15.11.1973
Efri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

46. mál, jarðalög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð um liðið, síðan þetta frv. var hér til meðferðar og hæstv. landbrh. mælti fyrir því hér í þessari hv. deild. Ég hafði þá kvatt mér hljóðs, en það hefur dregist nokkuð, að málið kæmist að til framhaldsumræðu, en ég hef óskað að segja um það nokkur orð.

Eins og fram kemur í grg. þeirri, sem frv. fylgir var það upphaf þess, að lagafrv. er fram komið, að Búnaðarþing mun hafa haft um það frumkvæði að óska eftir, að ýmsir lagabálkar varðandi landbúnaðinn yrðu endurskoðaðir. Með tilliti til þess skipaði landbrh., eins og kemur fram í grg., n. til að endurskoða þessi lög, og urðu það fjórir lagabálkar, sem hún fékk fyrirmæli um að taka til meðferðar í því sambandi.

Það má einnig sjá á grg., að n. hefur kynnt sér, hvernig staða þessara mála er í nálægum löndum, og er sagt frá því hér með frv.

Þetta frv., ef að l. verður, felur í sér æði miklar breytingar frá þeim lagafyrirmælum, sem í gildi eru nú, en sú breyting er gagngerust, sem viðkemur því, á hvern hátt staðið er að skipulagningu á jörðum í strjálbýlinu. Eins og málum er nú háttað, er það fyrst og fremst landnámsstjórn, sem hefur þessi mál með höndum, og hirði ég ekki að rekja það sérstaklega, hvernig hún hefur staðið að því. Þess gerist ekki þörf. Það hefur komið fram í ræðum manna varðandi önnur mál hér í þingi, hvernig því hefur verið háttað. En það er annað sem ég tel eðlilegt og rétt að láta koma hér skýrt fram, og það er það, að skipulagsmál, hvort sem þau eru í þéttbýli eða strjálbýli, eru skv. lögum til endanlegrar ákvörðunar hjá sveitarstjórn, og ég hygg, að það sé mjög eðlilegt og réttmætt, að því ráði sé haldið, að það séu fulltrúar, sem kosnir eru af almenningi, sem að síðustu segja til um það, hvernig skipulagi er háttað, hvort sem er í dreifbýli eða þéttbýli.

Ég verð að segja það, að í þessu lagafrv., sem hér liggur fyrir, þá sýnist mér, að þessi skipulagsmál í strjálbýlinu séu ekki tekin nægilega föstum tökum, ekki nægilega skýrt og greinilega, og hefði ég vænst þess, að það yrði þó gert, þegar þessi lög kæmu til endurskoðunar ekki síst fyrir þá sök, að það má heita, að það sé sama, hvers konar fundir eru haldnir, þar sem annaðhvort sveitarstjórnarmenn eða bændur eru saman komnir, þá hníga allar ræður að því, að nauðsynlegt sé að koma á ákveðnara og fastara skipulagi í þeim málum heldur en verið hefur til þessa. Og mér sýnist, eins og ég sagði áðan, að það lagafrv., sem hér er til umr., taki þessi mál allt of lausum tökum.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að landbrn. sé eins konar yfirskipulagsstofnun fyrir strjálbýlið, þar sem því er ætlað að halda skrá yfir allar jarðir og ábúendur jarða og það á að sjá um, að gerðir verði, eftir því sem aðstæður leyfa, uppdrættir að sveitum landsins, þar sem m. a. verði mörkuð landamerki jarða og land greint eftir notagildi landbúnaðar. Þetta er eins konar skipulagning á landinu, sem rn. er ætlað að sjá um, en ákaflega er þetta losaralegt að mínum dómi.

Þá er komið inn á skipulagsmálin einnig í 6. gr., frv., þar sem ætlast er til. um að byggðaráðin geri till. um úthlutun landssvæða til ræktunar, byggingar sumarbústaða og almennra útilífsnota, þar sem þörf er talin fyrir land í því skyni. Þar er gert ráð fyrir, að byggðaráðin hafi tillögurétt í þessum efnum. Án tillits til þess, hvaða verkefni byggðaráðin hafa að öðru leyti, þá sýnist mér, að þarna sé um lausatök að ræða og aðeins gert ráð fyrir því, að till. séu gerðar um þetta, en ekki nefnt til hvaða aðila sú tillögugerð á að vera.

Þá er einnig í 13. gr. talað um skipulagsmál í sveit. Þegar byggðaráð till. um skipulagsmál í sveit, skal það gert í samráði við Búnaðarfélag Íslands og hlutaðeigandi náttúruverndarnefnd.

