15.11.1973
Efri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 102 er frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á 10 fiskiskipum yfir 300 lestir. Þetta frv. var rætt við flokkana, áður en það var lagt fram hér á hv. Alþ., og virtist yfirleitt vera samstaða um það. Lög nr. 28/1972 um ótakmarkaða heimild til sams konar ábyrgðar og hér er farið fram á á vegum kaupa á skuttogurum hafa hins vegar ekki þótt nægileg heimild til þess að ganga í ábyrgð fyrir skip af því tagi, sem hér um ræðir. Ríkisstj. er hins vegar sammála um, að styðja beri að kaupum á 10 fiskiskipum til nóta- og togveiða með því að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum fyrir allt að því 80% af kaupverði skipanna.

Ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessu máli. Hér er fyrst og fremst verið að greiða fyrir kaupum á skipum vegna loðnuveiða. Og vegna þess að hraða þurfti málinu vegna þeirra, sem í kaupsamningum stóðu, var þetta, eins og ég sagði áðan, borið undir flokkana áður en málið var lagt fram.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.