verið rætt, þegar samkomulagið var gert.

Hæstv. forsrh. minntist á það, að varðskip gætu sett út bauju á staðnum, til þess, að það tefðist ekki og þyrfti ekki að vera þar kyrrt. Ég benti á, þegar samkomulagið var til umr., að þetta virðist vera útilokað að gera, því að í kjölfar varðskipsins kemur breskt skip og tekur baujuna upp eða klippir á vírinn, þetta hefur verið gert hér á miðunum einmitt í yfirstandandi deilu, þannig að þetta er alveg hreint þýðingarlaust.

Það er rétt hjá hæstv. forsrh. og ég er sammála um það, að friðunarsvæðin, bátasvæðin sérstaklega fyrir Vestfjörðum og Austurlandi, þetta kallar auðvitað á það, að við þurfum í ríkara mæli að nota flugvélar. Það er enginn vafi á því, að það kemur að því, að bæði á Austfjörðum og eins á Ísafirði þarf að vera staðsett vél frá Landhelgisgæslunni, vegna þess að yfir vetrarmánuðina geta komið þeir tímar á degi hverjum, að það sé hægt að skjótast þaðan í eftirlitsflug, þótt ekki sé hægt að fljúga frá Reykjavík upp á það að ná aftur þangað með fullu öryggi.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég sagði frá því í minni fyrri ræðu, að ég mun fylgja málinu að sjálfsögðu. En að lokum þetta: Það hefur komið fram áður og kemur fram enn, að það hafi verið full ástæða til þess, að forustumaður breska togaraauðvaldsins, sem hefur nokkrum sinnum komið hér upp í umr. um samkomulagið, og reyndar forustumaður yfirmanna á togurum í Bretlandi líka, þeir létu hafa eftir sér í viðtali, sem blaðamaður Morgunblaðsins átti við þá, aðeins þetta ásamt nokkrum ómerkilegum orðum: „Bless you, my friends“. Og vinirnir voru að sjálfsögðu þeir, sem að samkomulaginu stóðu. Því segi ég að lokum: Í þetta vantaði aðeins, að nokkur nöfn hefðu verið nefnd, eins og t. d.: Bless you my friend Mr. Árnason, bless you, my friend Mrs. Jakobsdóttir, bless you, my friends, your exellences Lúlli & Maggi.