20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

368. mál, hitaveituframkvæmdir í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðahreppi

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hér gefst að sjálfsögðu ekki tími til að ræða þessi mál ítarlega, en ég vil aðeins segja þetta: Aðalatriðin eru þau, að samningar milli Hitaveitu Reykjavíkur annars vegar og Hafnarfjarðar, Kópavogs og Garðahrepps hins vegar takist og verði að veruleika. Þeir hafa þegar verið gerðir milli Hafnarfjarðar og Kópavogs og hitaveitunnar. Þeir standa til boða Garðahreppi og væru sennilega þegar undirritaðir, ef ekki hefði verið synjað um umbeðna gjaldskrárhækkun.

Það er augljóst mál. um hvern sparnað er þarna að ræða fyrir íbúa þessara þriggja sveitarfélaga. Hann skiptir tugum, ef ekki hundruðum millj. á ári.

Hæstv. ráðh. sagði áðan, að ríkisstj. reyndi að sjálfsögðu að gera það, sem hún gæti, til þess að hamla gegn verðbólgu. Ég minnist fundar, sem fulltrúar þessara þriggja sveitarstjórna áttu fyrir tæpu ári annars vegar með hæstv. iðnrh. og hins vegar með hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. sagði þar, að hann mundi standa gegn öllum verðhækkunum og þ. á m. þessari. Það skal engan undra, þótt sumir hafi brosað, þegar hann talaði þessi orð. Ég minnist þess líka, að hæstv. iðnrh. var með hártoganir í garð sinna fyrri samborgara, Hafnfirðinga, um það, að þeir hefðu ekki einu sinni sótt um leyfi til þess að reka hitaveitu. Þannig eiga ekki hæstv. ráðh. að afgreiða þessi mál. Hér er allt of mikið í húfi til þess að vera með slíkan málflutning. Það er skylda ríkisstj. að styðja þessi sveitarfélög í baráttu þeirra fyrir því að koma á hitaveitu innan sinna marka, og þarna standa þeim til boða hagfelldustu samningar, sem hægt er að ná, og hafa það í för með sér, að bitaveifa gæti komist í öll þessi sveitarfélög á árinu 1976 eða yrði að mestu leyti tengd 1976.