23.10.1973
Sameinað þing: 6. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

1. mál, fjárlög 1974

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég mun nú fjalla hérna nokkuð um þetta frv., en umr. hafa verið mjög langar og tími orðinn nokkuð áliðinn í dag, þannig að ég skal gera þm. það til geðs að vera heldur stuttorður, enda er þegar búið að drepa á svo mörg atriði í frv. í mjög langri ræðu hæstv. fjmrh., að ekki er ástæða fyrir mig nema stikla á stóru, og einnig gerði síðasti ræðum., hv. 2. þm. Vesturl., grein fyrir ýmsum þáttum, sem ég hefði gjarnan fjallað um, en hann hefur þegar tekið fyrir og því óþarfi að vera að eltast við það að sinni.

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessa löngu og yfirgripsmiklu ræðu, vegna þess að þó að sumir þreytist á að hlusta á slíka ræðu, þá felur hún í sér það mikið af upplýsingum alla vega, hvort sem menn eru með eða móti því öllu, að það er gagn að því að hafa slíkt yfirlit við umr. um fjárlög. Ég er þó ekki að mælast til þess, að ræðutími hæstv. ráðh. lengist með sama hraða eða í sömu hlutföllum og krónutala fjármála hefur aukist í hans tíð, því að þá líst mér ekki á blikuna. Það gæti farið svo, að ef hann sæti mjög lengi, að sumir yrðu syfjaðir hér í þingsölum. En hvað um það, þetta er mikið verk, að taka þetta allt saman, og ég held, að þm. hafi gott af því að glugga í það, sem þar kom fram. Ég ætla aðeins að fjalla hérna um vissa þætti fjárlagafrv. og byrja á því að fjalla um tekjuhliðina.

Eins og þegar hefur verið gerð grein fyrir, hækkar tekjuhlið frv. um nærri fjórðung, og hefur verið skýrt hvers vegna. En það, sem ég vil hér fjalla um sérstaklega, er, að það hefur verið byggt á ákveðnum forsendum, sem mér sýnist, að muni vart standa, og einnig þá útgjaldahliðin. Það er byggt á gildandi skattalögum óbreyttum út árið 1974. Þetta tel ég vart hugsanlegt vegna þeirrar pressu, sem fram hefur komið af hendi launþegasamtakanna að taka þessi mál til rækilegrar athugunar, og ég skildi hæstv. ráðh. þannig áðan, að sú n., sem starfað hefur að þessum málum, undanfarið, — ég er ekki alveg öruggur um, hvort það er n., sem þingflokkarnir allir áttu fulltrúa sinn í, eða önnur n., — mundi vera svo langt komin með sitt starf, að þm. gætu búist við því, að við sæjum í næsta mánuði frv., að breyttu tekjuöflunarkerfi. En hvað sem því líður, þá held ég, að það sé skynvilla að gera ráð fyrir því, að bæði útgjaldaliðurinn og tekjuöflunarliðurinn geti staðist nokkuð í samræmi við fjárlagafrv., eins og það er sett fram. Og þetta stafar m. a. af því, að fólkið í landinu er þess meðvitandi, að mikil verðbólga ríkir, og það er höfuðvandamál hæstv. ríkisstj., eins og oft hefur verið áður.

Það kom fram þegar við fyrstu fjárlagagerð hæstv. ríkisstj., þá standa þessu fáu orð, með leyfi forseta:

Ríkisstj. er ljóst, að stefna hennar er ekki framkvæmanleg, nema takist að hafa hemil á verðbólgunni. Í þjóðfélagi, þar sem skefjalaus verðbólga ræður ríkjum, eykst alltaf bilið milli þeirra, sem best og verst eru settir. Þess vegna hefur hún ákveðið að keppa að því marki, að verðhækkanir verði ekki örari hér á landi en gerist með viðskipta- og nágrannaþjóðum vorum. Hún ákvað því að halda áfram verðstöðvuninni, sem gilda átti frá 1. sept. til áramóta:

