15.11.1973
Sameinað þing: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

12. mál, útfærsla fiskveiðilandhelgi í 200 sjómílur

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þessi till. til þál., sem flutt var 16. okt. í Sþ., felur það í sér, að fiskveiðilandhelgi Íslands skuli stækkuð þannig, að hún verði 200 sjómílur frá grunnlínum allt í kringum landið og komi stækkunin til framkvæmda eigi síðar en 31. des. 1974.

Frá því að landgrunnslögin voru sett 1948, hefur markmiðið í landhelgismálinu verði landgrunnið allt, með öllum þess fiskimiðum umhverfis landið. Þetta er okkur þjóðarnauðsyn, og þetta er hinn sögulegi réttur okkar. Allt frá byggingu Íslands og langt fram eftir öldum áttu Íslendingar einir öll þessi fiskimið. Sá réttur var viðurkenndur af öðrum þjóðum öldum saman. Þegar erlendir fiskibátar fóru fyrst að sækja á Íslandsmið, mótmæltu landsmenn því fastlega, og það hreif. Fiskibátarnir hurfu á brott. Síðan tóku útlend skip að veiða hér við land og stunda rányrkju, sumpart í skjóli hervalds þeirra ríkja, sem hlut áttu að máli, og sumpart vegna undanlátssemi danskra yfirvalda, en alltaf í óþökk landsmanna og gegn þeirra mótmælum.

Landgrunnið með öllum auðlindum þess, í hafsbotni og yfir honum, er og á að vera eign Íslendinga og þeirra einna. Það er hluti af landinu og lífgjafi landsmanna.

5. maí 1959 samþykkti Alþ. þál. um landhelgismál. Með henni lýsti Alþ. yfir að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með l. um vísindalega verndun fiskimiða landsgrunnsins frá 1948. Þó að grundvöllur væri að þessu lagður með landsgrunnsl., þá er það í fyrsta skipti með þessari þál. frá 1959, sem Alþ. lýsir berum orðum og ótvírætt yfir þeirri stefnu, að allt landgrunnið skuli verða undir yfirráðum Íslendinga. Tveim árum síðar, 1961, þegar samið var við Breta um lausn fiskveiðideilunnar, var svo ákveðið í þeim samningi: „Ríkisstj. Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland.“

Landgrunnið er því mörkuð stefna okkar, en spurningin er: Hvernig á að ákveða, hversu langt það nær á haf út? Í alþjóðlegum umr, er oft miðað við dýpi og dýptarlínur, t. d. fyrir allöngu við 200 metra dýpi, síðar við 400 metra dýpi og nú upp á síðkastið 800–1000 metra. En einnig er oft talað um svokölluð hagnýtingarmörk, og er þá átt við, hversu langt er hægt að ná til nýtingar, t. d. til vinnslu olíu eða til þess að veiða fisk. Hagnýtingarmörkin að því er fiskveiðar varðar ná með núverandi tækni á 1000 metra dýpi og jafnvel dýpra. Fyrir Íslendinga væri æskilegt að miða fiskveiðilögsöguna annaðhvort við hagnýtingarmörk eða a. m. k. 1000 metra dýpi, og viðmiðun við landgrunnið hefur af mörgum ástæðum verið talin eðlilegust frá sjónarmiði Íslands. Landgrunnið er jarðfræðilegur hluti af landinu, stöpullinn, sem það stendur á. Þar eru fiskimiðin, sem afkoma og líf fólksins byggist á.

