19.11.1973
Neðri deild: 25. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

95. mál, fóstureyðingar

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja við þessa 1. umr. um þetta mál. Ekki ætla ég að blanda mér í orðahnippingar þeirra hæstv. heilbrrh. og hv. þm. Hannibals Valdimarssonar um það, hvort þetta sé stjfrv. eða ekki. Sannleikurinn er sá, að mér finnst það ekki vera aðalatriðið, og ég held, það hafi verið skynsamlegt hjá hæstv. heilbrrh. að hafa enga tilburði frammi í þá átt að binda hendur stjórnarliða í þessu máli. Það er nefnilega ekki um slíkt mál hér að ræða, að það sé nokkur skynsemi í því að binda menn flokksböndum, þ. e. að láta meiri hl. í þingflokki ráða afstöðu allra til þessa máls.

Það eru vafalaust allir sammála um það, að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, og þarf að athuga það ítarlega í n. og senda það til umsagnar vafalaust margra aðila. Skoðanir manna eru vissulega mjög skiptar, en ég held þó, að allt of margir séu haldnir ákveðnum hleypidómum, þegar þeir ræða þetta mál.

Eins og hér hefur þegar komið fram, er það II. kafli frv., sem mestum ágreiningi kemur til með að valda. En ég vil sérstaklega taka undir orð hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, sem lagði áherslu á það, að menn skoðuðu þann kafla með hliðsjón af þeirri áherslu, sem lögð er á fræðslu, áður en ákvörðun er tekin um fóstureyðingu. Á þetta legg ég mikla áherslu líka.

Það kom fram í máli hv. 5. landsk. þm., Stefáns Gunnlaugssonar, að læknar hefðu á aðalfundi sínum mótmælt þessu frv. Mér er kunnugt um þetta líka, að þar var samþykkt ályktun, .sem gengur gegn þessu máli. En það, sem mér finnst vanta upplýsingar um, er, hvaða læknar tóku þessa ákvörðun. Sannleikurinn er sá, að ég held, að það skipti miklu máli, hvaða læknar eru að álykta um þetta mál. Ég veit ekki, — svo að ég taki dæmi, með allri virðingu fyrir ákveðnum sérfræðingum í læknastétt, við skulum segja augnlæknar eða beinalæknar eða eitthvað slíkt, hvort mikið sé leggjandi upp úr þeirra áliti umfram áliti ýmissa annarra hópa í þjóðfélaginu. Ég hef ástæðu til að ætla, að það séu geðlæknar og heimilislæknar, sem fyrst og fremst vita, hvað þarna er um að ræða, þekkja aðstæður, og ég legg miklu meira upp úr áliti þessara manna heldur en annarra. Og ég held, að ég fari ekki með rangt mál, þegar ég segi, að a. m. k. meiri hl. geðlækna er meðmæltur þessu frv., og ég hygg einnig meiri hl. heimilislækna. Þetta finnst mér skipta miklu máli.

Ég ætla ekki að fara að ræða það, hvort við fóstureyðingu sé verið að eyða lífi, en í því sambandi vil ég lýsa sérstakri furðu minni á orðum hv. þm. Hannibals Valdimarssonar, hvernig hann komst þar að orði. Það fannst mér ekki sæmilegt. En ég vildi lýsa stuðningi mínum við meginstefnu þessa frv., og ég vil aðeins segja það, að hin langa og óhugnanlega lesning um synjanir við beiðnum um fóstureyðingar nægir mér ein til þess að fullvissa mig um augljósa nauðsyn lagabreytingar.