Þetta var í aths. við frv. fyrir árið 1972. En því miður hefur þetta fróma og góða loforð ekki séð raunveruleikann, og við horfumst nú í augu við meiri verðbólgu hér á Íslandi en nokkru sinni áður, nema e. t. v. á sjálfum stríðsárunum, því miður. Launþegar hafa því sett fram mjög ákveðnar kröfur til hækkunar tekna sinna í krónutölu talið, sem mun sannarlega koma við ríkissjóð, ef launþegasamtökin ná fram meginhluta af sinum kröfum. Nú liggur þetta ekki ljóst fyrir, því að allar líkur eru á því að hér muni kjaradómur um fjalla, og er þess vegna nokkur bið á, að við fáum að heyra niðurstöður. En engu að síður er það óraunhæft að vera að fjalla nákvæmlega um útgjaldahliðina, eins og þeir eru settir í frv., vegna þess að ég held, að það sé útilokað annað en þeir muni hreyfast til hækkunar í meðförum fjvn. og hv. Alþ. Við munum ekki komast hjá því.

Afkoma manna, sagði hæstv. ráðh., er góð. Það er rétt. Það er rétt vegna þess, að í landinu ríkir feikileg spenna um framkvæmdir. En því miður er aflgjafinn undir þessari spennu óttinn við verðbólgu, og hver einasti maður reynir að fjárfesta með einu eða öðru móti, ef hann mögulega getur og kríar út allt það fjármagn til lána, sem hægt er að ná með góðu eða illu, og meira að seg,ja svo, að núgildandi skattalög hvetja menn til þess að gera margt heima hjá sér og kalla sem viðhald og framkvæma ýmsar breytingar, vegna þess að viðhaldið var sett í ákveðna prósentutölu á skattaframtali, sem voru hin herfilegustu mistök. Það veit ég, að hæstv. ráðh. veit mætavel um, að það voru stærstu mistökin í skattalagabreytingunni, í staðinn fyrir að hafa aðhaldið eins og hann telur eðlilegt með því að láta menn skila reikningum og vinnulaunaskýrslum. Það eru ekki ýkjur, að á markaðnum ríkja þess vegna tveir taxtar, annar gildir fyrir vinnu, sem ekki er talin fram, og hinn fyrir vinnu, sem talin er fram. Og þetta býður löggjöfin upp á. Þessu verður að breyta sannarlega.

Hæstv. ráðh. fjallaði nokkuð um það, sem nú er í lögum og hefur verið. Það eru vissar undantekningar í lögum, vissir frádráttarliðir, og ég er honum sammála, að þeir gefa möguleika til undandráttar og hv. Alþ. á að draga úr þessum möguleikum eins langt og hægt er að komast, þó að þeir verði sennilega alltaf einhverjir. Hér er því um alvarlegt mál að ræða, sem verður sennilega rætt um miklu nánar, ef hugmyndir um nýja tekjuöflun koma fram. Og einmitt í dag var dreift af hálfu þingflokks Alþfl. till. til þál. um lækkun á tekjuskatti á einstaklingum, og mun ég ekki fara nánar út í þær hugmyndir, sem þar eru settar fram. Þær verða ræddar hér í Sþ. á sínum tíma, og þá gefst tækifæri til þess að fjalla nánar um þær. En miðað við þá þróun, sem hæstv. fjmrh. gerði hér nokkra grein fyrir, að aukning í söluskatti og lækkun á tekjuskatti ætti að eiga sér stað, þá leggjum við til hér í þessari þáltill., að út á þá braut verði farið og einnig virðisaukaskatt. Þetta felur þá í sér um leið aukið aðhald og tryggara fyrirkomulag varðandi þessa tekjuöflun. Það er nú reyndar í lögum og hefur verið um fjölda ára skeið, að fyrirtækjum er skylt að nota prentaða reikninga með númerum á og haus viðkomandi fyrirtækis, en á þessu er mjög mikill misbrestur, og sleppa menn því oft við að inna af hendi söluskatt, sem er þá tekinn af almenningi, vegna þess að þessum lögum er ekki vel framfylgt. Að öðru leyti held ég, að það sé rétt hjá hæstv. fjmrh., að a. m. k. öll hin stærri fyrirtæki og miðlungsfyrirtæki skila nú betur söluskatti en verið hefur um margra ára skeið, og er það til þakka.

