15.11.1973
Efri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

71. mál, lögheimili

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil þakka hv. 6. þm. Sunnl. fyrir góðar undirtektir hans undir þetta frv. Varðandi tímamörkin, sem sett eru í 2. gr. frv., er það að segja, að þegar þetta mál var til athugunar í félmrn., sýndist mönnum það vera nokkurt álitamál. hvað þessi frestur ætti að vera langur, og ég vil engan veginn segja, að í mínum augum eða rn. sé það nein heilög dagsetning að segja 1. júní, og hef síst á móti því, að hv. félmn. athugi gaumgæfilega, hvort réttara er að hafa þennan frest eitthvað lengri. En það, sem kannske hvarflar að manni, er það, ef þessi frestur væri gerður óhæfilega langur, þá gætu farið að koma fram kröfur frá sveitarfélögunum í sambandi við ýmsa fyrirgreiðslu, þar sem viðkomandi sveitarfélag fer að lengja eftir ákvörðun um, hvort þeir ætla að ílengjast þar eða ekki, verða þar lögskyldir borgarar og greiðendur útsvara og annarra gjalda. Það kemur til álita, hvort mjög langur frestur eða mikið lengdur frá því, sem er í frv., gæti haft slík áhrif. En ég tel að ekki séu horfur á, að uppi verði miklar kröfur um þetta af hálfu einstakra sveitarfélaga. Sem sagt, hér er ekki um neitt úrslitaatriði að ræða, og ég vænti þess aðeins, að hv. félmrn. íhugi það vel, hvort önnur dagsetning væri þarna betur við hæfi, og mundi fyllilega geta fellt mig við það, ef það yrði samkomulag um breytingu í þá átt, sem hv. 6. þm. Sunnl. minntist á.