Í þessum gr., sem ég hef hér minnst á, er komið inn á skipulagsmálin, og þau eru, að því er mér sýnist, í allt of lausu formi. Mig furðar á því, að það skuli ekki vera ákveðin fyrirmæli um það, að hvergi skuli vera um það getið sérstaklega, að að lokum séu skipulagsmálin þó til ákvörðunar hjá sveitarstjórn. Það teldi ég, að væri mjög eðlilegt. Hins vegar tel ég eðlilegt, að t. d. Búnaðarfélag Íslands eða einhver hliðstæð stofnun hafi sitt að segja um skipulagsmálin á bújörðum, en ég tel aftur á móti vafasamara, að þörf sé á því að bera slíka hluti undir náttúruverndarnefnd. Ég held það væri eðlilegra, að náttúrverndarnefndir öfluðu sér upplýsinga um það, hvernig skipulagsmálum væri háttað á hinum einstöku stöðum.

Ég tel, að í frv. þyrfti að ganga miklu betur frá þessum hlutum, eins og ég hef lítils háttar vikið að.

Ég furða mig ekki svo mjög á því, þó að ekki séu ákveðnari fyrirmæli um skipulagsmálin í þessu frv. en hér er vikið að, þar sem mér sýnist, að sú n., sem hefur samið það, þótt hún hafi átt viðræður við ýmsa aðila varðandi þetta viðfangsefni sitt, hafi ekki haft neitt samráð við landnámsstjórn um þetta atriði, og tel ég það gegna furðu, þar sem landnámsstjórn eða landnámsstjóri er sá eini aðili, sem einhverju verulegu ráði hefur fengist við að kryfja það til mergjar, á hvern hátt eigi að skipuleggja jarðeignir utan þéttbýlisstaða. Þetta þykir mér vera furðuleg afgreiðsla hjá n., og að sjálfsögðu verður ekki gengið þannig frá þessu lagafrv., að ekki verði leitað til þess aðila um umsögn um þetta atriði

Gert er ráð fyrir því í þessu frv., að það þurfi að setja reglur um sumarbústaði, og það er alveg rétt. Það hefur margsinnis verið á það bent að þess þurfi við, og það er fyllilega kominn tími til að gera það. Ég tel, að þá þurfi að setja miklu ákveðnari fyrirmæli um sumarbústaði í lög en nú er, og ég er ekki frá því, að þetta sé einmitt sá lagabálkur, þar sem þau ættu fyrst og fremst að koma inn í.

Ég er þeirrar skoðunar, að þar sem sumarbústaðir hafa komið upp skipulagslaust, hafi þeir og þau hverfi, sem þannig hafa myndast, víða orðið til þess að torvelda búskap á nærliggjandi jörðum og torvelda búskap á ótrúlega stóru svæði í kring. Ég hefði þess vegna talið mjög athugandi, hvort ekki hefði átt einmitt að setja ákveðnari fyrirmæli inn í þessi lög, þar sem þau virðast eiga að þjóna að verulegu leyti því að vera eins konar skipulagslög fyrir þéttbýlið einnig. En eins og ég hef þegar sagt, eru þessi fyrirmæli allt of losaraleg, að mér sýnist í þessu lagafrv.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv., að sett verði á stofn byggðaráð, sem svo eru kölluð, og er II. kafli frv. um byggðaráðin. Byggðaráðunum er ætlað viðamikið verkefni, sem nánar er skilgreint í þessum kafla, og tel ég ekki ástæðu til þess að fara út í það í einstökum atriðum að þessu sinni. Ég mun aftur á móti nota mér þann rétt, sem ég hef til þess að kryfja þetta mál allt til mergjar í þeirri n., sem lagt er til að málið gangi til, og mun þess vegna spara mér tíma að þessu sinni. Ég get þó ekki komist hjá því að benda á það, að í aths. með frv. er sagt, að hliðstæð byggðaráð séu í Noregi, og er það rétt. Í Noregi eru byggðaráð í hverju fylki. Í Svíþjóð eru einnig byggðaráð í hverju léni, en til þess ber þó að líta, að fylkin í Noregi og lénin í Svíþjóð eru harla stór. Ég veit ekki vel, hvað þau eru stór eða hvað innan þeirra eru margir bændur, en ég hygg, að þar séu ólíku saman að jafna og í sýslum hér á Íslandi, a. m. k. sumum þeirra.