Það er rætt hér um, að fram eigi að koma nokkur tollalækkun vegna aðildar okkar að EFTA. Er það ágætt, og gerði hæstv. ráðh. grein fyrir því, því að iðnaðinum mun ekki af veita vegna samkeppni utanlands frá, og hann er illa settur vegna verðbólgunnar hér innanlands. Ákveðnar iðngreinar hafa náð nokkurri fótfestu í útflutningi, og það má ekki fara svo, að við missum þessa stöðu vegna eigin mistaka hér heima í verðlagsþróun. Þess vegna fagna ég því, ef hægt er að koma málum þannig fyrir, að vissir tollar á frumvöru til þessara fyrirtækja verði lækkaðir eða felldir niður, og reikna ég með, að hv. þm. muni standa með hæstv. ríkisstj. í því efni að stuðla að slíkri þróun.

Hæstv. fjmrh. fór mjög út í tekjuöflunarkerfið, og það er of langt mál að fara að fjalla um það allt. Hann gerði samanburð á sköttum nú og hverjir þeir hefðu verið eftir gamla kerfinu. Síðasti ræðumaður kom inn á það, að slíkur samanburður er auðvitað óraunhæfur í dag vegna þeirrar einföldu staðreyndar, að það ríkir allt annað efnahagsástand í þjóðfélaginu nú en var á hinum erfiðu árum 1969–1970. Það er alveg sama, hvaða ríkisstj. hefði setið, ég er alveg viss um, að hún hefði tekið tekjuöflunarleiðir sínar til endurskoðunar við svona gjörbreytt viðhorf. Það hefur því, ekki raunhæft gildi að vera að vitna og bera saman gildandi skattalög og þau, sem voru í gildi langt aftur í tímann. Það hefur ekki raunhæft gildi að mínu mati, þannig að ég vísa þessum samanburði heim til föðurhúsanna aftur sem óraunhæfum, vegna þess að aðstæðurnar eru svo ólíkar, að það er ekki hægt að bera það saman. Nú ríkir hið mesta góðæri til lands og sjávar, og það er von, að hæstv. ríkisstj. og almenningur í landinu vilji hafa af því mikinn ávinning. En það er einnig staðreynd, og það getur hæstv. fjmrh. sannfært sig um sjálfur, að fólki finnst með réttu beinir skattar sínir vera miklir. Þegar um 3/4 manna lenda í hæsta álagi, sem lög leyfa, þá hvetur það ekki til mikillar athafnasemi.

Og það er komið á það stig, bæði í kjördæmi hæstv. fjmrh. og víða annars staðar um landið, að fólk fer að neita að vinna yfirvinnu við framleiðslustörfin, vegna þess að það finnur, að það heldur of litlu fjármagni eftir miðað við svona langan vinnutíma. Og þá er skattakerfið til hömlunar á eðlilegu athafnafrelsi hjá fólkinu og eðlilegri þróun í þjóðfélaginu, af því að við búum nú einu sinni við það, að við verðum að vinna langan vinnutíma á vissum tíma árs varðandi a. m. k. sjávarútveg og einnig við landbúnað. Það er því viðfangsefni hverrar ríkisstj. á hverjum tíma að hafa ekki álögur það miklar eða a. m. k. hvað varðar þessa starfshópa, að það skerði vilja þessa fólks til að vinna eðlilegan vinnudag, þrátt fyrir að við höfum sett hér lög um 40 stunda vinnuviku. Við bókstaflega komumst ekki hjá því undir vissum kringumstæðum að ganga frá og verka þann afla, sem berst á land á skömmum tíma yfir vetrarvertíðina, og þá er ekki spurt um 40 stunda vinnuviku. Það er eingöngu spurt um það: Ætlum við að bjarga verðmætum eða ekki?

