15.11.1973
Efri deild: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

46. mál, jarðalög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að lengja þessar umr. neitt verulega, en ég sé ástæðu til að minnast hér á 3–4 atriði í tilefni af orðum hæstv. landbrh.

Hann telur, að með þessum lögum sé engin breyting á orðin, að skipulag á strjálbýlinu muni vera hjá sveitarstjórnunum eins og áður, og vitnaði þar til 6. gr. Það er alveg rétt, að í 6. gr. er gert ráð fyrir því, að byggðaráðin komi með ábendingar og tillögugerð til sveitarstjórna. Aftur á móti er ekkert um það, að sveitarstjórn sé þar ákvörðunaraðili. Ég sé ekki betur en að á sama hátt sé byggðaráðinu gert að hafa samstarf við ýmsa aðra aðila, svo sem Búnaðarfélag Íslands og náttúruverndarnefnd. Ég tel, að með þessum hætti séu skipulagsmálin gerð mjög þung í vöfum og erfiðara og seinlegra að komast að niðurstöðu um þau heldur en vera ætti, og ég tel, að það standi óhaggað, sem ég gerði hér áður, að skipulagsmálin í þessu frv. eru tekin langtum lausari tökum en ég teldi æskilegt og eðlilegt, að verið hefði.

Í öðru lagi hafði hæstv. ráðh. orð á því, að mér hefði ekki þótt nægilega vel að málum staðið að hækka framlag til Jarðasjóðs um 100%. Það er rétt, að ég viðhafi þau orð, Það væri mjög myndarlega og meira en ég get vænst, ef verksviðið væri óbreytt. En ég vil halda því fram, að það sé þýðingarlaust að setja l. um það, að ríki eða einstökum sjóðum sé ætlað eitt og annað verkefni, og ekki séð fyrir þörfum um leið. Þá er sá lagabókstafur, sem verið er að setja, dauður og ómerkur. Og það kann að vera, að Jarðasjóður geti með einhverjum hætti stutt að sveitarstjórnunum, þó að hann hafi ekki meiri fjárráð en þetta, en ég dreg það þó mjög í efa.

Í þriðja lagi langar mig aðeins til að koma inn á það, sem ég minntist á hér um ósamræmið á milli 31. og 42. gr. um hlunnindi af námuréttindum, þar sem Jarðasjóður má halda eftir, þegar hann selur jörð. Ég gagnrýndi þetta og geri það enn. Það, sem ég lagði sérstaka áherslu á, er ósamræmið, sem er í frv., því að í 42. gr. er tekið fram, að það megi ekki skilja hlunnindi undan jörð, þegar hún er gerð að óðali, svo og annað það, er jörðinni hefur fylgt og jarðeigandi á. Það er ekki síst þetta, sem ég var að gagnrýna. Hitt einnig, að ég tel, að það sé alveg höfuðnauðsyn, að þessi hlunnindi eins og önnur fylgi, sem og 31. gr. gerir ráð fyrir.

Að lokum vil ég benda á, að það kom fram hjá hæstv. ráðh., að það þyrfti fyrst og fremst að tryggja það, að landið þjónaði landbúnaðarframleiðslunni. Það er alveg rétt. En ég dreg mjög í efa, að það sé gert fyrst og fremst með því að hafa miklar hömlur á verðlagsþróun landbúnaðarvara umfram það, sem gerist í öðrum atvinnugreinum. Ég hygg, að ef ekki verður viðurkenndur á sama hátt og í öðrum atvinnugreinum fjármagnskostnaður og fjármagnsþörf þessa atvinnuvegar, þá eigi hann skemmri framtíð fyrir sér en bæði ég og hæstv. ráðh. viljum að verði.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að hafa um þetta fleiri orð, en mig langar aðeins í lokin að geta þess út af orðum hv. þm. Helga Seljan, að þó að við hittumst í landbn., þá mun hann ekki hitta fyrir óðalsbónda, þar sem ég er. Það hef ég ekki verið, þrátt fyrir það að mín æft, hvort sem hún er frá Írum eða víkingum komin, hafi átt heimili á sömu jörð í á þriðja hundrað ár.