Að vísu er ekkert í frv., sem bannar það, ef samkomulag er um, að láta byggðaráð ná yfir nokkru stærra svæði.

Einnig er bent á það í þessu lagafrv., að um leið og byggðaráð eru sett í sýslunum eftir þessum l., þá séu lagðar niður jafnmargar landnámsnefndir í landinu. Þetta er að sjálfsögðu rétt. En þarna er mjög ólíku saman að jafna, þar sem byggðaráðum er ætlað að vera mjög virk og hafa mikið starfssvið, og þau munu koma til með að vera með fingurinn á æði mörgum málum á hverju ári á sínum svæðum. Til þess er ætlast í frv., að kostnaður við störf þessara byggðaráða greiðist að hálfu af viðkomandi sýslu og búnaðarsambandi og að hálfu af ríkissjóði, og er gert ráð fyrir því, að landbrh. ákveði þóknun til byggðaráðsmanna.

Ég hygg, að það væri alveg andstætt þeirri reynslu, sem menn hafa af störfum nefnda og ráða, ef þarna verður ekki um verulegan kostnað að ræða. Aftur á móti er það svo, að landnámsn., sem fyrir eru á sams konar svæðum, hafa haft til þess að gera mjög lítil verkefni. Þær hafa aðeins verið ráðgefandi gagnvart landnámsstjórn um vissa, takmarkaða þætti skipulagsmálanna og verið, að ég hygg, að mestu eða öllu leyti ólaunaðar.

Ég hygg, að það sé líka með öllu óþarft að byggja upp byggðaráðin úti um allt land og það sé einnig óeðlilegt að fá þeim í hendur jafnmikið vald og ráð er fyrir gert í þessu frv. Það er meira en það, að það eigi að bera undir þau öll skipulagsmál í sveitum og ráðstöfun lands að því leyti til. Þau eiga einnig að gefa leyfi sitt til ráðstöfunar fasteigna, eins og það er nefnt í frv., og virðist mér, að það eigi jafnt við um leigu og ráðstöfun við eignaskipti. Eins og atvinnuháttum er nú komið, er tilflutningur fólks örari en áður. Það er á meiri hreyfingu en verið hefur, og ég hygg að hér verði um miklu fleiri mál að ræða en menn órar fyrir, þegar litið er fljótt yfir þetta sakleysislega frv. Verkefni þeirra er svo viðamikið, að t. d. í 11. gr. er gert ráð fyrir, að óheimilt sé að þinglýsa skjölum varðandi ráðstöfun eignar, sem lög þessi taka til, nema þau séu árituð af byggðaráði, og ég hygg, að það, sem hér hefur verið bent á, nægi til að sýna, hversu viðamikið og viðkvæmt það starf er, sem byggðaráðunum er ætlað að inna af hendi.

Ég er ekki að leggja til, að algert eftirlitsleysi sé með þessum hlutum. En ég hygg, að það séu fyrir í landinu þær stofnanir, sem séu fullfærar um að gefa yfirstjórn þessara mála fullkomnar upplýsingar og hollar ráðleggingar, og á ég þá sérstaklega við sveitarstjórnirnar, sýslunefndirnar og búnaðarsamböndin.

Ég verð að segja það, að ég tek till. um byggðaráðin með mjög mikilli varúð, svo að ekki sé meira sagt. Ég tel, að þau séu óþörf, og ég tel að þeim sé ætlað að vera með fingurinn á allt of mörgum málum og margvíslegum, til þess að ég sé tilbúinn að samþykkja þeirra erindisbréf í því formi sem frv. segir til um.

Þá langar mig aðeins að koma hér að öðrum hlutum í þessu sambandi. Það er um forkaupsrétt jarðeigna eða fasteigna, sem þessi lög eiga að ná til. Það er í 23 gr., sem gert er ráð fyrir því, að sveitarstjórn hvers sveitarfélags, sem eign er í, sem boðin er til sölu, eigi að henni forkaupsrétt, nema í vissum tilvikum, sem eðlileg eru. Þetta ákvæði er í l., og undan því hefur verið kvartað, að það hafi verið erfitt fyrir sveitarfélögin að hagnýta sér þennan kauparétt, og þannig mun það nú vera, að í æðimörgum tilfellum er það erfiðleikum bundið. En ég sé ekki, að það frv., sem hér liggur fyrir til umr., leysi þann vanda að neinu marki. Það er að vísu gert ráð fyrir því, að Jarðasjóður, sem gert er ráð fyrir að efla, hafi heimild til þess að aðstoða sveitarfélög við að ná eignarhaldi á jörðum, og er út af fyrir sig ekki nema gott um það að segja og mikilvægt, að sveitarfélögin geti snúið sér til einhvers ákveðins aðila um fyrirgreiðslu til þessara hluta. En ég sé ekki betur en að hann sé alls ófær um að veita þarna nokkra aðstoð, sem talandi er um, eins og ætlast er til að byggja Jarðasjóð upp. Jarðasjóði er ætlað að kaupa jarðir fyrir ríkissjóð, og honum er einnig ætlað að vera sveitarfélögunum til aðstoðar í þessu efni. En það fjármagn, sem Jarðasjóði er ætlað, sýnist mér ekki vera nema 12. millj. kr. á ári, og með þeirri verðþenslu, sem er, og því verði, sem almennt er á jörðum, hygg ég, að þessi upphæð muni ná skammt. Það er því enginn vafi á því, að þetta atriði þarfnast nánari athugunar.