Ég man nú ekki, hvað ríkissjóður fær mikið í tolltekjur samkv. þessu frv. af útflutningi, en venjan hefur verið að reikna með því, að það sé um fjórðungur, og ég reikna með því, að jafnvel þó að eitthvað verði fellt niður af tollum til hagsbóta fyrir iðnaðinn, sé ekki langt frá því, að þetta hlutfall haldist. Það er þess vegna hagur fyrir ríkissjóð, að fólkið skapi sem mest útflutningsverðmæti og sú vinna sé viðurkennd á einn eða annan hátt.

Ég fagna því, að hæstv. ráðh. talaði hér um, að við þyrftum að ná í ágóða af sölu á lóðum og lendum, eftir því sem ég tók best eftir. Ég vona, að slíkt frv. komi fram hið fyrsta hér á hv. Alþ., sem tryggi eðlilegan skatt af slíku, vegna þeirrar þróunar, sem átt hefur sér stað undanfarið, að landssvæði hafa hækkað verulega í verði vegna aðgerða hins opinbera, þannig að menn fara að tala um tugmilljóna hagnað af landi, er aðeins er metið í tugum þús. kr. Hér verður auðvitað að ríkja eðlilegt mat og skynsemi. Það má ekki verða skammt öfganna á milli. Menn verða að fá skynsamlegt út úr sínu landi engu að síður, en óeðlilegt er með öllu, að slík verðmætisaukning geti fallið viðkomandi aðila óskattlögð alveg í hendur.

Síðan ræddi hæstv. fjmrh. nokkuð um staðgreiðslu skatta. Ég er honum sammála um það, að grundvallaratriðið er, að álögur séu sem jafnastar milli ára. Það er mikið vandamál varðandi sjávarútveginn vegna þess, hve sveiflukenndur hann er. Menn hafa haft á þessu ári margir hverjir uppgripatekjur vegna loðnuveiði og einnig núna á nokkrum bátum í Norðursjó, og það væru hrapallegir erfiðleikar, sem þetta fólk ætti við að glíma, ef loðnuveiðin brysti næsta ár. Þá er það rétt, eins og hann efndi frá síldarárunum, að a. m. k. varðandi yfirmenn gæti svo farið, að þeir öfluðu ekki næsta ár fyrir brúttóálögum. Hér þarf einhverra úrbóta við. Ég býst við, að hjá ríkisstarfsmönnum sé kerfið þannig, að það valdi þeim ekki miklum breytingum, hvort sem við höldum núverandi kerfi eða komum á staðgreiðslukerfi. En það er hjá vissum stéttum mikilvægt að hafa einhverja viðmiðun, sem við getum notað til þess að þetta fólk lendi ekki í vandræðum. Ég held, að það mundi sætta sig við það, að úthugsað væri slíkt kerfi, er tæki af þeim í sanngjörnu hlutfalli miðað við hlut, sem við vissum um á hverjum tíma, heldur en eiga það á hættu að standa uppi nærri auralaust árið eftir, vegna þess að við tökum of lítið hlutfall af tekjum þess, þegar uppgripin eiga sér stað.

Það var einu sinni talað um þá hugmynd, þegar síldarárin ríktu hér sem best, að það ætti að verðlauna sjómenn, sem lentu í uppgripunum, með því, að þeir ættu að leggja inn skattfrítt ákveðna upphæð í viðskiptabanka ríkisins og geyma það fjármagn ákveðinn tíma og það verði ekki ráðstöfunarbært nema með vissum hætti. Mér virðist þetta geta verið ein hugmynd til þess að draga þá um leið úr þeirri miklu eftirspurn, er ríkir hér á markaðnum.

