24.10.1973
Neðri deild: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

17. mál, heykögglaverksmiðjur ríkisins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 17 er frv. til l. um heykögglaverksmiðjur ríkisins. Frv. það, sem hér er lagt fram, var kynnt á síðasta þingi. Frv. var samið af n. þeirri, er endurskoðaði lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Það er að þessu sinni lagt fram óbreytt eins og það var kynnt í d. í fyrra.

Ákvæði um heykögglaverksmiðjur á vegum ríkisins og stuðning ríkisins við þær er að finna í X. kafla laga, er varða landnám ríkisins. Vegna fyrirhugaðrar breytingar á verkefnum landnámsins þótti rétt að setja á um heykögglaverksmiðjurnar sérstök lög.

Í 55. gr. landnámslaga er ákvæði, sem segja, að landnámsstjóri skuli í samráði við Búnaðarfélag Íslands láta gera athugun um, hve margar heykögglaverksmiðjur sé rétt að byggja á næstu árum og hvar þær yrðu. Þessi áætlun hefur verið gerð og samþ. af landbrn. Nú starfa hér 4 fastar heykögglaverksmiðjur, þrjár í eigu ríkisins, þ. e. í Gunnarsholti, þar er Fóður- og fræframleiðslan, á Hvolsvelli, Stórólfsvallabúið og í Saurbæ í Dölum, hin fjórða er í eigu Brautarholtsbræðra á Kjalarnesi. Í þessum verksmiðjum hafa verið framleiddar nær 5 þús. smál. af heykögglum og grasmjöli. Verðið á þessu mjöli nú er um 15.50 kr. á kg. miðað við venjul. sölu, en afsláttur er gefinn; ef mikið magn er keypt. Þetta er fyllilega sambærilegt við fóðurbætisverð og hagstæðara. Eftirspurnin eftir heykögglum er mun meiri en hægt hefur verið að sinna. Heykögglar hafa reynst í tilraunum mjög gott fóður og betra en sérfræðingar gerðu sér vonir um. Reynsla bænda er sú sama, og sýnir það stöðugt aukin eftirspurn þeirra eftir þessari vöru. Ekki er vafi á því, að með heykögglum má verulega spara innflutning á kjarnfóðri.

Í áætlun þeirri, sem gerð hefur verið, er gert ráð fyrir að byggja þrjár nýjar verksmiðjur: í fyrsta lagi í Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu og svo í Saltvík í Reykjahreppi í Suður-Þingeyjarsýslum og Hólminum í Skagafirði. Undirbúningur er þegar hafinn að þessum verksmiðjum, en hann tekur nokkurn tíma.

Landbrn. ákveður á sama hátt og áður í sambandi við þetta frv. í samráði við Búnaðarfélag Íslands og Framkvæmdastofnun ríkisins nýjar verksmiðjur og stærð þeirra og staðarval. Ein stjórn verður yfir öllum verksmiðjunum í eign ríkisins, verksmiðjustjóri eða bústjóri verður fyrir hverri verksmiðju. Sameiginlegt bókhald, undirbúningur og aðföng gætu sparað rekstur þeirra verulega. Samræming verður á verði, og eðlileg skipting í sölusvæði mun skapast með einni stjórn yfir öllum verksmiðjunum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að skýra þetta frv. öllu meira, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. landbn.