Þá er gert ráð fyrir því, að ákvæði frv. þessa um forkaupsrétt komi ekki til framkvæmda í vissum tilvikum, eins og ég gat um áðan. Ég hygg, að það sé röng stefna, sem kemur fram í 28. gr. frv., þar sem segir í 2, lið, að ákvæði þess um forkaupsrétti komi ekki til framkvæmda, þegar ríkissjóður ráðstafar fasteignaréttindum. Mér finnst, að það þyrfti að athuga, hvort ekki ætti að vera í l. eitthvað um það, að sveitarfélögin ættu forkaupsrétt, jafnvel þó að það sé ríkissjóður, sem selur, ef hann ætlar á annað borð að fara að selja fasteign. Alla vega ættu þau að gefa umsögn um slíkar sölur. Ég tel, að þetta atriði þurfi að athuga nánar.

Það er gert ráð fyrir því í 31. gr. frv., að ábúendur ríkisjarða og jarða í eigu opinberra stofnana og sjóða hafi rétt til að fá ábúðarjarðir sínar keypta.r, ef þeir fullnægja tilteknum skilyrðum. Þar er m. a., að þeir hafi búið minnst 10 ár á jörðinni og þeir ætli að gera jörð sína að óðali og þar fram eftir götunum. Ég hef ekkert við þetta að athuga. En í þessari lagagr. segir svo á einum stað, „að námaréttindi og réttur til efnistöku skulu undanskilin sölu, sömuleiðis vatns- og jarðhitaréttindi umfram heimilisþörf, ásamt nauðsynlegri aðstöðu til að hagnýta þau réttindi“.

31. gr. sem sagt gerir ráð fyrir því, að það sé heimilt að halda eftir ýmsum hlunnindum, sem jörðinni fylgja. Ég sé ekki, að þetta sé eðlilegt, og ég sé ekki heldur, að þetta sé í samræmi við aðrar gr. í þessu frv., og vil ég þá sérstaklega benda á 42. gr., sem fjallar um óðalsjarðir, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Þegar jörð er gerð að ættaróðali, skal skylt að láta fylgja henni hlunnindi og annað það, er jörðinni hefur fylgt og jarðeigandi á, enn fremur afurðir, sem framleiddar eru á jörðinni“ o. s. frv.

Þarna sýnist mér að stangist algerlega á þessar tvær greinar, og ég fyrir mitt leyti er ekki í vafa um það, að ég tel sjálfsagt að halda ákvæði 42. gr., en fella niður það, sem um þetta er sagt í 31. gr.

Ég þarf ekki að vera ýkja margorður um þetta lagafrv. umfram það, sem ég hef þegar sagt um það, og þá með sérstöku tilliti til þess, að ég hef tækifæri til þess að ræða þessi mál frekar og koma að sjónarmiðum í þeirri n., sem frv. fær til athugunar.

En þó eru hér eitt eða tvö atriði enn, sem ég vil koma lauslega að, og það er enn um sölu á jarðeignum. Það er sagt t. d., að við ákvörðun kaupverðs skuli af hálfu kaupanda höfð hliðsjón af gangverði hliðstæðra jarða, sé þess kostur, og fjármunum þeim, sem eigandi hefur lagt í jörðina. Náist ekki samkomulag um kaupverð, er hvorum aðila um sig heimilt að óska mats á jörðinni samkvæmt ákvæðum 39. gr. Þetta er að því er varðar sölu til Jarðasjóðs. Enn fremur er gert ráð fyrir í 37. gr., að ef ekki náist samkomulag um verð milli Jarðasjóðs og kaupanda, sé hvorum aðila um sig heimilt að óska mats n. þeirrar, sem starfar samkv. 39. gr., en þar er gert ráð fyrir því, að landbrh. skipi 3 menn í n. til fjögurra ára í senn til að meta kaupverð jarða, sem Jarðasjóður áformar að kaupa og mats er óskað á.

