20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

90. mál, endurskoðun laga um almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir spyr fyrst, hvað líði endurskoðun l. um almannatryggingar.

Tryggingalöggjöf okkar er á því stigi, að eðlilegt er, að umbætur á henni séu viðfangsefni, sem að staðaldri þarf að sinna, og í samræmi við það hefur verið starfað að undanförnu. N. sú, sem skipuð var til að endurskoða tryggingakerfið sumarið 1971, hefur lagt áherslu á að koma vissum umbótum fljótt fram, jafnhliða því sem unnið er að verkefnum, sem lengri tíma tekur að leysa.

N. hefur þegar samið tvö frv. um breyt. á tryggingal., sem lögð hafa verið fyrir Alþ. Hið fyrra var lagt fram haustið 1971 og afgreitt sem lög fyrir lok þess árs. Meginatriði þess frv. var veruleg hækkun tekjutryggingarmarks, úr 84 þús. kr. á ári í 120 þús. kr. á ári, eins og verðlagi var þá háttað. Jafnframt voru lögð niður persónugjöld til trygginganna og framlög sveitarfélaga að mestu. Auk þess var um að ræða ýmis ákvæði í þessum l., sem lutu að því að gera karla og konur jöfn fyrir lögunum.

Síðan frv. var lagt fyrir Alþ. haustið 1972, en í því frv. var skipulag sjúkrasamlaga og tryggingaumboða aðalatriðið.

N. hefur nú í haust m. a. fjallað um skipulag og greiðslu tannlæknaþjónustu, einkum fyrir börn og unglinga, breytingar á fjölskyldubótum og tekjutryggingargreiðslum. Enn fremur hefur n. látið gera athugun á leiðum til þess að gera alla landsmenn að þátttakendum í lífeyrissjóðum. N. mun bráðlega skila till. um þær lagabreytingar, sem hún telur eðlilegt, að lagðar verði fyrir þing nú í haust.

Í annan stað spyr hv. þm. sérstaklega um ákvæði um tekjutryggingu, hvort þau verði tekin upp í hið endurskoðaða frv., og vísar í spurningunni sérstaklega til frv., sem nokkrir sjálfstæðismenn fluttu á síðasta þingi. Þetta er mál, sem við höfum oft rætt um hér á þingi, ég og þessi hv. þm., og raunar áður en þetta frv. kom til, og ég hef áður gert grein fyrir skoðunum mínum um þetta efni, að þarna sé um visst vandamál að ræða. N. hefur vissulega fjallað um þetta mál, og umr. hennar um tekjutryggingarákvæðið hafa hnigið í þá átt að láta aðrar tekjur bótaþega ekki dragast að fullu frá þeirri uppbót, sem tekjutryggingarákvæðið gerir ráð fyrir, og till. hennar um þetta efni, hygg ég, að séu væntanlegar mjög fljótlega.

Ég get, eins og ég hef áður greint frá hér á þingi, fallist á, að þessi breyting sé réttlætanleg, þar sem tekjutryggingarmarkið er ekki enn nægilega hátt til þess að tryggja viðunanleg lífskjör. En ég tel, að samhliða þessari breytingu væri eðlilegt að skerða ellilífeyrisgreiðslur til þeirra, sem hafa miklar tekjur auk lífeyris almannatrygginga og þurfa í rauninni ekki á neinum slíkum greiðslum frá almannatryggingum að halda. Þessi breyting tekjutryggingarákvæða mundi hafa í för með sér rýmkuð kjör fyrir þá, sem eiga lífeyrisréttindi, sem nema lágum upphæðum, í lífeyrissjóðum, og þá sem geta haft tiltölulega lágar tekjur af eigin vinnu.

Ég tel þó enn sem fyrr brýnast að koma til hjálpar þeim, sem ekki eiga neinn annan rétt en rétt almannatrygginga og ekki geta aflað neinna tekna með vinnu. Kjör þess fólks, sem ekki hafði annað en tryggingabætur sér til lífsviðurværis, voru til mikillar vansæmdar fyrir þjóðfélagið, þegar stjórnarskipti urðu á Íslandi 1971. Þá átti aldrað fólk og öryrkjar ekki rétt á hærri upphæð en 4900 kr. á mánuði. Á þessu hefur nú orðið veruleg breyting til batnaðar, þannig að þeir, sem ekki hafa aðrar tekjur, eiga nú rétt á 14120 kr. á mánuði. Framfærslueyrir þessa fólks hefur þannig hækkað um 188%, en á sama tíma hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um 351/2%. Ég tel þessa miklu breytingu vera ærið umhugsunarefni fyrir þá hv. þm., sem í 12 ár studdu ríkisstj. án þess að gera nokkrar ráðstafanir til að ráða bót á þessari smán. Hins vegar er það fagnaðarefni, að þessi áhugi skuli nú allt í einu hafa kviknað hjá þessum ágætu þm. En þrátt fyrir þessa breyt., sem ég var hér að tala um, þá eru kjör þessa fólks ekki viðunanleg fremur en kjör annarra láglaunahópa í þjóðfélaginu. Verkefnið fram undan er því að bæta hag þessara hópa og tryggja því þannig meiri jöfnuð í þjóðfélaginu en nú ríkir.