Við umr. til undirbúnings Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna hefur komið í ljós, að erfitt muni að sameina þær þjóðir, sem vilja víða landhelgi, um alþjóðlega reglu, sem byggist á landgrunninu einu. Til þess liggja einkum tvær ástæður. Hin fyrri er sú, að mörg ríki, sem þegar hafa tekið sér 200 mílur, hafa sjálf lítið landgrunn. Þær hafa því lítinn áhuga og takmarkaðan skilning á landgrunnssjónarmiðum. Hin ástæðan er sú, að hjá sumum ríkjum, sem berjast fyrir landgrunnsreglunni, t. d. Kanada, nær landgrunnið svo langt á haf út, langt út fyrir 200 mílur, að vonlítið þykir að fá nægilegt fylgi við svo víðáttumikla landhelgi. Þjóðir í þessari aðstöðu hafa því valið þann kostinn að styðja 200 mílur sem meginreglu, að vísu í von um að fá einhver forréttindi á landgrunni sinu utan þeirra. Frá sjónarmiði Íslands fullnægir 200 mílna reglan hagsmunum okkar vel að því leyti, að innan þeirra verður allt landgrunnið út á 1000 metra dýpi og sums staðar miklu meira dýpi. Aðeins á einum stað til suðvesturs gengur 1000 metra dýptarlínan út fyrir 200 mílna mörkin. Landgrunn Íslands fellur því í meginatriðum undir 200 mílna regluna.

Ef Íslendingar tækju sér 200 mílna landhelgi, mundi stærð hennar verða um 750 þús. ferkm. Til samanburðar má geta þess, að eftir útfærsluna 1958 var landhelgin um 70 þús. ferkm., eftir samningana 1961 75 þús. ferkm., eftir 50 mílna útfærsluna 1972 fór hún í 216 þús. ferkm. og mundi með 200 mílum verða um eða yfir 750 þús. ferkm. Það fer nokkuð eftir því, hvernig dregnar verða línur milli landa, þar sem skemmra er milli en 400 sjómílur.

Í þáltill. á þskj. 12 segir, að þar sem skemmra er á milli Íslands og annarra landa en 400 sjómílur, skuli í samræmi við alþjóðlegar venjur miðað við miðlínur milli landa. Hér er það einkum tvö lönd, sem til greina koma, þ. e. Grænland og Færeyjar. Frá Íslandi til Grænlands eru um 160 sjómílur og frá Íslandi til Færeyja um 210 sjómílur. Þegar að því kemur, að við ákveðum að taka okkur 200 mílur, verður það væntanlega samningsmál við nágrannaþjóðir okkar. E. t. v. verður búið að koma sér saman um ákveðna alþjóðareglu um þetta efni. Eins og málin horfa við nú, mun það talið algengast í milliþjóðaviðskiptum, að miðað sé við miðlínur.

Það kemur svo að sjálfsögðu til athugunar, hvernig skuli miða mörkin gagnvart Jan Mayen. Það er engan veginn víst, að talið verði, að sú eyja eða þær eyjur eigi sama rétt á víðáttumikilli landhelgi og önnur lönd. En þetta verður að skoðast allt á sínum tíma. Hins vegar þótti rétt að henda nú þegar í þessari till. á það, að gagnvart vissum löndum væri helst hugsað að miða við miðlinu, sérstaklega, eins og í grg. er tekið fram, varðandi Færeyjar og Grænland, því að ekki kemur til mála, að Ísland fari að sælast til landhelgi þessara landa, ég tala nú ekki um, ef ætti að beita 200 mílum gagnvart Grænlandi, þá værum við komnir upp á Grænlandsjökla.

Það er í rauninni svo komið nú, að spurningin er ekki um það, hvort við Íslendingar förum út í 200 mílur, heldur hvenær. Flestir, ef ekki allir Íslendingar virðast því fylgjandi, að stefnt sé að 200 mílum. Það er margt, sem mælir með því, að ekki verði látið bíða að færa út í 200 mílur, heldur er gert áður en langt um líður. Við sjálfstæðismenn höfum að vandlega athuguðu máli lagt til, að það verði gert eigi siðar en fyrir árslok næsta árs.

Ég skal þá leiða að því nokkur rök hvers vegna við teljum, að ekki megi bíða.

