15.11.1973
Efri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

71. mál, lögheimili

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. er hér fram komið. Eins og fram kom í ræðu hæstv. félmrh., er það mjög nauðsynlegt í þessu falli að koma á þeim frestum, sem gert er ráð fyrir í þessu lagafrv. Ég tel einnig, að það sé eðlilegt, að Vestmannaeyjakaupstaður fái að njóta skatta Vestmanneyinga, eftir því sem föng eru á, á þeim tíma, sem líður til þess, að séð er með nokkurri vissu, hversu margir flytjast út til Vestmannaeyja aftur. Ég vil leggja á það áherslu, að það er mjög mikilvægt, að sem minnst röskun verði samfara þeim búferlaflutningi, sem varð, þegar eldgosið kom upp í Vestmannaeyjum, og til þess tíma, að byggðin þar hefur náð sér nokkurn veginn á nýjan leik. Mér sýnist, að það frv., sem hér er lagt fram, eigi og muni stuðla að því, að svo verði. Eigi að síður langar mig til að koma því á framfæri, að ég er þeirrar skoðunar, að eðlilegra væri og rétt að hafa þennan frest ívið lengri heldur en gert er ráð fyrir í frv., þar sem gert er ráð fyrir, að hann sé til 1. júní 1974. Ég hygg, að það væri heppilegra og eðlil. að lengja þann frest, t. d. til 1. nóv., og það mundi ekki í neinu falli þurfa að skaða, því að uppbygging þjóðskrárinnar er miðuð við 1. des. og nóvembermánuður ætti að verða nægilegur tími til þess, að þær tilkynningar um dvalarskipti, sem menn hefðu af sjálfsdáðum ekki hirt um að tilkynna, gætu komist til þjóðskrárinnar í tíma. Ég held, að það sé eðlilegt að kanna, hvort ekki megi lengja þennan frest með sérstöku tilliti til þess, að það er erfitt að segja til um á þessu stigi, hversu langan tíma það tekur að gera aðstöðuna þannig úr garði í Vestmannaeyjum fyrir íbúana, að þeir geti flust út. Það er erfitt að segja til um það eins og er, en því lengri sem fresturinn er, því öruggari vissu hefur fólkið um það, hvort það hefur aðstöðu til þess að flytjast út aftur eða ekki. Ég sé ekki, að þó að fresturinn yrði framlengdur til 1. nóv., mundi það skaða á neinn hátt. Ég vildi óska eftir því, að félmrn. tæki þetta til athugunar við meðferð málsins.