20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

368. mál, hitaveituframkvæmdir í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðahreppi

Fyrirspyrjandi (Stefán Gunnlaugsson) :

Herra forseti. Tilefni fsp. mínar er það, að borgarstjórinn í Reykjavík hefur gefið í skyn á opinberum vettvangi, þ. e. á fundi Sambands sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi 10. þ. m. og í blaðaviðtali 14. þ. m., að framkvæmdir við lagningu hitaveitu í Hafnarfjörð, Kópavog og Garðahrepp á vegum Hitaveitu Reykjavíkur muni frestast, vegna þess að ríkisstj. hafi synjað Hitaveitu Reykjavíkur um leyfi til gjaldskrárhækkunar, en ákvæði eru í samningum, sem Hafnarfjörður og Kópavogur hafa gert við Hitaveitu Reykjavíkur um lagningu hitaveitu í þessi sveitarfélög, að Hitaveita Reykjavíkur geti endurskoðað framkvæmdahraða, ef ekki er tryggt, að árlegur rekstrararður Hitaveitu Reykjavíkur verði a. m. k. 7% af endurmetnum eignum Hitaveitunnar, en það ákvæði mun byggt á lánaskilmálum Alþjóðabankans.

Hér er á ferðinni ákaflega alvarlegt mál fyrir íbúa þeirra sveitarfélaga, sem hlut eiga að máli og eru nú samtals nálægt 27 þús. talsins. Þeir hafa lengi gert sér vonir um að geta hitað húsakynni sín með jarðvarma og tryggt sér með því húsahitun á svipuðu eða sama verði og Reykvíkingar. Þegar við blasir, að sá draumur ætti að geta orðið að veruleika á næstu 3–4 árum, þá virðist sem deilan milli ríkisvaldsins og Reykjavíkurborgar geti orðið til þess að tefja eða koma í veg fyrir, að þetta stórkostlega hagsmunamál um 27 þús. íbúa á Reykjanesvæðingu nái fram að ganga. Þegar svo bætast við gífurlegar hækkanir á olíuverði þessa dagana og óvissa um öflun hennar á komandi árum og um leið fyrirsjáanleg enn stóraukið misrétti milli þeirra, sem búa við hitaveitu, og hinna, sem þurfa að nota olíu til upphitunar húsa, getur engum blandast hugur um, að þetta deilumál verði að leysa tafarlaust og þannig, að hitaveita verði lögð í umrædd byggðarlög með ekki minni hraða en um hefur verið talað og samningar gera ráð fyrir.

Nú skal það skýrt tekið fram, að ég get ekki um það dæmt eins og sakir standa, til þess skortir mig nauðsynleg gögn, hvort synjun ríkisstj. á gjaldskrárhækkun Hitaveitu Reykjavíkur er á rökum reist. En kjarni þessa máls í mínum huga er sá, að þetta deilumál ríkisstj. og Reykjavíkurborgar verði að leysa, og því spyr ég hæstv. iðnrh.: Hver er afstaða ríkisstj. til óska Hitaveitu Reykjavíkur um gjaldskrárhækkanir?