Síðan gerði hæstv. ráðh. grein fyrir ýmsum útgjaldaliðum og spurði okkur í stjórnarandstöðunni, hvort við vildum draga úr hinum ýmsu útgjöldum, og nefndi þar til skóla, hafnir, flugvelli, sjúkrahús og þar fram eftir götunum. Það hefur aldrei nokkurn tíma á Alþ. komið fram áhugi hjá mönnum að draga úr framkvæmdum, ef við getum og ráðum við framkvæmdirnar. Þess vegna er spurningin óraunhæf. Það er alveg sama, hver spyr hana, ég eða hæstv. ráðh. eða viðkomandi ríkisstj. hverju sinni. Það, sem skiptir meginmáli, er, hvort framkvæmdunum er þannig raðað niður, þær eru þannig settar í þjóðfélaginu og í öllu efnahagskerfinu, að þar séu ekki valdandi þess, að við aukum verðbólguna. Þarfir í þjóðfélagi eins og Íslandi hljóta alltaf að vera það miklar, að það verði alltaf beðið um meira fjármagn en hv. Alþ. treystir sér til að láta af hendi. Þetta veit hæstv. fjmrh. af langri reynslu, bæði sem sveitarstjórnarmaður og einnig með langan starfsferil og góðan í fjvn. og svo nú sem hæstv. fjmrh. Það er alltaf beðið um meira en Alþ. getur í té látið vegna þarfanna Það leiðir af sjálfu sér í þjóðfélagi eins og Íslandi, sem hefur svo mikið til að byggja upp, vegna þess að við höfum ekki haft neitt byggingarefni varanlegt fyrr en nú raunverulega eftir stríð fyrst og fremst. Þarfirnar eru alls staðar, og það eru engar smáþarfir, sem koma fram í höfnunum, þegar við erum að kaupa nærri 50 skip á tveimur árum. Það væri óðs manns æði annað en að gera sérstakt átak til þess að skapa þessum skipum eðlilegt öryggi í landi. Þetta er gífurlegt átak, sem er fram undan, og það er þakkarvert, — ég segi það hreinskilnislega, — það er þakkarvert, að það er litið á þetta með skilningi. Það er bæði þakkarvert og nauðsynlegt.

Sjúkrahúsmálin verða alltaf mikil og erfið viðfangs vegna síaukinna krafna um betri tæki, betri útbúnað og harðari kröfu frá hendi lækna og starfsliðs til almenns öryggis fyrir borgarana. Það leiðir því af sjálfu sér, að hver ríkisstj. mun leitast við að láta eins mikið fjármagn í sjúkrahúsin og framast er unnt. Við getum alls staðar bent á þarfirnar, spurningin er, hversu ört við eigum að gefa fjármagnið út og hvaða áhrif það hefur á heildareftirspurn vinnuafls í þjóðfélaginu. Því miður hefur það verið svo, að ýmsar framkvæmdir undanfarið hafa verið boðnar það ört út, að það hefur bókstaflega ekki unnist tími til að framkvæma þær, og sumir verktakar hafa farið í kapphlaup um það að bjóða mönnum há laun, ef hægt er að koma verkinu af á skömmum tíma, vegna þess að verðbólgan hefur verið svo ör, að ella hefði tilboð þeirra orðið undir og þeir bókstaflega tapað. Þess vegna hafa margir haft uppgripatekjur hjá ríkinu við að vinna á skurðgröfum, jarðýtum og ýmsum tækjum til þess að aka að efni og framkvæma verk raunverulega á vegum hins opinbera. Þetta er einkenni verðbólgunnar, og þetta er einkenni hinnar miklu spennu, sem ríkir núna á vinnumarkaðinum.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að verðhækkanir hafa verið hér miklar undanfarið, og kom með þá skýringu, sem fram er sett í frv., að telja mætti, að allt að 10% væru erlendis frá og frá okkur hér heima væri 15–20% eftir því, hvað við vildum telja það hátt, en verðbólgan er metin a. m. k. af Brunabótafélagi Íslands vera nálægt 30% á ári, því að Brunabótafélag Íslands hefur hækkað brunabótamat húsa núna um þessa tölu þrisvar sinnum í röð, og þá mega allir sjá, að það er eðlilegt, að krónutala frv. þurfi að hækka allhressilega, ef ekki á að dragast saman sá framkvæmdahraði, sem menn hafa gert ráð fyrir, að gæti verið á vissum framkvæmdum, sem þegar var tekin ákvörðun um í tíð hinnar vondu viðreisnar, eins og oft hefur verið vitnað til af núv. stjórnarsinnum. Við höfum líka verið svo lánsöm núna á þessu ári, að við getum reiknað með, að við höfum um 35% verðmætisaukningu í útflutningi og jafnvel mun meira á ýmsum sviðum. Það hefur verið vilji allra, að almenningur í landinu nyti þessara kjara. Það vantaði nú ekki, þegar vel gekk hér á árunum 1966–1967, að þáv. stjórnarandstaða hefði stór orð nm, að almenningur í landinu ætti að njóta hinna góðu ára, sem þá ríktu. Og vissulega munum við í stjórnarandstöðunni núna gera kröfu til þess, að almenningur hafi möguleika á því að bæta kjör sín nú tvö s. l. ár frá því, sem var á hinum erfiðu árum 1967–1969, með því að geta haldið eftir eðlilegum hluta. af auknum tekjum, sem góðærið hefur leitt af sér í landinu, og byggja upp fyrir sig vegna þeirra lægða, sem komu í bæði húsbyggingarnar og ýmsar aðrar framkvæmdir á þessu tímabili.