Í fyrsta lagi teljum við, að hér sé um lífsnauðsyn íslensku þjóðarinnar að ræða, vegna þess að utan 50 mílna markanna ern auðug, verðmæt fiskimið í verulegri hættu. Eftir upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnuninni eru m. a. eftirtaldar fiskitegundir á þessu hafsvæði milli 50 og 200 mílna: Þorskur, grálúða, karfi, lúða, langhali, kolmunni, langa, loðna, síld. Sumar þessara fisktegunda eru í hættu, t. d. þorskurinn, sömuleiðis karfinn. Um grálúðuna má geta þess að utan við 50 mílur eru grálúðumið bæði fyrir Norðurlandi, Austfjörðum og Vestfjörðum, fyrir nokkrum árum var þar uppgripaafli, þá komu þangað erlendir togarar í stórum stíl og aflinn dróst saman vegna ofveiði, stofninn þoldi ekki þennan gífurlega ágang. Það má einnig nefna síldveiðarnar. Við þekkjum þá hörmungarsögu, þegar síldin hvarf. Síldin hefur verið friðuð í nokkur ár. Menn vonast til þess, að hún nái sér upp að nýju og hér hefjist síldargöngur og síldveiðar aftur, en í sambandi við þær væntanlegu síldveiðar er okkur lífsnauðsyn, að landhelgin verði sem fyrst færð út í 200 mílur.

Þessi ástæða er hin fyrsta, sem við viljum nefna: lífsnauðsyn þjóðarinnar að vernda mikilvæg fiskimið á milli 50 og 200 mílna, sem þegar eru í yfirvofandi hættu.

Önnur ástæðan er sú, að það er fyrir alllöngu orðin viðurkennd þjóðréttarregla, að strandríki eigi allar auðlindir í hafsbotni á landgrunni sínu. Liggja full rök til þess, að hið sama skuli gilda um verðmæti í sjónum yfir hafsbotninum. Mörg eru þau lönd, sem eiga mikil verðmæti í hafsbotninum. Önnur eiga verðmæti yfir hafsbotninum í sjónum, en ekki vitað hins vegar, eins og t. d. hjá okkur, hvort um veruleg verðmæti í sjálfum hafsbotninum er að ræða. Telja sumir það ólíklegt vegna þess, hve landið er jarðfræðilega ungt. Hvað sem þessu líður, þá virðist sem öll efnisrök hnigi í þá átt, að sama regla eigi að gilda um verðmætin í sjónum yfir hafsbotninum og landgrunninu og um þær auðlindir, sem í hafsbotninum eru.

Í þessu sambandi má benda á ályktun Sameinuðu þjóðanna frá 18. des. s. l., þar sem samþykkt var einróma sú stefnuyfirlýsing, að strandríki skuli eiga rétt til náttúruauðæfa í hafinu yfir landgrunninu.

Þegar undirbúningsfundum Hafréttarráðstefnunnar lauk í ágúst s. l., var gerð á því rækileg könnun, hver væri stefna og vilji þeirra þjóða, sem þar tóku þátt. Sú könnun fór fram þannig, að skoðaðar voru m. a. till., sem einstakar þjóðir höfðu gert, ræður manna, önnur vitneskja um skoðanir fulltrúanna og litið á hagsmuni hvers ríkis fyrir sig. Niðurstaðan af þessari víðtæku athugun var sú, að á Hafréttarráðstefnunni yrði öruggur meirihl. fyrir 200 mílum. Um 150 þjóðir eiga rétt á að sækja hina væntanlegu Hafréttarráðstefnu, og gert er ráð fyrir, að milli 130 og 140 muni sækja hana. Eftir þessa skoðun á viðhorfi ríkja er talið, að 80 ríki hið fæsta og jafnvel allt að 100 ríkjum muni styðja 200 mílur.

Hafréttarráðstefnan sjálf, sem hefur verið vandlega undirbúin, kemur saman til efnismeðferðar þessa máls á næsta ári, e. t. v. á fyrri hluta þess árs. Þó að ráðstefnan sjálf taki kannske alllangan tíma, er líklegt, að snemma á ráðstefnunni verði samþykkt stefnuyfirlýsing um fylgi við 200 mílurnar, sem öruggur meirihl. þjóða virðist þegar fylgja.