Á fleiri stöðum í frv., þar sem fjallað er um kaup og sölu, er gert ráð fyrir því, að það megi krefjast mats og að matið megi jafnvel ekki taka mið af gangverði á fasteignum, þótt vitanlegt sé að hægt sé að fá það fyrir þær við sölu. Ég tel að þetta ákvæði sé mjög varhugavert og vafasamt sé, að það geti staðist. Það er getið um það í 37. gr., að sé söluverð eignar óeðlilega hátt miðað við líklegt raunverð að áliti byggðaráðs, geti forkaupsréttarhafi krafist mats dómkvaddra manna á eigninni, og gildir það þá sem söluverð. Það er öllum vitanlegt, að mikil þensla í þessum efnum getur verið hættuleg og afdrifarík, en þó eru takmörk fyrir því, hvað langt á að ganga í því að mínum dómi að taka fyrir sjálfsforræði þeirra, sem eignir eiga. Ég hygg t. d., að það þætti ekki eðlilegt um eign, sem stendur í þéttbýli, að það yrði sett í lög, að verð hennar skyldi fært niður svo og svo mikið, ef það þætti óeðlilegt, að hún gæti hækkað svo í verði fyrir tilverknað þess, sem eignina á. Ég lít til þess, að í ýmsu þéttbýli hafa verið seldar gamlar húseignir, en ef húsin standa á lóðum, sem eru taldar vera mikilvægar, þá hafa þessar eignir gjarnan margfaldast í verði á fáum árum, og ég hef aldrei heyrt því fleygt, að það væri nauðsynlegt að setja um það lög, sem ganga á móti þessari þróun. Ég vil þess vegna vara við því, að þetta verði gert í sambandi við bújarðir.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því einnig, að til þess að fá að kaupa jörð eða búa á henni þurfi viss skilyrði, og það er ekki nema eðlilegt, að svo sé. Í Danmörku eru um þetta ákveðin skilyrði. Ég man, að hæstv. landbrh. minntist á þau í sinni ræðu, og hér eru sett fram nokkur slík. Ég held, að það þyrfti að skoðast, hvort ekki væri ástæða til að koma þar inn í einhverju formi einu skilyrði, sem er mér mjög mikið áhugaefni, að gæti orðið virkt, og það er, að hver sá maður, sem vill stunda búskap á Íslandi, hefði til þess tilhlýðilega menntun. Ég veit, að þetta er dálítið erfitt og viðkvæmt að taka á, en ég tel, að sé mjög nauðsynlegt, og það verður því nauðsynlegra sem landbúnaðurinn verður margslungnari, sem hann óhjákvæmilega verður eins og aðrar atvinnugreinar í landinu.

Herra forseti. Ég ætla nú að fara að stytta mál mitt. En ég vil að lokum aðeins segja það, að ég sé ekki, að ég geti mælt með því, að frv. gangi fram í þeirri mynd, sem það er hér sett fram. Ég hef reynt að skýra það í nokkru í þessum orðum, sem ég hef hér látið falla um það. Ég sé ekki, að það sé nein knýjandi ástæða til þess að fella úr gildi þau lög, sem gilda um landnámsstjórn og landnám ríkisins, sem er sá eini aðill, sem til þessa hefur verið falið að sjá um skipulagsmálin í strjálbýlinu. Ég sé ekki heldur, að það sé nein ástæða til þess — og það er áreiðanlega rangt — að ganga fram hjá sveitarstjórnunum í þessu efni, sem eru og eiga að vera hinn endanlegi ákvörðunaraðili um skipulagningu á landi. Ég sé ekki, að það fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir að leggja niður, landnámsstjórn og Landnám ríkisins, en fella verkefni þess undir eitt rn., verði til hagsbóta fyrir strjálbýlið í landinu.

Ég mun beita mér fyrir því í landbn., að þetta frv. verði sent til umsagnar til margra aðila, m. a. til sveitarstjórna í landinu, því að svo mjög sem þetta tekur inn á verksvið þeirra, þá er nauðsynlegt, að álit þeirra liggi fyrir um það, hvernig þær vilja ráðstafa þessum málum, svo mikilvæg sem þau eru fyrir þau.