20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

368. mál, hitaveituframkvæmdir í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðahreppi

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Mig langar aðeins til að vekja athygli á því, sem hæstv. iðnrh. sagði hér, þegar hann svaraði fsp. frá hv. 5. landsk. þm. varðandi hitaveitusamninga og verð á heitu vatni hjá Reykjavíkurborg. Hann gaf í skyn, að það hefði ekki náðst samstaða innan ríkisstj. um þá hækkun, sem Reykjavíkurborg fór fram á, hann sjálfur hefði verið því hlynntur, en mér skildist, að allir hinir ráðh. hefðu verið á móti. Ástæðan var sú, að vísitölufjölskyldan á heima í Rvík, en hann lagði til, að hún yrði látin flytja suður til Hafnarfjarðar.

Ég vek athygli á þessu hér vegna þess, að í Reykjavíkurborg búa 85 þús. manns, og hækkun á kostnaði við hita og rafmagn í sambandi við vísitöluna er miðuð við Reykjavíkurborg, en aðrir landsmenn, þ. e. a. s. rúm 115 þús. manns, verða að taka á sig þá hækkun, sem verður á eldsneyti og rafmagni, án þess að nokkurt tillit sé tekið til þess við útreikning vísitölunnar.

Hæstv. ráðh. gaf fyllilega í skyn, að ákvörðun ríkisstj. í sambandi við þetta mál stafaði af því, að það væri verið að fyrirbyggja ákveðna hækkun á vísitölunni, sem hækkun á gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur hefði þýtt. Þetta er yfirlýsing, sem vegna íbúa Rvíkur er ástæða til að vekja athygli á.