15.11.1973
Neðri deild: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég held, að það blandist engum hugur um, að það er mikið öngþveiti í sambandi við þetta fiskiðnaðarskólamál. Einn nemandi úr skólanum hringdi í mig í morgun og spurði mig, hvaða afstöðu ég hefði til þessa máls. Hann sagði, eins og rétt er, að þarna væru 54 nemendur, þeir væru búnir að eyða tíma og fjármunum í það að vera í skólanum. En þeir sæju ekki fram á það, að þeir ynnu neitt við það að eyða tíma og fjármunum í þetta, ef hægt væri að útskrifa menn til þeirra starfa, sem nemendur Fiskiðnskólans væru ætluð eftir eftir lokna skólavist, eftir 3–4 vikur til þess að gegna vandasömustu störfum. Það er út af fyrir sig ekki nema eðlilegt, að nemendur séu gramir.

Mér heyrðist hæstv. menntmrh. gera sér grein fyrir því, að hér væri vandamál á ferðinni, en ég saknaði þess, að hann gæfi þingheimi yfirlýsingu um það, hvernig hann ætlaði að leysa málið. Hæstv. ráðh. hefur skrifað sjútvrn. og óskað eftir því, að þetta námskeiðshald falli niður. En ég er ekki viss um, að það sé heppilegasta lausnin, úr því sem komið er. Mér skilst, að það vanti menn í Fiskmatið víða úti um land og til eftirlits í frystihúsum. Það má því vel vera, að það sé nauðsynlegt að leysa þessi mál til bráðabirgða með námskeiðshaldi. En það er á valdi hæstv. ráðh., menntmrh. og sjútvrh., að gefa út reglugerð um starfssvið þessara manna. Það þarf ekki að vera rétt, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að þegar fyrstu nemendurnir koma úr Fiskvinnsluskólanum, þá verði búið að skipa þessa þriggja vikna námskeiðsmenn í þær stöður, sem þeir hefðu átt að fá. Það er á valdi hæstv. ráðh. að ákveða verksviðið með reglugerð, að þessir námskeiðsmenn, sem nú búa sig undir starfið með litlum tilkostnaði, verði ekki skipaðir í stöður, heldur verði þeim gert það ljóst, að ætlast sé til að þeir leysi aðkallandi verkefni til bráðabirgða, þangað til nemendur útskrifaðir úr Fiskvinnsluskólanum, sem hafi meiri menntun og þá væntanlega meiri starfshæfni, geti tekið við þessum verkefnum. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hugleiði það, að unnt sé að leysa þetta mál með því að hafa reglugerðina þannig, að þeir, sem útskrifast úr skólanum, fái starfsréttindi, en hinir, sem hafa verið á námskeiðunum, verði ráðnir til bráðabirgða í stöðurnar og þeim verði gefinn kostur á að mennta sig þá meira siðar meir til þess að geta fengið stöður til frambúðar.