Á bls. 160 í frv. er gert ráð fyrir, að afkoma a. m. k, vissra atvinnugreina í landinu og þá einkanlega í sjávarútvegi sé mun betri en verið hefur undanfarið og spáð 800 millj. kr. álagningu — mér skilst aukningu — vegna þess á næsta ári. Það er vonandi, að svo verði. Enn liggur þó ekkert fyrir um afkomu þeirra fyrirtækja, er starfa við togaraútgerðina. Vonandi er, að togararnir skili sér sæmilega á þessu ári, a. m. k. meðan þeir eru glænýir og viðhald lítið. En því miður er jafnan svo í sjávarútvegi, að það árar mjög misjafnlega á milli einstakra greina. Frystihúsin hafa haft uppgripatekjur. Það sýna einnig vinnslustöðvar, sem við getum kallað gúanóverksmiðjur eða síldarverksmiðjur eða loðnuverksmiðjur, þær hafa haft ótrúlega gott ár í ár. En uppbygging þar þarf að vera mjög mikil, vegna þess að treyst er nú mjög á það, að loðnan komi aftur og gefi nú gott til ríkisins og þeirra, er þar að starfa, en verð á loðnuafurðum er hærra núna en nokkru sinni áður. Það getur vel verið, að það megi áætla svona mikla tekjuaukningu á þessar atvinnugreinar. En því er nú verr, að nú er hætt að leggja í verðjöfnunarsjóð og svo er komið, að jafnvel einstakir ráðh. sjá ekki annað ráð vænna en þurfa að fara að hirða þessa fjárupphæð, sem er nokkuð á annan milljarð, frá þessari starfsgrein yfir í aðrar starfsgreinar til þess að hjálpa þeim vegna breytingar á gengi krónunnar, sem fyrst var lækkað um 10.7% og síðan lækkað aftur og síðan hækkað þrívegis, ef ég man rétt. En hvað um það, þá held ég, að það nái ekki nokkurri átt að ætla með einu pennastriki að færa slíka fjármuni á milli, og mun því verða mótmælt, bæði af mér og öðrum, ef úr verður.