Þegar allt þetta er skoðað, lífsnauðsyn okkar Íslendinga að færa landhelgina sem fyrst út í 200 mílur, í öðru lagi hin viðurkennda þjóðréttarregla um, að strandríki eigi auðlindir í hafsbotninum, og við teljum, að hið sama eigi að gilda um verðmætin yfir hafsbotninum, í þriðja lagi stefnuyfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá því í des. 1972, í fjórða lagi vitneskjan um, að meirihl. þjóða heims muni styðja 200 mílna efnahags- og auðlindalögsögu, sem felur í sér fiskveiðilögsögu, og loks, að líkur eru taldar til þess, að snemma á Hafréttarráðstefnunni muni slík stefnuyfirlýsing samþykkt, þegar allt þetta er skoðað, virðist fenginn nægilega traustur grundvöllur, bæði pólitískur og lagalegur, fyrir okkur til þess að færa út á næsta ári.

Spurningin er þá sú: Er eitthvað, sem mælir sérstaklega á móti því að ákveða þessa útfærslu svo að hún komi til framkvæmda fyrir lok næsta árs? Er eitthvað sem mælir sérstaklega með því að bíða? Ég tel ekki. Ég tel, að það sé ábyrgðarhluti að bíða eftir því, að Hafréttarráðstefnunni ljúki og hún hafi afgreitt þetta mál endanlega. Við skulum í fyrsta lagi hafa það í huga, að tvær hafréttarráðstefnur hafa verið haldnar á undan, báðar með þeim tilgangi að leysa vandamálið um víðáttu landhelginnar og setja um hana fastar reglur. Þessar hafréttarráðstefnur voru haldnar á vegum Sameinuðu þjóðanna 1958 og 1960. Báðar mistókust þær að þessu leyti, að ekki tókst að setja reglur um viðáttu fiskveiðilögsögu. Hvort það tekst á þessari ráðstefnu, skal ég ekki segja. Þó að meirihl. sé fylgjandi 200 mílna lögsögu, þá er svo ráð fyrir gert og í samræmi við þær reglur, sem gilt hafa áður á slíkum ráðstefnum, að 2/3 atkv. þurfi til þess, að slík samþykkt fái gildi sem alþjóðalög. En það nægir ekki, heldur þarf auk þess tiltekinn fjöldi ríkja sem að þessu standa, að staðfesta eða fullgilda slíkan alþjóðasamning á eftir, til þess að þetta sé orðið bindandi að þjóðarétti. Slíkt getur tekið mörg ár. Hafréttarráðstefnunni sjálfri er engan veginn víst að ljúki á næsta ári, hún getur tekið 2–3 ár, og óvíst, að þessir 2/3 hlutar náist, og ómögulegt að segja, hversu langan tíma það tekur að fá fullgildingu þeirra ríkja, sem með þarf. Ég tel því, að það sé ekki unnt fyrir okkur Íslendinga að bíða eftir því, að Hafréttarráðstefnunni ljúki og hún hafi endanlega afgreitt þetta mál.

Í þessari till. er gert ráð fyrir því að fela ríkisstj. að leggja fyrir þingið frv. um þær breytingar á l., sem nauðsynlegar eru vegna útfærslu í 200 sjómílur. Hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt fram frv. um breytingu á landgrunnsl., og verður það mál, sem er vandasamt meðferðar, skoðað í sjútvn. Nd. nú á næstunni.

Loks segir í till., að Alþ. leggi nú sem fyrr áherslu á nauðsyn þess, að settar séu strangar reglur um verndun fiskstofna til þess að tryggja sem best hagnýtingu þeirra og koma í veg fyrir ofveiði og þeim reglum verði fylgt eftir með festu.

Það er eindregin ósk og von flm. þessarar þáltill., að samstaða náist á Alþ. og með þjóðinni um þetta stórmál.