20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

368. mál, hitaveituframkvæmdir í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðahreppi

Fyrirspyrjandi (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. hans jákvæðu undirtektir varðandi það mál, sem ég hef hér gert að umtalsefni og hef mikinn áhuga fyrir að fái framgang, þ. e. að unnt verði að leggja hitaveitu í Hafnarfjörð, Kópavog og Garðahrepp, svo sem samningar gera ráð fyrir. Hann hefur heitið því hér, að þetta gjaldskrármál, sem málið virtist ætla að stranda á, verði tekið á ný til athugunar hjá rn. En ég vil jafnframt undirstrika, að ég er ekki með þessum óskum og mínum málflutningi að kveða á neitt um það, hvort þessar hækkunarbeiðnir eigi við rök að styðjast eða ekki. Það, sem fyrir mér vakir, er, að þetta mál fái eðlilegan framgang og stífni milli yfirvalda verði ekki látin ráða úrslitum um það, hvort íbúar, sem eiga heima í þessum sveitarfélögum, eigi það undir henni komið, hvort hús þeirra verði upphituð með jarðvarma eftir 3 eða 4 ár eða ekki.

Við höfum orðið þess varir í dagblöðum í morgun, hversu ógnvekjandi blikur eru á lofti varðandi þróun verðlags á olíu í heiminum. Það var upplýst, eins og hv. alþm. sjálfsagt hafa tekið eftir, í blaðaviðtali í morgun, að allar líkur væru til þess, að verð á olíu til húshitunar kynni að hækka á næstunni um hvorki meira né minna en 90%. Það er ljóst, hversu gífurlega stórir hagsmunir hér eru á ferðinni fyrir þá íbúa í Hafnarfirði, Kópavogi, Garðahreppi og raunar víðar á landinu, sem hér um ræðir.