Ég sé hér, að niðurgreiðslur lækka hlutfallslega, og ég er a. m. k. persónulega inni á þeirri stefnu, sem hér kemur fram, að reyna að ráða við þessar niðurgreiðslur og taka þær til meðferðar í áföngum. Þetta er sú hrollvekja, sem oft hefur verið talað um hér í þingsölunum, og við verðum að horfast í augu við það að leysa þennan hnút fyrr eða síðar.

Hæstv. ráðh. fjallaði nokkuð um vísitöluna, og hann fjallaði um breytingu á tekjuskattinum og áhrif á vísitöluna, ef við þurfum að setja inn söluskatt, og hvað það mundi þýða. Hann viðurkenndi sem rétt er, að þetta kerfi, sem gildir í dag, mun ekki vera æskilegt til lengdar, það hafi margsinnis verið rætt um það hér áður. Launþegasamtökin hafa gert um þetta ákveðnar samþykktir, sem ég ætla ekki að eyða hér tíma í að rekja, en við skulum öll gera okkur ljóst, að þegar svona stór tekjuöflun eins og áfengi og tóbak er í ríkisreikningnum, 2.3 milljarðar, og hafa hækkað núna á tveimur árum úr 1.6 milljarði, þá er það mjög óeðlilegt, að það verki beint til launahækkana í landinu og raunverulega til þyngsla fyrir framleiðsluatvinnuvegina, vegna þess að það er tekið inn í vísitölukerfið. En þetta er þannig mál, að það verður að leysast í samráði við launþegasamtökin. Þau munu aldrei samþykkja það, að þau hafi ekki einhverja viðmiðun vegna sinna launa, og vegna þeirrar verðbólgu, sem ríkir í landinu, verða þau að hafa einhverja viðmiðun til þess að tryggja það, að launaöryggi þeirra sé jafnan fyrir hendi, eins og framast er unnt.

Herra forseti. Tíminn er nú orðinn það liðinn, að ég held, að ég neyðist til að stytta mál mitt eða jafnvel hætta hér, svo að ég knýi ekki á umr. eftir kvöldmat. En ég veit ekki annað en þær eigi að halda áfram. (Forseti: Nei, þær verða ekki.) Ekki í kvöld. Umr. ekki lokið? (Forseti: Nei, nei, þær verða síðar.) Síðar, já. Ég hugsa, að ég ljúki þess vegna hér máli mínu. Ég vil aðeins minna á eitt atriði. Það er útgáfa verðbréfa, sem reiknað er með hér 700 millj. kr. Þetta er orðinn snar þáttur í tekjuöflun varðandi framkvæmdaáætlun hér á landi, og sýnist fólki nokkuð gott um það, ef hægt er að verðtryggja sparifé. Þegar verðbólgan er orðin svona gífurleg, að hún gerir meira en helming á móti þeim vaxtafæti, sem sparifjáreigendur fá, þá er von, að fólkið vilji binda laust fé í verðbréfakaupum. En það mun einnig þyngja um útlánamöguleika fyrir viðskiptabankana, svo að hér verður einnig að hafa í huga að hafa nokkurt jafnvægi á.

Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðh., ef hann vildi gera svo vel að veita orðum mínum athygli, ég náði því ekki, hvort hann ræddi um 15% heimildina, sem er í gildandi fjárl., né gerði okkur grein fyrir því, hversu langt hún hefði verið notuð, og einnig, hvort spá mætti sæmilega í tekjuhlið fyrir ríkissjóð á yfirstandandi ári. Ég varð því miður að hverfa út úr þingsalnum um tíma, og e. t. v. hefur hæstv. ráðh. fjallað um þennan þátt á meðan, en því miður var ég kallaður á þingflokksfund um tíma og varð að hverfa um sinn úr þingsalnum. En mér leikur nokkur fróðleikur á að vita, hversu langt heimildin hefur verið notuð og þá hvaða þættir hafa verið skornir niður samkv. heimild í gildandi fjárlögum.

Herra forseti. Ég skal svo ljúka máli mínu að sinni varðandi aths. við þetta frv.