19.11.1973
Neðri deild: 25. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

95. mál, fóstureyðingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Meðan ég átti sæti í ríkisstj. var það ófrávíkjanleg regla, þegar til tals kom að flytja stjfrv., að um þau væri rætt í ríkisstj. og afstaða tekin til þess, hvort allir flokkar, sem að ríkisstj. stóðu, styddu flutning málsins.

Varðandi þetta mál hafa ráðh. SF tjáð mér og okkur í þingflokknum, að þetta mál hafi ekki verið tekið til umr. í hæstv. ríkisstj. og þannig aldrei verið lagt á það samþykki af þeirra hendi, að málið væri flutt sem stjfrv. Ég tók þó eftir því, að hæstv. heilbrmrh. mælti fyrir málinu sem stjfrv. En ef þessar upplýsingar ráðh. SF eru réttar, tel ég, að það sé mjög hæpið, að þetta frv. geti kallast stjfrv., og er a. m. k. þá vitað, að það er ekki stutt af ráðh. SF. Við höfum samt rætt málið í þingflokknum og fjallað um efni þess, og vissulega er það svo, að við erum samþykkir mörgum ákvæðum í þessu frv. og viljum styðja að því, að lögfest verði sérhver þau ákvæði, sem lúta að nauðsynlegu varnaðarstarfi og uppfræðslu í þessum alvarlegu og viðkvæmu málum mannlegs lífs, sem frv. fjallar um. En það er niðurstaða umr. okkar í þingflokki SF, að þær víðtæku heimildir, sem í þessu frv. felast um eyðingu lífs, getum við ekki stutt, og tel ég vera nægilegt á þessu stigi máls að upplýsa þetta.

Það er að sjálfsögðu rétt, að sú löggjöf, sem gildir um þessi mál í okkar landi og var á sínum tíma mjög frjálsleg, er á margan hátt vafalaust orðin úrelt, þar sem svo langur tími er liðinn síðan hún var sett. Ég hygg því, að það væri tímabært að breyta þeirri löggjöf á þann veg að leggja þá skyldu á herðar samfélaginu, að allir eigi kost á ráðgjöf og fræðslu um kynlíf og barneignir og ábyrgð foreldrahlutverks. Sá kafli þessa frv., held ég því, að ætti fullan rétt á sér, væri tímabær sem breytingar og viðbót við núgildandi löggjöf. Einnig virðist vera sjálfsagt að setja lagaákvæði um að veita öllum fræðslu og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra og að leggja þjóðfélaginu, samfélaginu, á herðar ríkar skyldur um félagslega aðstoð í sambandi við þungun og barnsburð, og í raun og veru virðist auðsætt, að ef svo er ástatt, að verðandi móðir sjái, fram á neyð af félagslegum orsökum, beri samfélaginu að koma í veg fyrir hina félagslegu neyð þannig að bæði verði lífi barns og móður borgið, en ekki með hinni aðferðinni, ég vil segja nálega villimannlegri aðferð, að tortíma lífi annaðhvort móður eða barns. Ég held, að þessar fyrirbyggjandi aðferðir verði að reyna fyrst og síðan verði að horfast í augu við þau tilfelli, neyðartilfelli, sem þrátt fyrir það gæti að dyrum borið.

Ég tel, margt það, sem fram kemur í þeirri grg., sem hv. síðasti ræðumaður vitnaði til, eigi erindi til okkar þm. og beri af þeirri n., sem fær málið til meðferðar, að taka bæði þá grg. og umsagnir annarra aðila, sem málið verður sent til, til gaumgæfilegrar íhugunar, áður en þetta mál verður afgreitt frá Alþ. Málið er vissulega mikilsvert og vandmeðfarið, og það er ástæða til þess, að það verði hlýtt á flesta þá aðila, sem um þetta mál eiga rétt á að fjalla.

En það, sem ég upplýsti í upphafi míns máls, er sem sé þetta, og ég vík að því aftur: Mér er ekki kunnugt um, að málið hafi verið rætt í ríkisstj., og því síður, að það hafi verið tekin ákvörðun um að flytja það sem stjfrv. Og svo mikið er víst, að þeirri aðferð hefur ekki verið beitt í þessu tilfelli að leita umsagnar þingflokks SF um þetta viðkvæma og vandasama mál, áður en ákvörðun var tekin um að flytja það, því að það var fyrst eftir að málið var komið fram, sem við inntum eftir því, hvort að þessu stæðu einnig ráðherrar okkar flokks, og var þá sagt, að málið hefði ekki verið rætt í ríkisstj. og þannig ekki tekin sameiginleg ábyrgð um flutning þess.